23.04.1938
Efri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (2711)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég hefi leitazt við að fylgjast með störfum hv. allshn., og ég verð að segja, að mér virðist hún hafa reynt að vinna af hinni mestu samvizkusemi og réttlæti í þessu máli. Ég væri mjög ánægður með það fyrir hönd minna starfsbræðra, ef það tækist að láta hvern okkar hafa þann embættiskostnað, sem við í raun og veru leggjum út. Ég held áreiðanlega, að þeir reikningar, sem hér liggja fyrir, sýni allir meiri skrifstofukostnað en hv. allshn. hefir áætlað, og það myndi nema fleiri tugum þúsunda, ef ætti að fullnægja allra kröfum. En fyrst verið er að skammta þetta, er eina ráðið að reyna að skammta það réttlátlega.

Ég vil aðeins gera grein fyrir mínu atkv. um þessa till. Ég játa, að það er rétt og í rauninni sjálfsagt að hækka skrifstofufé bæjarfógetans á Siglufirði frá því, sem nú er, og ég geri ráð fyrir, að mjög sé stillt í hóf að láta það vera svipað og skrifstofufé í Vestmannaeyjum. Þessi tvö umdæmi virðast að öllu leyti sambærilegust, og ef hækka á upp fyrir 13 þús. hjá öðru, virðist rétt að hækka einnig hjá hinu. En verði þetta gert, þá er hætt við, að hin embættin telji sig vanhaldin. Ég er því ekki á móti því, að skrifstofuféð væri hækkað af því, að ég áliti ekki, að það sé raunverulega of lágt ákveðið, en ég álit rétt að reyna að hafa það sem jafnast hjá öllum. Eftir minni reynslu og eftir því, sem ég þekki til, álít ég, að sá, sem minnst beri úr býtum, sé bæjarfógetinn á Ísafirði, vegna þess hvað það embætti er víðáttumikið og erfitt að rækja það. Ég hygg rétt, ef hv. d. vill hækka framlögin svo sem hv. n. leggur til, að þá sé einnig hækkað hjá bæjarfógetanum á Ísafirði.