07.04.1938
Efri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (2667)

22. mál, bifreiðalög

*Frsm. (Páll Hermannsson):

Allshn. hefir haft þetta mál til meðferðar nokkuð lengi, enda hefir n. þótt málið erfitt. Bifreiðalög þurfa að vera nokkuð margbrotin og þau koma víða við, og margt í þeim er viðkvæmt og vandasamt til úrlausnar. N. hefir leitað álits ýmsra þeirra manna, sem hún hefir náð til og helzt mátti ætla, að gætu gefið um málið gagnlegar leiðbeiningar. Brtt. þær, sem n. ber fram á þskj. 179, eru að töluverðu leyti gerðar eftir bendingum frá þessum mönnum, og þá sérstaklega eftir bendingum frá vegamálastjóra. En ýmsir fleiri hafa gefið n. bendingar viðvíkjandi frv.

Það er vitað, að bifreiðaumferð er orðin mjög mikil hér á landi, og bifreiðalögin hljóta því að verða fyrirferðarmestu umferðalögin í landi þessu. Þó þarf náttúrlega reglur um allskonar umferð, t. d. ríðandi manna, manna á venjulegum reiðhjólum og gangandi manna og akandi. N. hafði komið það til hugar, hvort ekki væri gagnlegt og jafnvel nauðsynlegt, að inn í þessi bifreiðalög væri settur sérstakur kafli með almennum umferðareglum. En ekki hefir verið í það ráðizt enn, og verður sennilega ekki gert, vegna þess, að eitt aðalatriðið í almennum umferðareglum er það, hvernig eigi að víkja eða til hvorrar handar eigi að víkja. Um það eru að vísu ákveðin fyrirmæli hjá okkur nú, að víkja ætíð til vinstri handar, en það er í ósamræmi við reglur, sem gilda í flestum nágrannalöndum okkar, að undanteknu Englandi og Svíþjóð. N. var það ljóst, að það er ekki gerlegt að ráðast í að setja almennar umferðareglur nema því aðeins, að fyrirfram væri séð, að þessu þýðingarmikla atriði verði ekki breytt. Ég býst þess vegna við, að það verði ekki ráðizt í það á þessu þingi að setja kafla í bifreiðalögin um almennar umferðareglur.

Það má geta þess, að n. hefir að sjálfsögðu viljað greiða fyrir þessu máli, því hún telur ný bifreiðalög nauðsynleg, en hún hefir verið í nokkrum vafa fyrir sitt leyti, hvort þetta frv. til bifreiðal. muni verða afgr. frá þessu þingi. N. hefir fyrir sitt leyti viljað leggja áherzlu á að afgreiða málið frá þessari d., jafnvel þó hún sé í nokkrum vafa um það, hvort eigi að afgr. það frá þessu þingi, vegna þess hvað málið er vandasamt. En sú d., sem fær málið síðar til meðferðar, getur náttúrlega ákveðið, hvort hún vill ráðast í að gera frv. að l.

Það má geta þess, að nágrannaþjóð okkar Danir hafa varið margra ára nefndarstarfi sinna færustu manna til þess að undirbúa umferðalög, sem eru að mestu leyfi gengin í gildi nú nýlega, en nokkur atriði eru þar óútkljáð enn.

N. hefir flutt fjölda af brtt. Ég ætla, að brtt. séu við 26 gr. af þeim 43 gr., sem eru í frv., og auk þess eru margar af þessum brtt. undir allmörgum stafliðum. Það er ekki svo margmennt hér í hv. d., að það sé ástæða til að verja löngum tíma í að skýra þessar brtt. Þó þessar brtt. séu svona margar, þá eru ekki að sama skapi miklar efnisbreyt. í þeim, því allmargar þeirra eru orðabreyt. eða orðalagsbreyt„ sem að sumu leyti þóttu fara betur og að öðru leyti þóttu nauðsynlegar vegna þess, að n. fannst, að sumstaðar mætti misskilja orðalag. Þó þessar brtt. séu margar, þá er það vitað, að allshr., mun bera fram allmargar nýjar brtt. við 3. umr.

