26.04.1938
Efri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (2766)

112. mál, stýrimannaskólinn

*Flm. (Jónas Jónsson):

Ég ætla aðelns að gera örstutta aths. Menn segja, að þessar umr., þar sem við erum allir svo skemmtilega sammála, séu orðnar samkeppni í mælskulist, og álít ég, að þar hafi allir gert svo vel, að ekki sé á það bætandi, en út af einu litlu atriði, sem við hv. þm. Hafnf. erum ekki alveg sammála um, ætla ég að segja síðustu orðin við þessa umr. Hv. þm. hefir réttilega fundið og viðurkennt, að frá fegurðarsjónarmiði má ýmislegt segja um það, hvernig þjóðkirkjan og barnaskólinn í Hafnarfirði eru sett og hve Flensborgarskólinn nýi er prýðilega settur. Þá kemur þessi stóra spurning: Hvað er það, sem komið hefir inn í líf Hafnfirðinga frá því, að þeir settu sín hús á heldur óánægjulega staði, og þar til þeir hafa komizt á þetta tiltölulega háa stig, sem við hv. þm. Hafnf. erum sammála um, að þeir séu nú á? Það get ég frætt hv. þm. um. Það, sem gerðist, var það, að ég kom til Hafnarfjarðar og hélt fund með bæjarbúum og benti þeim á, hve skólahús Flensborgarskólans væri slæmt og á slæmum stað og hve miklu betur það myndi fara að hafa skólann uppi í hæðunum í bænum. Nú varð niðurstaðan sú, að Hafnfirðingar vildu hafa skólann hjá sér, og þeir áttu líka kost á að hafa þennan stað fyrir hann, sem hv. þm. minntist á. En hvernig stóð á því, að þeir áttu kost á því? Það var af því, að ég var búinn að selja þeim þennan stað frá ríkinu með því sérstaka skilyrði, að ekki mætti hafa annað á Hamrinum en skemmtigarða og opinberar byggingar. Ég vona, að það geti orðið sameiginlegur vilji hv. þm. Hafnf. og okkar allra, að gengið verði inn á þá hugmynd, að opinberar byggingar eigi að standa hátt, af því að þar á að hugsa hátt, og vona, að hv. þm. Hafnf. verði okkur sammála um okkar Valhúshæð.