29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Ólafur Thors:

Ég hefi skrifað undir nál. viðvíkjandi þessu frv. með fyrirvara, og stendur í nál., að fyrirvari minn gildi 2. gr. frv. Það er í raun og veru kunnugt, að við sjálfstæðismenn vorum andvígir þessari lagasetningu og við erum yfirleitt andvígir ýmsum ákvæðum frv., sem lúta að álögum á skattþegnana, en v ið höfum þó ekki að þessu sinni viljað gera þann fyrri ágreining að misklíðarefni, og þá fyrst og fremst af því, að við viðurkennum, enda þótt við séum á móti þeim skattstofnum sumum hverjum, sem frv. fjallar um, að þá er þess enginn kostur að svipta ríkissjóð neinu af þeim tekjum, sem hann nú hefir, án þess jafnframt að gera till. um nýjar tekjuaflanir honum til handa, úr því vitað er, að þess er enginn kostur að fá fjárl. neitt skorin niður, nema síður sé, eins og reynslan á eftir að sýna, ef til vill, áður en fjárl. fara út úr Alþ.

Ég hefi nú, þrátt fyrir þessa afstöðu Sjálfstfl., látið þennan fyrirvara minn aðeins gilda 2. gr. þ. e. a. s. síðari málsgr. 2. gr. Þar er svo fyrir mælt, að hátekjuskatturinn, eða sá hluti hans, sem runnið hefir til bæjarsjóða og sveitarsjóða, skuli tekinn af þeim, og helmingi þeirra tekna, sem af þeim tekjustofni drýpur, skuli varið til að lána þeim mönnum stofnfé, sem hagnýta vilja þau fríðindi, sem l. nr. 61 frá 30. des. 1937 bjóða þeim mönnum upp á, sem vilja hefjast handa um byggingu og kaup á veiðiskipi, togara með nýtízkuvélum, til að vinna úr því hráefni, sem fellur til við fiskiveiðarnar. Ég hefi ekki getað sætt mig við þetta ákvæði af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess, að ég er andvígur því, að svipta þennan sjóð, sem áður hefir haft tekjur af hátekjuskattinum, þeim tekjum. Ég tel það mjög óréttlátt, og þá fyrst og fremst vegna þess, að þegar hátekjuskatturinn var lagður á, þá var mjög gengið á hagsmuni bæjarsjóðanna. Eins og kunnugt er, þá eru útsvörin einn af aðaltekjustofnum bæjarsjóðanna. Það liggur líka í augum uppi að því fastar sem ríkissjóður sverfur að skattborgurum landsins með tekju- og eignarskattinum, því minni verður aðstaða bæjar- og sveitarsjóðanna til að afla tekna með útsvörum. Þetta sjónarmið var viðurkennt af Alþ., þegar þingið, að mig minnir einróma, féllst á þá sveif, að skilja það til fyrir samþ. á hækkun tekju- og eignarskattsins, að helmingurinn af hátekjuskattinum skyldi renna í bæjar- og sveitarsjóði, til þess á þann hátt að bæta þessum sjóðum nokkuð upp þann halla, sem þeir yrðu fyrir vegna lækkunarinnar á tekjuskattinum. Ég er sem sé andvígur því að svipta þessa sjóði þeim tekjum, sem þeir þannig hafa haft.

Ég sé auk þess enga ástæða til þess, að ríkisvaldið bjóði fram önnur og meiri fríðindi þeim til handa, sem vilja kaupa svokölluð nýtízku skip, heldur en þegar er búið að gera með l. nr. 61 frá 30. des. 1937. Þar er fiskimálanefnd heimilað að greiða þeim, sem slíkt skip vilja kaupa, 25% af andvirði skipanna. Það er ætlunin, að tvö slík skip verði keypt, og að þau muni kosta 1500 þús. kr., svo þannig á að greiða um 200 þús. kr. þeim til handa, sem slíkt skip vilja kaupa. Mín skoðun er, að það séu öfugmæli að skattleggja útveg landsmanna, sem nú stendur höllum fæti, til þess að sá sami ríkissjóður, sem lifir af tekjum frá þessum hrörnandi útvegi, skuli geta veitt af því fé, sem hann þannig fær frá einstaklingunum, fjárframlög þeim mönnum, sem ætla sér að kaupa nýja togara. Þessi hugsun er líka órökrétt, þegar þess er gætt, að einu frambærilegu rökin fyrir slíkum styrk af hendi þess opinbera eru, að það eigi að vera arðvænlegra að reka hina nýtízku togara heldur en hina eldri. En með þessum hætti er svo fyrir mælt í l., að þeir, sem höllum fæti standa, skuli inna af hendi greiðslu til þess að þeir geti hlotið sérstök fríðindi, sem betur standa að vígi í lífsbaráttunni. Þetta er nýtt sjónarmið af hendi Alþ., og frá mínum bæjardyrum séð ekki það eðlilegt, að hægt sé að fella sig við það. Ég get ekki með neinu móti séð, að það sé eðlilegt til viðbótar þessum fríðindum, að fara enn á ný að bjóða upp á ný fríðindi. En svo sem kunnugt er, þá mæla l. nr. 61 frá 30. des. 1937 svo fyrir, að þeir einir geti orðið aðnjótandi þessara fríðinda um að fá 1/4 af kostnaðarverði, sem sjálfir vilji leggja fram 15%–20% af stofnkostnaði. Nú hefir í nokkra mánuði þetta viðhorf blasað við þeim mönnum, sem áhuga hafa fyrir þessu, án þess að nokkur hafi enn viljað hagnýta sér þessi hlunnindi, fyrr en þá ef það væri nú, þegar enn er boðið fram, að sá, sem vilji taka á móti þessari gjöf upp á 200 þús. kr. fyrir það að eignast nýtízku skip, skuli njóta þess að fá 71/2 af hundraði að láni, eða í reyndinni gefins, af því fé, sem annars átti að renna í bæjar- og sveitarsjóði.

Ég ætla ekki almennt að setja þetta mál undir smásjána, þó ég geti ekki stillt mig um að benda á, að það er náttúrlega ekki aðalatriðið í þessu sambandi að efla saltfisksveiðarnar nú, þegar allir vita, hversu miklir örðugleikar hvíla á saltfisksveiðunum. Það er ekki aðalatriði í þessu sambandi.

Ég get sjálfsagt látið þessi rök nægja fyrir mínu máli til skilgreiningar á þeim fyrirvara, sem ég hefi gert um fylgi við frv. En ég mun við 3. umr. þessa máls áskilja mér rétt til að bera fram brtt. til leiðréttingar á þessu ákvæði frv., ef ég á annað borð tel von til þess, að slíkar till. nái Samþykkt hér í hv. deild. Ég mun hera þær fram með þeim rökum, sem ég tel nægja til þess að skilgreina þann fyrirvara, sem ég hefi gert um fylgi við málið.