12.04.1938
Efri deild: 47. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í C-deild Alþingistíðinda. (2696)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég vil aðeins benda á út af ræðu hv. 11. landsk., að ég gat þess einmitt, að n. hefði ekki athugað málið eins nákvæmlega um bæjarfógeta og um sýslumenn, en mundi gera það fyrir 3. umr. En út af samanburði hv. þm. um skrifstofufé á Siglufirði og svo hinsvegar á Akureyri, Ísafirði og í Hafnarfirði, vil ég benda honum á, að auk bæjarfógetastarfs hafa þeir embættismenn einnig stórar sýslur til umsjár. Hygg ég, að ef þær sýslur væru sérstakar og ekki í embættislegu sambandi við kaupstaðina, mundu þær verða með kröfufrekari sýslum um skrifstofufé. Það verður einnig að taka tillit til þessa.

Hv. þm., Dal. minntist á það, hvort ekki væri rétt að lækka í einni sýslu, og mun hann þar hafa átt við Árnessýslu. En þess ber að gæta, að þó að þetta virðist hátt þar í samanburði við skrifstofufé annara embætta, hefir þetta verið svo eigi aðeins í þau 5 ár, sem l. hafa gilt, heldur í nokkur ár þar á undan, og n. taldi varhugavert; þar sem hækkað er við aðra starfsmenn, að lækka þetta, þó að vera kunni, að ýmsir líti svo á, að það hafi verið of hátt.