05.03.1938
Efri deild: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (2673)

38. mál, framfærslulög

Brynjólfur Bjarnason:

Upp í þetta frv., sem borið er fram að tilhlutun hæstv. atvmrh., eru teknar ýmsar smærri umbætur, sem einnig eru í því frv., sem ég hefi flutt hér og hefir verið vísað til n. Það eru m. a. eftirfarandi atriði, sem hæstv. atvmrh. hefir lýst: 1. Sérstök eyðublöð fyrir umsóknir um meðlög. 2. Að 26. gr. l. falli niður, sem kveður svo á, að meðlagsúrskurður konu falli niður, ef hún giftist, og 62. gr. er breytt til samræmis við III. kafla, sem fjallar um meðlög. Þá er hverjum einstökum framfærslunefndarmeðlimi heimilt að áfrýja úrskurði framfærslunefndar, og í 4. lagi er 43. gr., sem fjallar um ráðstafanir til barnaverndar, breytt eins og er í frv. mínu. Í 5. lagi er 44. gr. breytt eins og í frv. mínu. Í 6. lagi eru ákvæði um heimild til að leggja löghald á kaup barnsföður. Öll þessi atriði eru eins og í frv. mínu. En þetta eru allt smærri atriði. Að vísu eru þau mörg þýðingarmikil, en samanborið við önnur stærri verða þau að teljast smærri atriði. Aðalatriðin í frv. mínu eru ekki tekin til greina, og skal ég telja upp nokkur þeirra. Þar er t. d. ákvæði um gjaldskrá fyrir framfærsluþurfa, þannig að styrkur geti orðið ákveðinn réttur, á svipaðan hátt eins og hlunnindi í tryggingum. Í 2. lagi að styrkurinn skuli greiddur í peningum, nema styrkþegi óski annars. Öll meðlög skuli greidd af ríkinu. Og loks það, sem er höfuðatriðið, að landið verði gert að einu framfærsluhéraði. Auk þess eru mörg önnur mikilvæg atriði í frv. mínu, sem ekki hafa verið tekin til greina. Ég vildi nú mælast til þess, að um leið og allshn. tekur þetta frv. til meðferðar, þá taki hún einnig mitt frv. til meðferðar. Annars virðist mér ekki horfa vænlega um það, að frv. mitt muni hafa fylgi hjá hæstv. stjórn, þar sem upp í þetta frv. eru tekin ýms smærri atriði úr frv. mínu, og önnur, t. d. um viðskipti milli sveitarfélaga, sem væru annars óþörf, ef mitt frv. næði samþykki. Virðist mér þetta benda til þess, að hæstv. stjórn sé mínu frv. andvíg í aðalatriðum. — Ég tel óþarft að orðlengja þetta að svo komnu, en mun bíða og sjá, hvað setur.