28.04.1938
Neðri deild: 56. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (2615)

120. mál, útvarpsráð

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Mér finnst þetta einkennilegt frv., sem hér er komið fram. Það er auðséð, að tilgangurinn á bak við það er að skipta um menn í útvarpsráði eins og nú standa sakir, og það á sérstaklega að breyta um þá menn, sem Alþ. kýs, án þess að láti fara fram í ár kosningu á þeim mönnum, sem útvarpsnotendur kjósa. Ég held, að bezt væri fyrst og fremst að athuga í sambandi við þetta frv., hvað liggur á bak við það. Ég sé ekki, að það, sem reynt er að finna til hér sem ástæðu í grg., hafi við nein veruleg rök að styðjast. Ég sé ekki betur en að fyllilega væri hægt að koma kosningu þannig fyrir á næsta ári, að allt kæmi heim og saman. Ég geng út frá því, að það sé flokkur alþýðusambandsstjórnarinnar, sem hér er að reyna að beita valdi sínu þannig, að á einhvern hátt verði hægt að skipta um menn í útvarpsráði.

Öllum hv. þm. er kunnugt um, hverskonar deilur það eru, sem standa innan Alþfl., og hv. þm. vita einnig, að sú deila verður fyrst útkljáð af alþýðusambandsþinginu í haust. Einnig er vitað um margendurteknar tilraunir, sem gerðar hafa verið af hendi meiri hl. alþýðusambandsstjórnar til að útkljá þessa deilu á ólýðræðislegan hátt áður en þingið kemur saman, þannig, að farið verði að sprengja flest jafnaðarmannafélög í landinu og búa til ný alþýðuflokksfélög, svo að mikill hluti manna, sem eru í Alþfl., verði rekinn úr honum, ef þeir ganga ekki í þessi sérstöku félög, þar sem gert er að skilyrði að játast undir stefnu meiri hl. sambandsstjórnar og á móti minni hl. hennar. Síðan ætlar stjórn sambandsins, sú er nú situr, að reka þá menn og þau félög úr flokknum, sem ekki vilja gangast undir þessi skilyrði. Þetta hefir þegar verið framkvæmt á Seyðisfirði, og í ráði mun vera að framkvæma það víðar. Hefir það greinilega komið fram í málgagni alþýðusambandsstj., Alþýðubl., og þar hafa þeir tveir Alþfl.- menn, sem eiga sæti í útvarpsráði, þeir Pétur G. Guðmundsson og Sigfús Sigurhjartarson, sætt sérstökum árásum frá meiri hl. sambandsstjórnar. Hinsvegar er enginn vafi á því, að þessir menn teljast Alþfl.menn, og annar þeirra er, ef ég man rétt, sá varaþm. Alþfl., sem mundi næstur taka sæti á Alþ., ef einhver þm. flokksins forfallaðist.

Það, sem liggur á bak við þetta frv., er það, að meiri hl. alþýðusambandsstj. vill koma fram pólitískum ofsóknum, ekki á hendur mönnum úr öðrum flokki, heldur mönnum, sem tilheyra sama flokki, en hafa aðrar skoðanir um ýms mikilsvarðandi mál.

Mér finnst það ganga fram úr hófi, ef Alþ. fer að stuðla að því, að slíkar ofsóknir eigi sér stað. Mikið hefir verið um það talað hér, ekki sízt í sambandi við umr. þær, sem fram fóru í gær við afgreiðslu vinnulagafrv. til 3. umr., að það þyrfti að vernda verkalýðinn gegn pólitískum ofsóknum, og sama kom fram í rökst. dagskrá, sem afgr. var í þessari hv. d. á síðasta þingi, þar sem Alþ. lýsti andúð sinni á pólítilskri skoðanakúgun, hverrar tegundar sem væri. Ég sé ekki betur en að með frv. því, er hér liggur fyrir, sé annarsvegar verið að reyna að láta Alþ. hlutast til um, að ákveðnir menn séu sviptir réttindum og stöðum, sem þeim hefir verið úthlutað á lögmætan hátt, einungis vegna þess, hvaða skoðanir þeir hafa innan síns flokks á ákveðnum velferðarmálum alþýðunnar, og í öðru lagi sé verið að reyna að tryggja það, að útvarpið verði notað á enn harðvítugri hátt en verið hefir gert af þeim flokki, sem aðallega fer með völd í landinu, og þeim hluta Alþfl., sem styður hann. Ég sé enga ástæðu til að fara að láta sérstaklega að vilja þeirra manna, sem vilja koma þessu frv. í gegn. Ég sé ekki betur en að alveg sé hægt að tryggja, að kosning geti farið fram á lögmætan hátt á næsta ári, án þess að fara að samþ. þetta frv., og að rangt spor væri stigið með því að samþ. frv. að svo miklu leyti, sem það sé til að bæta formgalla á l.

Ef eitthvað er athugavert við dagafjöldann til undirbúnings kosningunni, þá er eðlilegra að breyta l. á þann hátt, að kosning fari fram næsta ár á öllum þeim, sem í útvarpsráð þarf að kjósa á venjulegan, lýðræðislegan hátt.

Ég er þess vegna á móti frv., sem hér liggur fyrir, sérstaklega af því, að ég álít, að það liggi á bak við, sem ég hefi skýrt frá, og ég álit það rangt af Alþfl. að láta hafa sig sem verkfæri pólitískrar klíku.