23.04.1938
Efri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Það voru svo háværar samræður hér í næsta herbergi, þegar hv. 1. þm. Reykv. var að tala, að ég heyrði ekki vel til hans, en mér heyrðist þó, að hann væri að ræða um svipað efni eins og hv. þm. Hafnf., og mun ég geyma mér að minnast á það, þangað til ég minnist á ræðu hv. þm. Hafnf. (MJ: Ég vildi bara fá yfirlýsingu um það, hvort ekki væri ætlazt til þess, að þetta fé gengi fyrst til þeirra staða, þar sem hátekjuskatturinn nær eingöngu er greiddur).

Hv. þm. Vestm. rifjaði hér nokkuð upp umr. þær, sem fóru fram við 2. umr. þessa máls. Hann taldi, að það væri mjög röng stefna, sem fram kæmi í þessu frv., að fara að verja þessu fé til nýrra framleiðslutækja, í stað þess að styðja þann útveg, sem fyrir væri í landinu.

Ég verð að halda því fram, alveg hiklaust, að það hafi nokkuð verið gert til þess að styðja þann útveg, sem nú er til í landinu, með þeim ráðstöfunum, sem síðasta þing gerði og ég ætla ekki nánar að fara að rekja. En hitt er vitanlegt, að þegar fólkinu fjölgar í landinu árlega um nokkuð á 2. þús. manns og atvinnuleysi er í landinu, þá er það auðvitað nauðsynlegt líka, að styðja ný framleiðslutæki og að sjá um, að þau komi til þess að þetta nýja fólk hafi eitthvert verkefni. Það hefir verið mikið talað um það í ádeilum hv. stjórnarandstæðinga, að stj. hafi ekki tekizt að uppræta atvinnuleysið, en ég held, að í þeim ádeilum hafi ekki verið komið að því, að vitanlega hafa miklu fleiri menn atvinnu í landinu nú en höfðu þegar stj. var mynduð, þó að atvinnuleysi sé til, en það er fólksfjölgunin, sem þar kemur til greina, og þeir nýju menn, sem alltaf koma upp á hverju ári og þarfnast atvinnu.

Hv. þm. Vestm. var að tala um kröfur útvegsmanna, sem ekki hefði verið sinnt. Það er nú svo, að það er vitanlega ekki hægt að sinna öllum upphugsanlegum kröfum, sem fram koma, en ég hygg, að þeim hafi þó verið sinnt eins og eftir atvikum er fært, og að full viðleitni sé til þess, að svo miklu leyti sem stendur í valdi ríkisins, að greiða fyrir þeim svo sem mögulegt er. Það er náttúrlega alltaf handhægt að tala um að gerðar hafi verið kröfur og að þeim hafi ekki verið sinnt, en það væri vitanlega ómögulegt að sinna öllu. Ég hefi gert nokkurt yfirlit yfir fjárbeiðnir, sem komið hafa nú til Alþ., og mér skilst, að þó að fjárlfrv. þyki hátt og talað sé um hæstu fjárl., sem nokkru sinni hafi sézt, þá þyrfti fjárlfrv. að þrefaldast, ef fullnægja ætti öllum þeim kröfum, sem gerðar eru.

Hv. þm. var að tala um það — og það er nú ekkert nýtt frá honum og hans flokki —, að framsóknarmenn sýndu mesta tómlæti í öllum útvegsmálum. Ég verð nú að segja, að ég held, að það megi fullyrða það, að frá ríkisins hálfu hafi ekki verið gert meira til stuðnings útveginum heldur en einmitt á þeim tíma, sem framsóknarmenn hafa verið við völd. Það er alveg rétt, að hv. þm. Vestm. hefir unnið að því að greiða fyrir sölu íslenzkra afurða erlendis, en ég hygg, að það hafi verið að frumkvæði þessarar „vondu framsóknarstjórnar“, sem hann gerði. það. Það var hún, sem sendi hann út í lönd í þeim erindum. — Ég ætla svo ekki að eyða meiri tíma í þetta. Það má taka upp þessar umr. hvenær sem er, og verða sjálfsagt nóg tækifæri til þess bæði utan þings og innan.

