27.04.1938
Neðri deild: 55. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (2597)

117. mál, prófessorsembætti í uppeldisfræði og barnasálarfræði

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Frv. þetta er flutt fyrir tilmæli stj. Sambands ísl. barnakennara og sterk meðmæli heimspekideildar háskólans. Það er flutt af menntmn. ágreiningslaust. Það er ekki úr vegi að hafa hér prófessorsembætti í uppeldisfræði, þeirri fræðigrein, sem skiptir þá stóru stétt, kennarana, svo miklu. Á menntun þeirra hefir engin breyt. verið gerð síðan 1907 og illa séð fyrir framhaldsmenntun þeirra innanlands. Þeir hafa því þurft að leita til útlanda til framhaldsfræðslu, en nú er þeim meinaður gjaldeyrir til utanferða, enda gætu þeir með ódýrari hætti aflað sér framhaldsmenntunar, ef hér væri fær prófessor og hefði rannsóknarskyldu og kennsluskyldu. Hann gæti og kennt bréflega þeim, sem þess óskuðu. Einnig gæti hann haldið fyrirlestra í útvarp og gæti útskrifað af námskeiði kennara, sem vildu fá meira próf. Hann gæti og kennt háskólastúdentum, sem ætluðu sér síðar að fást við kennslu eða kenna uppeldisfræði. Væri og mjög hentugt fyrir presta að njóta slíkrar fræðslu. Þessi prófessor gæti unnið að undirbúningi meiri breyt. á 1. um menntun kennara, sem nauðsynlegt er, að komi ekki síðar en þegar húsnæði háskólans verður tilbúið árið 1941.

Eftir undirtektum menntmn. að dæma, ætti þetta frv. að geta siglt hraðbyri gegnum þingið.