23.04.1938
Efri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (2713)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég vil taka það fram strax, að það, sem ég segi um þessar brtt., sem hér liggja fyrir, er frá mér persónulega, en ekki fyrir hönd n. allrar.

Ég vil þá fyrst víkja að brtt. á þskj. 270, frá hv. 1. þm. Eyf. og hv. 11. landsk., þar sem lagt er til, að skrifstofufé bæjarfógetans á Siglufirði verði hækkað upp í 16000 kr. Ég get ekki verið með þessari till., einmitt af þeirri ástæðu, sem ég drap á í fyrri ræðu minni, að við það raskast þau hlutföll, sem höfð hafa verið um ákvörðun þessa fjár, gagnvart öðrum embættum. Það er svo með Siglufjörð, að það er erfitt að bera hann saman við Akureyri og Ísafjörð, vegna þess að á báðum þessum stöðum gegna bæjarfógetarnir sýslumannsstörfum í stórum sýslum. Og það eitt bendir til þess, að töluvert mikill munur verði að vera á skrifstofufé þeirra bæjarfógeta og bæjarfógetans á Siglufirði, því að það er varla hægt að gera ráð fyrir, að kostnaður við embætti sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu sé minni en af hinum stærri sýslumannsembættum á landinu, eins og t. d. S.-Múlasýslu. Alveg er eins ástatt um bæjarfógetann á Ísafirði. En sá bæjarfógeti, sem er langsamlega sambærilegastur við Siglufjörð, er bæjarfógetinn í Vestmannaeyjum. Og eftir því sem ég hefi komizt næst, eftir að hafa kynnt mér þetta nokkuð, eru almenn störf bæjarfógetanna skipuð á þessum stöðum. Það hefir í þessum umr. verið vitnað í skýrslu frá hagstofunni um embættisstörf hjá bæjarfógetunum. Það virtist svo af ræðu hv. 1. þm. Eyf., að hann héldi, að þessi skýrsla hefði farið algerlega framhjá n., en það er ekki tilfellið. N. hafði þessa skýrslu til athugunar, og hún er náttúrlega góð, það sem hún nær, en ég get ekki séð, að hún sanni það, sem þessi hv. þm. vill láta hana sanna, að embættisstörfin á Siglufirði séu svona miklu meiri en annarsstaðar, eins og t. d. á Akureyri og Ísafirði (BSt: því hefir ekki verið haldið fram). Tala embættisverka út af fyrir sig segir náttúrlega ekki allt í þessu efni. Það er mikill munur að taka fyrir 20–30 mál á skrifstofunni eða að þurfa að fara langan veg til að taka þau fyrir. Ég sé hér á þessari skýrslu, að tala embættisverka er hæst á Siglufirði, en það út af fyrir sig er ekki full sönnun þess, að jafnmikið erfiði fylgi hverju embættisverki þar eins og t. d. á Ísafirði og Akureyri. Ég get ekki betur séð en að ef þessi skýrsla er notuð til hliðsjónar við þetta mál, — þá sanni hún einmitt í öllum atriðum það, sem n. hefir haldið fram, að Vestmannaeyjar og Siglufjörður séu í alla staði sambærileg embætti og það beri því að hafa skrifstofukostnaðinn þann sama á báðum þessum stöðum. Það kann að vera, að reikna megi það út í %, að kostnaðurinn ætti að vera 100–200 kr. hærri á Siglufirði, en ég get ekki farið út í það. Auk þeirra raka, sem ég hefi áður tekið fram, má geta þess, að ég veit ekki betur en yfir þann tíma, sem mest er að gera hjá bæjarfógetanum á Siglufirði, þá séu þar 2–3 tollþjónar og eitthvað af lögregluþjónum. Þetta skilst mér, að geri það að verkum, að ekkert óvanalegt sé við þetta embætti fram yfir það, sem er á öðrum stöðum. Það getur náttúrulega verið, að meiri fyrirhöfn sé við skipakomur á Siglufirði en í Vestmannaeyjum, en þá er það að athuga, að afgreiðsla þeirra er alltaf horguð með lítilli þóknun. Ég veit til þess, að á Austfjörðum, þar sem fyrir 30 árum var mikið um skipakomur, varð reynslan sú, að embættismennirnir misstu drjúgan spón úr sínum aski, þegar skipakomum tók þar að fækka. Ég skal geta þess, að ég álit, að samanborið við Akureyri nái það ekki neinni átt að ákveða skrifstofukostnaðinn á Siglufirði 16000 kr., en ekki nema 19000 kr. á Akureyri, því að það sjá allir, að auk Akureyrar er þar um stóra sýslu að ræða. sem mikil umferð er um. Ég veit ekki betur en að í henni séu nú 3 síldarverksmiðjur, sem allar eru utan Akureyrarkaupstaðar. Auk þess sem hv. 1. þm. Eyf. vitnaði í þessa skýrslu, þá lagði hann mikla áherzlu á þann reikning, sem bæjarfógetinn á Siglufirði hefir lagt fram og væri 19800 kr. Þetta er rétt. Og hv. þm. spyr: Hvernig ætlar n. að fullnægja þessum kröfum með 13000 kr.? Ég til bara benda hv. þm. á það, að reikningur bæjarfógetans á Akureyri var upp á 21000 kr., svo að hv. þm. getur þá horft á það rétt við sínar eigin bæjardyr, að ekki verði öllu réttlæti fullnægt í þessu efni. Það hefir yfirleitt verið svo, að reikningarnir hafa verið allverulega hærri frá embættismönnunum en n. hefir séð sér fært að verða við. Ég vil benda á það, að n. er kunnugt um, að á sumum stöðum eru aukatekjur alldrjúgar, og er ekki nema eðlilegt, að tekið sé tillit til þeirra. Ég get ekki séð, að ef brtt. hv. 1. þm. Eyf. og hv. 11. landsk. verður samþ., þá verði hjá því komizt að taka til athugunar hækkanir á skrifstofufé annara bæjarfógeta. — Ég skal svo láta útrætt um þessa brtt.

Nokkuð svipað er að segja um brtt. frá hv. 2. þm. Eyfirðinga. Hann kemur með varatillögu við brtt. á þskj. 270, um það, að lækka upphæðina um eitt þúsund. Þó að það sé nokkru nær, þá tel ég þetta samt sem áður sama verknaðinn og í aðaltillögunni, sem sé að valda nokkru misræmi.

Hvað viðvíkur till. á þskj. 276, frá hv. 1. þm Reykv., til ég segja það eitt, að þótt þar sé ekki um stóra upphæð að ræða, þá hygg ég, að ef hún verður samþ., verði erfitt að standa á móti einhverri hækkun hjá bæjarfógetanum á Akureyri. Þau embætti eru mjög hliðstæð, og mér virðist, að öll þau gögn, sem ég hefi kynnt mér í þessu máli, beri vott um, að skrifstofufé á Akureyri eigi að verða hærra heldur en á Ísafirði, enda er það í frv. 1200 kr. hærra.

Ég get svo látið útrætt um þetta mál, því að það er auðvitað Alþ., sem á að ákveða þetta, en ekki ég. En ég vildi aðeins benda á þær niðurstöður, sem ég hefi komizt að, og að þær einstöku brtt., sem n. er ekki með, geti dregið mjög alvarlegan dilk á eftir sér.