11.05.1938
Sameinað þing: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (2787)

49. mál, milliþinganefnd í skattamálum

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil aðeins skýra frá því, að ég hefi átt tal við nokkra hv. þm. úr ýmsum flokkum um það, hvort ástæða væri til að breyta þessari till. frá því formi, sem hún nú liggur fyrir í, og þá sérstaklega á þann hátt að bæta í n. mönnum, sem hafa sérstaka reynslu um framkvæmd skatta- og tollalöggjafarinnar. Mér hefir heyrzt á mönnum, sem nokkur vilji væri fyrir því, að þetta væri gert, og ég fyrir mitt leyti er þess mjög fýsandi. Ég hefi þess vegna samið brtt., sem kemur fram eftir örstutta stund, um það, að skattstjórinn í Rvík og tollstjórinn í Rvík. eigi sæti í n. ásamt hinum kjörnu fulltrúum. Ég geri ráð fyrir, að þeir líti á aðstöðu sína í n. á þann hátt, að þeir eigi þar ekki að túlka neina pólitíska stefnu, heldur séu þeir þar til þess að tryggja það, að n. hafi alltaf við höndina ráð þeirra manna, sem kunnugir eru framkvæmd þessarar löggjafar. Ég hygg, að það muni vera samkomulag um þetta hjá mörgum hv. þm., og vona ég, að þessi till. mælist vel fyrir.

Það virðist vera nægilegt að gera ráð fyrir, að þeir 3 menn, sem kjörnir eru af hinum stærstu pólitísku flokkum, gæti hinna pólitísku lína í þessum efnum, hver út frá sínu sjónarmiði, og það verði ekki neitt til að trufla það, að þau sjónarmið fái notið sín, þó þessir aukafulltrúar eigi þar sæti.

Það mætti kannske segja, að það væri eins hægt að leita ráða til þessara manna. En það verður aldrei eins einfalt að gera slíkt eins og að hafa þessa menn með í starfinu. Ég hygg, að ég hafi líka minnzt á það við meðferð þessa máls fyrr, að gera megi ráð fyri því, að n. verði þar að auki — þó þessir embættismenn eigi sæti í henni — að ráða sér aðstoð. Það mun líka vera völ á ágætri aðstoð frá manni, sem ráðuneytið leggur til, að í þetta verði ráðinn. Hann hefir sérstaklega kynnt sér þessi efni undanfarið og hefir því góð skilyrði til þess að verða þar að liði. Ef gengið er frá þessu eins og lagt er hér til, þá geri ég mér hinar beztu vonir um, að þessi nefnd geti komið að tilætluðum notum.