09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (2732)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Jón Pálmason:

Ég vil aðeins segja örfá orð út af þeim samanburði, sem gerður hefir verið á skrifstofufé Húnavatns- og Skagafjarðarsýslna annarsvegar og skrifstofufé í öðrum tveimur sýslum hinsvegar.

Það, sem orsakað hefir vaxandi störf hjá sýslumönnum á undanförnum árum og þar af leiðandi meiri skrifstofuvinnu, er fyrst og fremst það, hvað okkar tolla- og skattakerfi er orðið flókið og margþætt. Þessi skrifstofukostnaður fer þá fyrst og fremst eftir því, hve mikið er flutt inn af þeim vörum, sem skattar og tollar eru greiddir af. Og hvað þetta snertir er skrifstofukostnaður í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum annarsvegar og í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu hinsvegar tvennt alveg ósambærilegt, ekki sízt þar sem búið er nú að setja nýjan lögreglustjóra á Akranesi, sem ætlað er 1500 kr. skrifstofufé. Eftir till., sem fyrir liggur, er farið fram á, að skrifstofufé í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu hækki um 900 kr. En samkv. till. frá allshn. hefir skrifstofuféð í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum hvorri fyrir sig verið hækkað um 900 kr. Nú eru í báðum þessum sýslum (Húnavatns- og Skagafjarðar), hvorri fyrir sig, þrjú kauptún, sem sýslumenn hafa annazt alla tollaafgreiðslu og annað í. Og það er mjög miklu meira verk en um er að ræða í sýslum eins og Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, sem hafa lögreglustjóra í sínu aðalkauptúni, og svo ekki annað kauptún þar fyrir utan Borgarnes, sem gengur mestur innflutningur til gegnum Reykjavík. Annars sýnist mér eftir frv., eins og það liggur fyrir, vera búið að hækka svo mikið einstaka liði á því, að mér sýnist ekki ástæða til að fara út í miklu meiri hækkanir í því sambandi en fyrir liggja frá hv. Ed. Hinsvegar býst ég við, að ef frv. verður af þeim ástæðum, að útgjöld eftir því verði hækkuð hér í hv. d., að fara til hv. Ed. aftur, þá muni það orsaka mjög miklar hækkanir, því að eðlilega hefir hv. allshn.

Ed. reiknað það út, eftir því, sem fyrir lá, hvernig samræmið í þessu efni skyldi vera.

Um þetta skal ég svo ekki fara fleiri orðum. Ég vil ekki á þessu stigi málsins ganga inn á þá skoðun, að þetta frv. eigi ekki rétt á sér. Út í það skal ég ekki fara nú, hvort eigi að borga embættism. þetta skrifstofufé eftir reikningi.