19.04.1938
Efri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í C-deild Alþingistíðinda. (2701)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Magnús Jónsson:

Það er að nokkru leyti rétt, en þó ekki alveg, hjá hv. frsm., að mér hafi verið kunnugt um, að n. myndi ekki fallast á fleiri till. en þessa, sem hún nú hefir borið fram; því að sú till. lá ekki frekar fyrir n. meðan við héldum fundi um málið en sú till., sem ég hafði í huga að bera fram. Það hafði að vísu verið hreyft ummælum í þá átt, að það þyrfti að hækka nokkuð við þennan bæjarfógeta, sem þarna á hlut að máli, bæjarfógetann á Siglufirði, en ég held, að n. hafi ekki tekið neina fullnaðarafstöðu til þeirra till., sem fram kynnu að koma, ekki frekar einnar en annarar. Ég hefi því nokkra ástæðu til að halda, að ef ég hefði verið á fundinum, þá hefði náðst málamiðlun bæði að því er snertir þá till., sem hv. 11. landsk. var að mæla fyrir, og þá hækkun, sem ég hafði hugsað mér að fara fram á, ef á annað borð yrði hreyft við frv., en það var till. um að hækka ofurlítið skrifstofufé bæjarfógetans á Ísafirði. Ég held, að það sé enginn vafi á því, að hann verði nokkuð afskiptur á móts við aðra bæjarfógeta, ekki sízt ef þessi till. verður samþ., sem ég ekki mun setja mig á móti á neinn hátt. M. a. sést, að fram að þessu hefir skrifstofufé þarna verið ákveðið hæst. (Forseti: Hv. þm. er farinn að ræða málið sjálft). Ég skal þá ekki fara út í það frekar, en aðeins endurtaka þá ósk, að málinu verði frestað einn dag. Ég fyrir mitt leyti skal ekki láta á mér standa að mæta á nefndarfundi. Ég hafði bara ekki hugmynd um, að fundur yrði haldinn í morgun, þó að það sé mér að vísu ekki afsökun, þar sem þetta var reglulegur fundartími, en ég hélt, að fundur yrði ekki haldinn svona strax eftir páskafríið.