Eg skal svo geta þess, að ég fellst alveg á þá skrifl. brtt., sem hv. þm. Vestm. bar hér fram.

Hv. 6. landsk. ræddi hér um 4. gr. frv. og taldi þeim málum illa fyrir komið, sem 4. gr. fjallar um. Ég er honum alveg sammála um þetta og hefi getið þess fyrr í þessum umr., en ég hefi ekki komizt upp með það, hvorki í n. né annarsstaðar. Það hefir ekki verið tekið í það að koma þessu í það horf, sem ég tel skynsamlegast, sem er það, að þessar tekjur af benzíninu renni í ríkissjóð eins og hverjar aðrar tekjur, en sé svo úthlutað í fjárl. eftir till. fjvn., alveg eins og hverju öðru ríkisfé. En það þótti mér að ræðu hv. 6. landsk., sem var ágæt og sanngjörn í alla staði, hvað fyrri hlutann snerti, að till. hans og síðari hl. ræðu hans kom í bága við það, sem hann tók réttilega fram í fyrri hluta ræðunnar, því að hann vill með till. sínum auka þann glundroða, sem er í úthlutun þessa fjár. Hann var eitthvað að tala um það, að ég vildi láta verja því fé, sem til Vesturlandsins færi, til heiðar, sem eiginlega væri aldrei farin. Ég hefi aldrei talað um þetta. Ég tók það fram í fyrri ræðu minni, að n. hefði enga afstöðu tekið til þeirra till., sem útbýtt var nú á þessum fundi, enda hafði hún ekki tíma til þess.

Hv. þm. Hafnf. gerði hér fyrirspurn um það, hvaða tryggingar það væru, sem ætti að setja fyrir lánum til togarakaupa. Því get ég auðvitað ekki svarað. Það er fiskimálanefnd, sem á að meta það, og þetta er ekkert nýtt í l., þó að tekið sé svo til orða, að lána eigi fé gegn tryggingum, sem stj. stofnunar metur gildar; svo mun það vera um byggingar- og landnámssjóð, nýbýlasjóð og alla mögulega sjóði, og það er ómögulegt fyrir frsm. þingnefndar að segja um það fyrirfram, hvaða tryggingar það séu, sem eigi að taka gildar. — Sama máli gegnir reyndar um þær fyrirspurnir hv, þm., sem lutu að því, hverjir ættu að fá þetta fé fyrstir. Ég get vitanlega ekki svarað því, því að samkv. till. okkar meiri hl. n. er það fiskimálanefnd, sem á að ráðstafa þessu fé, en ég get tekið það fram sem mína skoðun, að ef svo fer, að þessi f. verða framlengd óbreytt ár frá ári og ef 1. till. meiri hl. n. verður samþ., þá tel ég ákaflega sanngjarnt og eðlilegt, að þetta fé sé ekki alltaf lánað í sama stað, heldur sé reynt að dreifa því um landið. Hv. þm. spurði um það, hvort það myndi vera fyrsta félagið, sem stofnað yrði, sem ætti að fá framlag úr fiskimálasjóði, hvar sem það væri. Ég get vitanlega ekkert um það sagt. Fiskimálanefnd verður að taka þar allar ástæður til greina og meta þær, en ef t. d. eitt slíkt félag yrði stofnað, og annað félag ekki til, þá þykir mér það ákaflega líklegt, að það verði ekki látið standa í vegi, á hvaða stað þetta félag er; en um þetta get ég ekkert fullyrt. Ég álit, að það ætti að vera óhætt að trúa fiskimálanefnd fyrir þessum ráðstöfunum, alveg eins og stj. ýmsra annara sjóða er trúað til þess að fara með þá, og þó að ég skýrði þessi ákvæði eitthvað nánar en ég hefi gert, þá býst ég við, að hv. þm. væru engu nær, því að vitanlega hafa mín orð ekkert lagagildi á nokkurn hátt.