28.04.1938
Neðri deild: 56. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (2618)

120. mál, útvarpsráð

Einar Olgeirsson:

Það er ekki til neins fyrir hv. þm. Seyðf. að vera að reyna að snúa út úr þeim orðum, sem ég lét falla hér áðan. Það er sjáanlegt, að aðalatriðið fyrir honum og hans samherjum er það, að koma þessum mönnum úr útvarpsráði. Ég hefi réttilega bent á, að það er hægt að gera nauðsynlega breyt. á þessum l. þannig, að ekki felist í því pólitísk ofsókn á þessa menn, sem nú eru í útvarpsráði af hálfu Alþ. Það er hægt að setja það í frv., að kjörtímabil þessara manna renni ekki út fyrr en það átti að gera eftir gömlu l. Það þarf ekkert að koma að sök hvað snertir kosningarnar til útvarpsráðs. En þetta er bara ekki tilgangurinn með frv. Það er þess vegna von, að hv. þm. Seyðf. eigi erfitt með að verja þetta mál.

Ég mun nú undir 2. umr. athuga þetta og koma með brtt. við þetta, sem tryggir það, að hægt sé að framkvæma þessi l. og láta þær aðgerðir, sem gerðar hafa verið, standa í gildi.