09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (2725)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Jón Pálmason:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. við frv., á þskj. 478. Ég skal byrja á því að taka það fram, að það, sem hv. frsm., þm. Ísaf., sagði um hana, er byggt á misskilningi, því hann hefir haft frv. fyrir sér eins og það var upphaflega, en þar er um allt aðra gr. að ræða. Till. mín fjallar um það, að fella niður 3. gr. í frv. eins og það er nú, en hún er um það, að skrifstofuféð hækki eða lækki eftir þeim gengisbreytingum, sem verði í landinu. Ég veit ekki til, að slíkt ákvæði sé í neinum l., sem í gildi eru, sem verndi hlutaðeigandi menn gegn því, að gengi okkar peninga lækki frá því, sem nú er. Það er tæplega um hækkun að ræða nú á næstunni. Ég tel þess vegna óeðlilegt að ganga inn á þessa braut, að lögfesta það t. d., að ef okkar króna félli um 50%, þá skuli skrifstofukostnaður sýslumanna hækka að sama skapi.

Ég þarf ekki að fara um það fleiri orðum, því þetta mál liggur svo ljóst fyrir. Hv. þm. skilja það væntanlega, að ef þetta verður lögfest, þá virðist afleiðingin verða sú, að það verði settar svipaðar „klásúlur“ á ýmsa aðra liði í okkar fjármálum, og þá erum við komnir í þá skriðu, sem erfitt yrði að fóta sig í.