04.05.1938
Neðri deild: 61. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (2644)

127. mál, landssmiðjan

*Flm. (Jón Pálmason):

Ég þarf náttúrlega ekki mikið að svara hv. 2. þm. Árn. út af þessu. En mér skildist á honum, að það gæti fyrst komið til mála að leggja þetta fyrirtæki niður, þegar reynslan væri komin, að það bæri sig ekki, ef sæmilega væri að því búið. Nú er það upplýst, og það veit náttúrlega hv. þm., að það eru ekki neinar líkur til, að fyrirtækið beri sig eins og nú stendur. Og samkv. upplýsingum forstjóra landssmiðjunnar telur hann, að eina vonin til þess að geta rétt fyrirtækið verði að ráðast í talsvert stórar og dýrar byggingar. Þess vegna vil ég undirstrika það, sem ég gat um áðan, að um tvær leiðir er að velja. Annaðhvort gera upp þetta fyrirtæki eða ráðast í dýrar byggingar, og þá myndi þurfa að verja allmiklu fé í húsrúm undir áhöld o. fl. Þegar þesskonar hlutir eru nokkurn veginn fyrirfram augljósir, þá sé ég ekki neina ástæðu til að bíða þangað til fram kemur reikningslega á pappírnum, hve tapið er mikið á fyrirtækinu. Viðvíkjandi því, að landssmiðjan hafi haldið vinnulaunum lægri að undanförnu fyrir ríkið en ella myndi hafa orðið, þá er náttúrlega á hvorugan kantinn hægt að færa sönnur fyrir því. Þessu má þó gera ráð fyrir í byrjun, að hjá þessu fyrirtæki hafi þetta verið svo. En eftir þeim upplýsingum, sem við flm. höfum aflað okkur, virtist okkur stjórnarandstæðingum ekki neinar líkur til, að sú vinna, sem ríkið þarf að láta framkvæma, verði dýrari hjá öðrum fyrirtækjum. Ef ákvörðun væri tekin um þetta af Alþingi, að leggja niður landssmiðjuna, eins og við leggjum til, og það gert í samráði við vegamálastjóra og vitamálastjóra, þá mætti taka til athugunar, hvort ekki væri hægt að koma á samningum til fleiri ára við önnur fyrirtæki um það, sem ríkið þarf að láta vinna á þessu sviði.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til, nema tilefni gefist frekar, að orðlengja um þetta. Ég vænti, að deildin geti samþ. að láta málið halda áfram eins og ég hefi lagt til.