Mér þykir rétt að benda á nokkrar brtt., sem einkum eru efnisbreyt., þó ég sjái ekki ástæðu til að fara nákvæmlega út í það, því hv. þdm. geta vonandi áttað sig á þeim, þó þær séu margar. — 1. brtt. er við 2. málsgr. 1. gr. frv., en 2. málsgr. telur upp áhöld, sem undanþegin eru l., eins og t. d. traktorar og vegheflar og önnur vélknúin ökutæki, sem notuð eru til jarðyrkju eða vegavinnu. N. orðaði þessa grein að sumu leyti nokkuð um og bætti nýju ákvæði við, sem er svo hljóðandi: „Einnig eru undanþegnir pallvagnar á lágum hjólum, sem notaðir eru til vöruflutninga að og frá skipi“. N. leit svo á, að þessi áhöld ættu að koma undir undantekningarnar, en það hafði láðst að geta þess í frv. Þá er 2. brtt., sem er við 3. gr. frv. Þar er í fyrsta lagi ákveðið, að í staðinn fyrir dómsmrh., sem þar var nefndur, skuli koma: „Ráðherra sá, sem fer með vegamál“. Þessi gr. fjallar um atriði, sem beinlínis kemur vegamálum við, en í frv. er dómsmrh. látinn hafa væntanlega framkvæmd þessara l. og eftirlit með þeim, og hann á að setja reglugerð um ýms atriði. Þó er á einstaka stað í frv. ætlazt til, að atvmrh. komi í staðinn fyrir dómsmrh. Það atriði, sem 3. gr. fjallar um, virðist beinlínis heyra vegamálum til, og þess vegna er ætlazt til, að þetta heyri ekki undir dómsmrh., heldur atvmrh. En með tilliti til þess, að sá ráðh., sem heitir atvmrh., fer ekki ætíð með vegamál, þá orðaði n. það svo hér, að þetta skyldi heyra undir þann ráðh., sem með vegamálin fer, og síðar í brtt. og yfirleitt í frv. er þessi ráðh. kallaður vegamálaráðherra. Það er dálítið vafamál, hvort d. vill taka þessa aðferð upp, og ég geri ráð fyrir, að það muni ekki valda neinum verulegum ruglingi, þó ráðh. væri kallaður atvmrh., eins og hann heitir. En það er ekkert nýmæli, þó ráðh. sé kenndur við sérstaka starfsgrein, jafnvel þótt hann heiti ekki eftir þeirri starfsgrein í l. Það er t. d. ekki til í l. neitt, sem heitir landbrh., heldur heitir hann atvmrh., en þó er það algengt í lagamáli að nefna hann landbrh. Sá ráðh., sem með vegamálin fer, er líka einatt kallaður vegamálaráðherra.

Þá vil ég nefna brtt. við 5. gr. Þar eru ákvæði um hemla í bifreiðum. Í frv. er gert ráð fyrir því, að með tveim hemlum megi stöðva bifreið. Hemlar í bifreiðum eru af ýmsum tegundum, og vinna ekki hvor fyrir sig, heldur báðir saman. Þess vegna eru ákvæði 5. gr. orðuð um með hliðsjón af staðreyndum. En eftir ákvæðunum óbreyttum væri alls eigi hægt að nota sumar tegundir bifreiða. Sömuleiðis er umorðun við 7. gr., sem í raun og veru er ekki veruleg efnisbreyt., en brtt. er með allmikið breyttu orðalagi. Í 7. gr. er gert ráð fyrir því, að ljós skuli sett og stillt á þann hátt, að vel megi skilgreina þau í 20 metra fjarlægð á jöfnum vegi, og miðgeislar þeirra megi ekki vera hærri en einn metri yfir akstursbrautinni. Þess ber að gæta, að ljósin eru þannig sett á sumar bifreiðar, að erfitt er að koma því við, að miðgeislar þeirra yrðu í 20 metra fjarlægð á jöfnum vegi eigi hærri en einn metra yfir akbrautinni. Greinin er orðuð þannig: „Ljósin skulu lýsa akbrautina framundan nægilega til þess að skapa nauðsynlega yfirsýn fyrir ökumanninn og sett þannig, að ljósmagnið valdi þeim sem minnstum óþægindum, er mæta bifreiðinni“. Þetta er eitt og hið sama. Í báðum tilfellunum er átt við að gera ekki óþægilega þá umferð, sem á móti bifreiðinni kemur, og orða greinina þannig, að hún verði framkvæmanleg. Þá er með d-lið brtt. fellt burt niðurlag 4. málsgr. 7. gr. Þau ákvæði eru endurtekin í frv. í 14. gr., og þótti því óþarfi að hafa hið sama á báðum stöðunum.

Þá er að minnast á 8. brtt., við 14. gr. Þar er tekið inn ákvæði um, að skoðun skuli fara fram á bifreiðum. Hefir þar af vangá fallið niður þegar frv. var samið: „Slík skoðun er svo sem vikið er að í 12. gr.“.

Í brtt. við 19. gr. frv. eru dregin saman nánar en gert er í frv. ýms ákvæði, sem dómsmrh. á að setja reglugerð um, eins og annað, sem viðkemur bæði akstri bifreiða á vegum og geymslu á eldfimu efni, sem notað er vegna bifreiða.

