26.04.1938
Efri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (2762)

112. mál, stýrimannaskólinn

*Flm. (Jónas Jónsson):

Ég er mjög þakklátur fyrir þær ræður og upplýsingar, sem koma úr ýmsum áttum og frá ýmsum flokkum, sem allar varpa ljósi yfir þetta mál og flýta fyrir því, að það geti fengið nokkurn framgang. Það, sem hv. 10. landsk. sagði, er einskonar áframhald — eftir dálítið hærri leiðum — af því, sem sveigt er að í till. En ég vil minna á það strax í undirbúningi þessa máls, að þegar um er að ræða stofnun eins og þessa, fyrir forustumenn heillar stórrar stéttar, þá er það rétt að vísu, sem hv. þm. Hafnf. sagði, að það skiptir miklu máli um það hagnýta. En það skiptir líka ákaflega miklu máli um það listræna. Það er nú einu sinni svo, t. d. um pólitíkina, að það er ekki yfirleitt hægt að drífa neina pólitík, sem lifir og er að gagni, nema með nokkru ímyndunarafli. Og þegar þjóð í einu landi lækkar seglin þannig með sitt ímyndunarafl, að flest er athugað nálega eingöngu frá hinu hversdagslega sjónarmiði og kallað praktiskt, þá verður lítið úr því praktiska, af því að það hreyfir ekki hjartastrengi manna eins og einmitt það, sem er rómantískt, og það sem fylgir nokkur ljómi. Og út frá þessari hugmynd, sem hv. 10. landsk. skaut fram, verð ég að segja, að sjómannastéttinni mundi áreiðanlega þykja miklu vænna um það, ef hún hefði sína háborg, háborg sjómanna, utanvert við Reykjavík, þar sem frá upphafi hefði verið gert ráð fyrir því, að ekki ætti aðeins að gera það gagnlega fyrir sjómenn, heldur líka það, sem fallegt er og hrifandi. Og þar sem fulltrúi Alþfl. hér í hv. deild (SÁÓ) dró í efa, um leið og hann talaði vingjarnlega um till., að heppilegt væri að sameina samskotin til minningar sjómanna við svona stofnun, þá datt mér það í hug, að í raun og veru myndi það nú hlýja sjómönnum meira, að byggð væri svo að segja þeirra borg, þeirra sérstaki stéttarhöfuðstaður þarna á þessum stað, sem blasir svo vel við sjónum. Annars er ýmislegt gert til að vernda minningu látinna félaga. Ég man eftir því að víða í Englandi. t. d. í þeim gömlu háskólabæjum og ýmsum þeirra gömlu skólum yfirleitt, eru marmaraplötur í bogagöngum þessara bygginga með listum yfir fallna nemendur úr þessum Skólum; sumt af þessu er aldagamall, sumt síðan úr heimsstríðinu. Þannig er þetta í hinum gömlu og virðulegu skólum. Eton og Rugby. Á þennan hátt hafa skólarnir og aðstandendur námsmanna reynt á öllum öldum að binda söknuð sinn á virðulegan hátt við þann stað, sem hefir verið svo kær þeim, sem þarna dóu.

Ég vil náttúrlega engan veginn draga úr því, að það gæti verið mjög skemmtilegt, ef tækist vel að gera minnismerki um sjómenn í höfuðborginni eða utanvert við hana. En ég get í þessu sambandi rétt minnzt á minnismerkið um danska sjómenn, sem féllu vegna heimsstyrjaldarinnar. og stendur utan við Kaupmannahöfn á áberandi stað. Það vill svo til — en engan veginn sjómönnum að kenna — að þetta minnismerki er frá listrænu sjónarmiði eitthvert það mest mislukkaða, sem ég hefi séð í því landi. Það er náttúrlega af því, að sá, sem það gerði, var ekki nógu mikið skáld, og þá verkar allt öfugt við tilganginn, eiginlega til óþæginda).

Það er rétt, sem hv. þm. Hafnf. tók fram, að í till. liggur engin ákvörðun um, hvar á að byggja, en aðeins ósk um að rannsaka ákveðinn stað. En ég neita ekki, að þessar umr. hafa komið með mörg rök, sem styðja það, að þarna sé heppilegur staður. En ég skal snúa mér að því, sem hv. þm. Hafnf. sérstaklega hafði á móti þessum stað, en það var fjarlægðin, ennfremur kuldinn, gjósturinn, sem stæði um menn þarna, og vatnsleysið. Ég ætla einmitt að taka dæmi úr hans eigin kjördæmi, til þess að hnekkja að nokkru þessum tveimur síðustu röksemdum. Ég vil taka, til dæmis 3 byggingar í Hafnarfirði. þjóðkirkjuna, barnaskólann og Flensborgarskólann. Kirkjan er mjög falleg og myndarleg bygging eftir Rögnvald Ólafsson. Menn dást að henni, nema að einu leyti. En það atriði er svo mikils virði, að kirkjan gæti notið sín miklu betur og þótt miklu veglegra hús. Hún stendur svo áberandi lágt, að öll sú rómantík, sem gæti verið í kringum hana, verður að engu. Síðan var reist fríkirkja í Hafnarfirði, sem er að öllu leyti miklu ljótara hús, en hún var sett á fallegri stað, stað, sem betur hefði hæft þjóðkirkjunni. Ef aðalkirkjan hefði verið uppi á Hamrinum, hefði hún haft miklu meiri áhrif á fegurð bæjarins.

Barnaskólahúsið var sett niður í kvos á bak við bæinn. Allir harma, að því skyldi vera valinn sá staður, enda þótt skjól sé þar.

Þá kem ég að gagnfræðaskólanum. Hann er mjög fallegt hús frá hendi húsameistara og er reistur á hæð, á fallegum stað. Um hann hefir þjóðskáld Hafnfirðinga ort bezta kvæði, sem ort hefir verið um nokkurn skóla hér á landi. Það er kannske ekki praktiskt að hafa skólann þarna, en allir Hafnfirðingar eru stoltir af honum. Það er um þennan skóla eins og trjágarðinn, sem hv. þm. Hafnf. talaði svo hlýlega um í gær. Hann er skáldverk. En ekkert þjóðskáld mundi yrkja um barnaskólann ? Hafnarfirði.

Það er búið að kosta meiru til Flensborgarskólans af því að hann stendur svo hátt og vatnsleiðslan nær þangað ekki. En með dálitlum kostnaði er hægt að bæta úr því, og eins mætti gera í Reykjavík. Ég geri lítið úr vatnsleiðsluerfiðleikunum. Flensborgarskólinn stendur svo hátt, að hann hefir alla þá ókosti, sem koma myndu fram á Valhúshæðinni, en samt eru allir ánægðir með skólann. En það, sem ég hygg, að hv. 10. landsk. hafi komizt næst því að lýsa rétt þessum stað, er sú rómantík, sem það felur í sér fyrir sjómannastéttina, ef hún fengi sína háborg á Valhúshæðinni.