29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í C-deild Alþingistíðinda. (2601)

117. mál, prófessorsembætti í uppeldisfræði og barnasálarfræði

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. þm. V.- Sk. virðist ekki bera mikla umhyggju fyrir, að þetta frv. verði samþ., og mér skilst, að hann væri á móti því, ef hann ætti á hættu, að það gangi fram á þessu þingi. Samt ber hann fram till. um, að tekið verði tillit til þess við veitingu þessa embættis í uppeldisfræði, að viðkomandi maður geti einnig kennt forspjallsvísindi, og á þeim gefur hann þá skýringu, að þar sé um mesta glingur og óþarfa að ræða. En ef þessi lýsing hans á kennslu í forspjallsvísindum er rétt, skyldi maður ætla, að óþarfi væri að taka tillit til svona hégómlegra hluta.

Við, sem berum þetta frv. fram, gerum það í þeirri trú, að kennsla í uppeldísfræði við háskólann geti gert gagn, en okkur finnst óviðfelldið að setja svona sérstök skilyrði um embættaveitingar við háskólann. Okkur finnst réttast, að slíkt heyri undir háskólann sjálfan og svo stj., en ekki að sett séu skilyrði, sem geta vel verið út í bláinn.

Ég vil líka segja hv. þm., að sá maður, sem væri fær um að kenna uppeldisfræði, mundi undir flestum kringumstæðum vera fær um að annast slík námskeið í heimspeki fyrir byrjendur, svo að þessu leyti er till. óþörf, en ég kann miður við, að l. séu höfð svona, m. a. vegna þess, að við, sem frv. flytjum, teljum, að okkar þjóð geti haft gagn af því í framtíðinni að hafa jafnvel tvo prófessora, og sé annar kennari í sálarfræði og heimspeki, en hinn í uppeldisfræði og barnasálarfræði sérstaklega.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að sá maður, sem nú er prófessor í forspjallsvísindum, hefir ekki ýkjamikið starf við að kenna stúdentum þessa grein á fyrsta ári þeirra, en hann hefir reynzt ágætur alþýðufræðari með sínum bókum. Hann er mjög starfsamur og hefir gefið út bækur um það efni, sem aðrir hafa lítið skrifað um á íslenzku, og gert mjög mikið gagn. Við, sem þetta frv. flytjum, höfum þá trú, að þar sem hér er ekki aðeins að ræða um kennara við háskólann, heldur einnig alþýðufræðara í heimspeki og sálarfræði, þá sé þarna fullkomin þörf fyrir 2 slíka menn.

Ég legg því til, að till. verði felld. Hún er óþörf og óviðfelldin, þar sem nm háskólaembætti er að ræða.