Ég fer nú fljótt yfir sögu. Næst nefni ég 19. brtt., sem er efnisbreyting við 28. gr. Það er gert ráð fyrir því í fjórum smágreinum, að þegar bifreið mætir vögnum og öðrum vegfarendum, þar sem vegurinn er svo mjór, að ekki er unnt fyrir hvorn að komast framhjá öðrum, skuli bifreiðin aka til baka. Þetta er sjálfsagt að því leyti, er snertir vagna. Bifreiðum er skylt að aka til baka, þegar þær mæta hestvögnum. Hinsvegar þótti n. það ekki sjálfsagt, þótt bifreiðar mættu ríðandi manni, að þeim væri skylt að aka til baka. Þess vegna leggur n. til, að orðin „eða öðrum vegfarendum“ falli burt, en bifreiðum, sem mæta vögnum, skuli skylt að aka til baka.

Þá kem ég að 20. brtt., við 29. gr., sem er líka efnisbreyting. Hún er um það, að ef slys vill til, sem stendur í sambandi við notkun bifreiða, skuli bifreiðarstjóri fara eftir ákvæðum reglugerðar. Hann skal stöðva bifreiðina, segja til um nafn sitt og heimilisfang og veita þeim aðstoð, er slasast. Enginn munur er á þeirri þörf, sem er á aðstoð bifreiðarstjórans, hvort sem slysið stafar af bifreiðaakstri eða einhverju öðru.

21. brtt., sem er við 34. gr., er ef til vill seinasta og mesta efnisbreytingin af öllum þessum brtt. 31. gr. er um skaðabótaskyldu. Upphaf greinarinnar hljóðar svo: „Verði tjón af notkun bifreiðar á mönnum eða munum, er sá, sem ábyrgð ber á henni, skyldur til að bæta það að fullu, enda þótt hvorki honum eða ökumanni bifreiðarinnar verði kennt um tjónið“. Hér er um mjög skýrt og fullkomið ákvæði um skaðabótaskyldu bifreiðaeigenda að ræða. Samkv. gr. eru þeir skyldir til þess að bæta að fullu tjón það, sem þannig stendur á, þó að hvorki bifreiðaeiganda né bifreiðarstjóra verði kennt um það. Það er vitanlega mikið álitamál, hve langt á að ganga í ákvæðunum um skaðabótaskyldu. Ýmsir halda því fram, að bifreiðaakstur sé svo hættuleg atvinnugrein, að það sé eðlilegt. að á honum hvíli þung ábyrgð, og mikil skylda sé að bæta það tjón, sem hlýzt af akstri bifreiða. En aðrir benda á með rökum, að þótt akstur bifreiða sé hættulegur, sé hann líka gagnleg atvinnugrein, sem eigi að njóta þess, hve hún er nauðsynleg, samtímis því, hve hún er hættusöm. N. leggur því til að setja í stað orðanna „enda þótt hvorki honum né ökumanni verði kennt um tjónið“ í 1. málsgr.: nema það sannist, að ekki hafi verið hægt að komast hjá tjóni, þótt bæði akstur og ökutæki þess, er tjóninu olli. hefði verið í fullu samræmi við settar reglur. Þetta ákvæði er tekið upp úr bifreiðalögum Dana. Hliðstæð ákvæði eru í bifreiðalöguur Dana, sem eru nýkomin í gildi. Ákvæðin um vátryggingar á bifreiðum og skaðabótaskyldu eru þannig, að mjög vandasamt er að gæta þess, að öllum sé gert rétt til. Menn mega ekki gleyma því, að eftir því, sem gjöldin eru hærri, þess kostnaðarsamari verður vitanlega bifreiðaaksturinn. Því að náttúrlega fæst slík vátrygging ekki fyrir ekki neitt. Þótt bifreiðar séu hættulegar, verður að vekja athygli almennings á því að gæta varfærni, m. a. með því að láta ekki skaðabótaskyldu bifreiðaeigenda verða svo ótakmarkaða, að allt sé bætt, jafnvel þótt vegfarandinn eigi miklu meiri sök á slysinu vegna gáleysis sins, en bifreiðarstjórinn sé þar alveg saklaus um að hafa vanrækt skyldu sína.

Þá er líka að minnast á það, að í 34. gr. frv. er í 2. málsgr. sagt: „Ef sá, er tjónið beið, annars hefir sýnt af sér gáleysi, má taka tillit til þess við ákvörðun skaðabótanna“. N. hefir lagt til, að orðalaginu sé hér breytt þannig, að í stað „má“ kemur: skal. Hún telur, að sjálfsagt sé að taka eitthvert tillit til þess, ef sá, sem verður fyrir tjóni, hefir haft gáleysi í frammi.

Læt ég svo útrætt um þessar brtt., því að stólarnir heyra ekkert af því, sem hér er sagt, og þeir, sem sitja hér, geta áttað sig á þeim, þó að ekki sé lengri ræða haldin um þetta.