11.05.1938
Efri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (2802)

134. mál, sýslumannabústaðir

*Flm. (Jónas Jónsson):

Þar sem einn hv. þdm. var ekki viss um, hvort ætlun mín væri, að till. næði einnig til bæjarfógetaembætta, vil ég taka fram að það vakti líka fyrir mér, a. m. k. með öll hin stærri embætti.

Út af aths. hv. 2. landsk. þm. skal ég láta þess getið, að það er á engan hátt nein tilviljun, að ég nefndi eitt nafn í grg., en það gat vitanlega verið um fleiri nöfn að ræða. Málið verður alls ekki upplýst, nema hugur manns sé leiddur að því ástandi, sem ég einmitt bendi á.

Þegar stríðið skall á og verðbylgjan lyfti málafærslumönnunum í stærri bæjunum skyndilega upp í margfalt hærri laun en sýslumennirnir höfðu, varð niðurstaðan sú, að menn, sem voru allsendis óhæfir til að vera dómarar og sýslumenn, voru settir í embætti á þessu tímabili. Ég tók einmitt þennan mann sem dæmi, af því að menn eru nú löngu hættir að deila um hann. Slíkt dettur engum manni í hug. Og þar sem þarna kemur fram margra ára sjóðþurrð og vanræksla og rangindi af öllu tagi í garð sýslubúa, og þar sem þetta er allt skjalfest og sannað með dómi, þá er það komið inn í söguna og ætti því ekki að vera dm. neitt tilfinningamál. Það er algerlega óviðunandi að hugsa sér, að það þurfi nokkurn tíma að setja menn í dómaraembætti, sem ekki eru betur færir um að gegna því starfi heldur en t. d. þessi maður var. Það getur vel verið, að maðurinn hafi verið veikur, — um það veit ég ekkert.

Ég held, að ég verði að nefna annað dæmi frá sama tíma, til þess að sýna, hvað þetta var mikið ólán, að duglegustu lögfræðingarnir vildu ekki líta við sýslumannsembættunum, eða þá að þeir fengu þau ekki, vegna þeirrar reglu, að láta þá eldri ganga fyrir. Böðvari Bjarkan, sem er einhver skarpasti lögfræðingur á landinu, var neitað um 2–3 sýslur, af því að maðurinn, sem sótti á móti honum, hafði eldra próf. Það er vitanlega einkennilegt þegar svona kemur fyrir, en hér var aðeins fylgt fráleitri reglu. Myndi ég ekki hafa vikið að þessu, ef hv. 2. landsk. hefði ekki bent á, að það ætti ekki að koma með svona dæmi.

Það er óhjákvæmilegt að benda á, hvernig sýslumannastéttinni hefir hrakað, vegna þess að illa hefir verið að henni búið. Það, sem hefir bjargað stéttinni, er heilbrigður metnaður og áhugi röskra manna, sem hafa sætt sig við þessar illa launuðu stöður, af því að þeir hafa t. d. viljað vera á þingi og öðlazt betri aðstöðu til þess með því móti.

Ég ætlast til þess, að embættin verði gerð betri og öruggari með þessum bústöðum, og að sýslumönnunum verði gert mögulegt að koma fram eins og þeim sæmir.