09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í C-deild Alþingistíðinda. (2733)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Sveinbjörn Högnason:

Aðeins örfá orð vegna ummæla hv. 6. þm. Reykv., þar sem hann var að tala um, að menn mundu ekki hafa í nefndum eða annarsstaðar þar, sem um þetta mál hefir verið fjallað, gert það nógu sjálfstætt. Um það, sem hann gerði sérstaklega aths. viðvíkjandi skrifstofufé bæjarfógetans á Ísafirði, vildi ég benda á, að hann mun sjálfur hafa verið allra manna ósjálfstæðastur í sambandi við þetta frv. Hann hefir ekki gætt að því, sem liggur fyrir skjalfest, að ríkið leggur til þessum embættismanni á Ísafirði 23500 kr., því að það stendur í ríkisreikningnum 1936, að bæjarfógetanum á Ísafirði hafi verið borgaðar 4500 kr. fyrir innheimtu. Og ég skil ekki í öðru en að þegar skrifstofa hans sér um þetta verk, þá eigi þetta að reiknast með því fé, sem hið opinbera greiðir honum, nema hann hafi sama hugsunarhátt og nefnd, sem kom til þingsins viðvíkjandi flóabát, en það hafði verið fellt niður, að báturinn flytti póst til pósthúss, og svo fór þessi n. að reyna að fá gjald fyrir að flytja þennan póst. Því að þetta innheimtugjald nemur 4500 kr., og þá dettur engum í hug, að þetta sé prívat greiðsla, en ekki fyrir innheimtu. Svo kemur hv. 6. þm. Reykv. og leggur til, að bæjarfógetinn á Ísafirði fái meira en hann þessu samkv. hefir sjálfur farið fram á, og ætlar þannig að yfirbjóða manninn sjálfan. Þetta sýnir, hve gersamlega ósjálfstætt þessi hv. þm. (SK) hugsaði í sambandi við sína ræðu. Það er áreiðanlega enginn af hv. þm., sem ætlast til þess, að innheimtuféð, sem er viss hundraðshluti af þeim tollum og sköttum, sem innheimt er, eigi að renna til bæjarfógeta og sýslumanna sem einhver sérstök aukaþóknun, og ríkið eigi svo að borga fyrir innheimtuna þar að auki.