09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (2737)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Sveinbjörn Högnason:

Mér þykir leiðinlegt, að auk þess sem hv. 6. þm. Reykv. hefir ekki gert sér grein fyrir málinu, þá vill hann ekki heldur skilja mælt mál. Hann gerir mér upp orð, sem ég hefi aldrei sagt hér í hv. d., og byggir svo sína endileysu á því. Hann segir, að ég hafi sagt, að bæjarfógetinn á Ísafirði hafi fengið greitt áður 23500 kr. Ég hefi ekki minnzt á það einu orði. Ég sagði, að með þessari till., sem nú lægi fyrir, þá fengi hann eftir ákvæðum frv. 23500 kr., sem er 500 kr. hærra en hv. 6. þm. Reykv. taldi í allra frekasta lagi, að hann gæti fengið. Ég get alls ekki gert við því, þó að skilningur þessa hv. þm. sé óskýr og þó að það komi fram á fleiri en einu sviði.

Það komu fram enn atriði í ræðu þessa hv. þm., sem voru líka byggð á misskilningi, þar sem hann sagði, að aukatekjur séu sérstakur réttur, sem fylgi embættum, og er það rétt um sum þeirra. En það eru viss störf, þar sem ríkið greiðir ákveðna prósentu fyrir innheimtu, þar sem innheimtumenn eiga aldrei að geta tapað á innheimtunni. Heldur hv. þm., að sýslumenn og bæjarfógetar geti tapað á innheimtu í sambandi við stimpilgjöld og greiðslumerki? Og viðvíkjandi viðskiptagjaldinu er það að segja, að þeir þurfa ekki að láta afhenda vörurnar fyrr en það gjald hefir verið greitt; sama er að segja um toll. Ætli þeir þurfi að tapa á innheimtunni á þessum gjöldum? Þeir geta líka haldið skjölum skipa þangað til skipsgjöld hafa verið greidd, svo að ekki þurfa þeir að tapa á þeirri innheimtu. Það er ekki hægt að tapa á þessum þremur liðum nema með bláberum trassaskap, því að þessir embættismenn hafa í hendi sér, að þeir, sem eiga að greiða þessi gjöld, geti ekki hreyft sig á nokkurn hátt eða fengið á móti það, sem þeir eiga að fá, fyrr en þeir hafa greitt þessi gjöld.

Það er algerður misskilningur, að þessir embættismenn eigi að fá prósentur fyrir að taka á móti þessum gjöldum og síðan eigi að borga sérstakt kaup fyrir það eins og áhættufé. En það er allt öðru máli að gegna um aðrar aukatekjur, þar sem áhættan fylgir og menn geta verið sjálfráðir um, hvort þeir taka að sér innheimtuna eða ekki, þegar um áhættusama innheimtu er að ræða.

Um brtt. hv. þm. A.-Húnv. á þskj. 478 vil ég taka það fram, að ég er henni að mestu leyti fylgjandi. Ég álít að athuguðu máli, að það sé rétt hjá honum, að það sé nokkuð hættulegt fordæmi að taka þetta ákvæði inn í þetta frv., af því að margar stéttir, sem hafa gert samninga um kaup og kjör upp á síðkastið, hafa óskað að fá þetta ákvæði sett inn í samninginn. Og ef ríkið gengur á undan um að veita þetta, þá mun verða erfiðara að standa gegn því framvegis, að þetta verði sett inn í samninga um kaup. Enda líka ef ein stétt fær þetta, þá eiga aðrar stéttir að fá það líka, og ekki aðeins viðvíkjandi skrifstofufé, heldur líka hvað snertir annað. Og það gæti orðið til þess að skapa mjög mikla erfiðleika hjá þeim, sem um þetta fjalla. Og ef á að taka þetta fyrirkomulag upp, þá held ég, að það þurfi miklu meiri undirbúning en gerður hefir verið um þetta efni.

Hv. þm. Mýr. var að tala um misræmi í sambandi við þetta skrifstofufé til sýslumanna. Ég hygg það á nokkrum rökum byggt viðkomandi sveitahéruðum, að þar sé samræmið í þessu efni ekki eins og þyrfti að vera. En það mun ekki liggja fyrir nógu skýrt um það, hve mikill kostnaður fylgir þeim embættum. Það, sem fyrir liggur um það, er miklu ónákvæmara heldur en um kostnað við þetta hjá bæjarfógetum í hverju tilfelli. Ég álit, að það geti alveg eins komið til mála, sem hann talaði um, að lækka sumar sýslur þessu viðvíkjandi frá því, sem er, til samræmis, þó að sennilega verði samt erfitt að framkvæma það, ekki sízt þar sem nú er búið að áætla skrifstofukostnað sýslumanna og ákveða skrifstofufé þeirra hærra en það hefir verið undanfarið.