11.05.1938
Sameinað þing: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (2794)

49. mál, milliþinganefnd í skattamálum

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 1. þm. Eyf. var að tala um orðalagið á brtt. í þessu máli. Ég vil til samræmingar orðalaginu bera fram skrifl. brtt. um umorðun á tillgr., til þess að bæta úr því misræmi, sem af því mundi leiða, ef samþ. væri brtt. mín á þskj. 575, og tek ég þá brtt. á þskj. 575 aftur. En skrifl. brtt. er svona:

„Tillögugreinin orðist svo:

Sameinað Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa fimm manna milliþinganefnd til að endurskoða tolla- og skattalöggjöf landsins, þar á meðal öll lagaákvæði og fyrirmæli um skatt og tollheimtu og tollgæzlu.

Þrír nefndarmanna skulu skipaðir eftir tilnefningu frá þremur stærstu flokkum þingsins. Auk þess skulu skattstjórinn í Reykjavík og tollstjórinn í Reykjavík eiga sæti í nefndinni.

Fjármálaráðherra velur formann nefndarinnar.

Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði“.

Afhendi ég hér með hæstv. forseta þessa brtt.