23.04.1938
Efri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Bjarni Snæbjörnsson:

Það eru aðeins örfá orð út af þeirri fyrirspurn, sem ég beindi til n. við 2. umr. málsins. Mig langar til að fá það enn skýrar fram hjá n., hvað hún meinar með þessari till. sinni. Mér finnst það ekki hafa komið nógu greinilega fram hjá hv. frsm. Eins og ég drap á við 2. umr., ætla ég ekki að gera að umtalsefni þá till., sem kom fram á síðasta þingi um viðreisn sjávarútvegsins; hún hefir verið svo mikið rædd áður. En frá mínum bæjardyrum séð var sú till. vanhugsuð, eins og kom fram þá. Vitanlega átti að endurreisa sjávarútveginn á þann hátt, eins og sjálfstæðismenn réttilega bentu á, að gera þeim mönnum, sem stunda útgerð nú og mesta reynslu hafa í þessum efnum, kleift að standast þau áföll, sem nú steðja að, svo að þeir gætu sjálfir endurnýjað flotann. En þegar þetta bætist við, get ég ekki annað séð, þrátt fyrir bezta vilja, en þessi till. verði að einskonar vanskapnaði með þessu áframhaldi.

Samkv. till, áttu 15% að greiðast af væntanlegum hluthöfum, en 25% átti að gefa. Nú er ætlazt til þess, að helmingur þess skattauka, sem myndast við þessa 15% álagningu á 6000 kr. skattskyldar tekjur, renni til fiskimálasjóðs, og sé honum varið til þess að lána sjómönnum og verkamönnum, sem vilja gerast hluthafar í togurunum, 1/3– 1/2 af tilskildu framlagi þeirra, og á það að vera gegn tryggingu, sem fiskimálanefnd tekur gilda. Nú er spurningin: hefir meiri hl. n. gert sér ljóst, hvaða trygging ætti að koma til greina? Sé um eignalausa menn að ræða, skilst mér, að ekki sé hægt að fá greiðslu á annan hátt en þann, að tekið sé af kaupi þeirra. Og ef þetta er ekki hægt á annan hátt, liggur í hlutarins eðli, að það er jafnhægt fyrir þessa menn að fá lán upp á mánaðarlega afborgun af kaupi þeirra hjá einhverri lánsstofnun eins og að fá lán hjá fiskimálasjóði upp á sömu tryggingu. Sé hinsvegar ekki um eignalausan mann að ræða, getur hann boðið aðra tryggingu en einhvern hluta af kaupi sínu. Mér finnst því algerður óþarfi að fara þessa leið. Það má einu gilda, hvort maður fær lán hjá einhverri lánsstofnun, sem sennilega myndu fúsar til að lána, þegar hlutaðeigandi væri í fastri atvinnu, eða hjá fiskimálasjóði. Það getur verið, að n. hugsi sér aðra tryggingu en þessa, og þætti mér þá fróðlegt að vita, hver hún væri.

Svo er annað atriði, sem ég minntist á, og það er, hvort það eigi að skattleggja önnur sveitar- og bæjarfélög til þess að hjálpa vel stæðum bæjarfélögum eða mönnum þar til að leggja í þessa togara. Segjum t. d., að þær tekjur, sem hingað til hafa runnið til Vestmannaeyja, Ísafjarðar, Akureyrar, Siglufjarðar og Hafnarfjarðar, rynnu nú til þess að hjálpa Reykjavík til að kaupa togara. Þrátt fyrir það, að hv. frsm. minntist á, að þetta væri aðeins til eins árs, er ranglætið það sama. Það má segja, að það sé ekki mikil fúlga, sem kemur frá þessum bæjum, en þeir eru fátækir og þá munar um hvað litla upphæð sem er. Það eru nokkur þús. kr., sem koma frá Hafnarfirði í slíkan sjóð og þennan, — við skulum segja 3–1 þús. kr. —, en við höfum nóg brúk fyrir þetta fé hjá okkur, og eins er með hina bæina. Ef Reykjavíkurbær leggur fram fé í þennan sjóð, þá á hann siðferðislegan rétt til þess að fá þá tvo togara, sem um er að ræða. En verði engin breyt. gerð á þessum l., þá hafa allir kaupstaðirnir sama rétt til að ná í skipin, jafnt Hafnfirðingar og Reykvíkingar, og veltur allt á því, hverjir verða fyrstir til að mynda félag um togarana. Segjum sem svo, að það myndaðist á augabragði félag í Hafnarfirði um togara. Þá er spurningin: myndu Hafnfirðinar fá þau kjör, sem þarna eru á boðstólum, á undan Reykvíkingum? Þetta er atriði, sem mig langar til að fá leyst úr, hvort það félag, sem fyrst verður stofnað, á að fá fyrsta togarann. Ef svo er ekki og ef n. álítur, eins og hv. 1. þm. Reykv. virðist gera, að Reykjavík hafi siðferðislegan rétt og ætti að hafa lagalegan rétt til þess að verða þessara ívilnana aðnjótandi, af því að hún leggur mest af mörkum í þennan sjóð, sé ég ekki fram á, að Hafnfirðingar fái hlutdeild í þessum 2 togurum, sem hér er um að ræða. Og þá finnst mér, að bæði Hafnarfjörður og aðrir bæir, sem eins er ástatt með, ættu að mega nota þann skaftauka, sem þeir fá, samkv. núgildandi l. Þetta er atriði, sem kom ekki skýrt fram hjá hv. frsm. hvort ætlazt er til þess, að það félag, sem fyrst verður stofnað utan um togara, hvar sem er á landinu, verði þessara hlunninda aðnjótandi, eða hvort það er hinsvegar ætlazt til þess, að sá bær, sem leggur mest af mörkum í þennan sjóð, gangi fyrir með veitingu úr sjóðnum. Eins og ég drap á áðan, finnst mér, að það sé jafnhægt fyrir sjómenn og verkamenn að fá lán gegn mánaðarlegri afborgun, sem tekin er af kaupi þeirra, hjá bönkum og sparisjóðum eins og hjá fiskimálasjóði. Þetta fé á að nást inn aftur til fiskimálasjóðs, og það ætti eins að nást inn í viðkomandi banka og sparisjóð.

Mér er kunnugt um, að það hafa verið stofnuð í Hafnarfirði bæði hlutafélög og samvinnufélög meðal sjómanna, sem vinna á togurum. Og þessi félög hafa fengið lán í bönkum og sparísjóðum, sem greidd hafa verið smátt og smátt af kaupi félagsmanna. Þetta hefir gengið ágætlega, að því er ég bezt veit. Og vitanlega myndi mönnum ekki frekar verða neitað um slík lán nú, og það til að kaupa nýja togara.

Mér finnst ég ekki geta greitt atkv. í þessu máli, fyr en ég fæ úr því skorið, hvernig meiri hl. n. ætlar að haga þessu með væntanleg togarafélög.