11.05.1938
Efri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (2811)

139. mál, uppeldisheimili fyrir vangæf börn og unglinga

Guðrún Lárusdóttir:

Ég mun ekki segja margt um þessa till. Ég hefi svo oft talað um málið hér í deildinni.

Ég hygg, að mönnum geti ekki blandazt hugur um, að uppeldið er sá grundvöllur, sem þjóðar­velferðin hvílir á. Þjóðin getur ekki látið sig slík mál litlu skipta, og þá ekki heldur upp­eldi vangæfra barna og unglinga, sem oft eru ekki meðfæri foreldranna, eða geta ekki notið viðunandi uppfósturs á heimilunum og þurfa þess vegna nauðsynlega að komast í sérstök heimili undir umsjón þeirra, sem sérstaka kunn­áttu hafa í þeim efnum.

Það hefir komið í ljós, að allshn. í heild lítur svipað á þetta og ég. Aðeins verð ég að segja, að n. hefir treinzt það furðanlega að komast að þessari niðurstöðu, og hér hefir verið farið óþarflega mörgum orðum um sum önnur mál, meðan þessu hefir lítið verið skeytt. Ég hygg, að það hefði aldrei orðið þingi né þjóð til ó­gagns, þó að nokkru lengri tíma hefði verið eytt til að ræða mál eins og þetta.

Nú ber þáltill. það með sér, að meiningin muni vera að róa nokkuð í áttina, þó að seint gangi. Ekki skal ég gerast óþolinmóð. Ég veit, að Róm var ekki reist á einum degi. — Ég vonast eftir, að íslenzka þjóðin eigi eftir að eignast þá stofnun, sem orðið geti til þjóðþrifa og bjargað mörgum unglingi í náinni framtíð.

Það verður að treysta því, að hæstv. ríkisstj. láti ekki undir höfuð leggjast að undirbúa málið og taki það föstum tökum í framkvæmd­inni, fyrst og fremst í þeirri rannsókn, sem þáltill. fer fram á.

Í grg. frv. hefi ég nokkuð farið út í það, hvernig framkvæmdum mætti hátta. Og í grg. till. er bent á ýmislegt, eins og að athuga þurfi sem fyrst um stað fyrir heimilið, um skilyrðin fyrir samstarfi bæjar- og sveitarfélaga og ríkis­ins, um stofnun og rekstur heimilins og um undirbúning starfskrafta. Það þarf að leita fyrir sér meðal kennara, sérstaklega í sveitum, hvort þeir fást ekki til að helga sig slíku hlutverki. Erlendis eru það einkum konur með kennara­menntun og menn úr kennarastétt, sem til þess veljast. Þá kæmi til mála að verja nokkru af því fé, sem veitt hefir verið til barnaverndar, til að styrkja efnilega menn til að kynna sér erlendis slíka uppeldisstarfsemi. Kennarar, sem árlega fara utan fleiri eða færri, ættu áreiðan­lega greiðan aðgang að slíkum stofnunum í Dan­mörku, Svíþjóð og Noregi. Ég veit af eigin reynd, að það er svo í Danmörku. Ég kom þar t. d. á eitt slíkt heimili og átti tal við formann barna­verndarnefndarmálanna í Danmörku. Hann fór mjög hlýlegum orðum um að veita Íslendingi aðgang að námi á einhverju slíku heimili, til þess að kynna sér starf og rekstur þess háttar stofnana, og ég skildi hann svo, að dvölin yrði ekki kostnaðarsöm.

Ég vænti þess, að þegar ég sé enn á ný fram á, að þetta hugsjónamál mitt og heitt áhugamál nái ekki fram að ganga, þá verði öllum skiljan­legt, að sársaukalaust er mér það ekki, þar sem ég veit, að svo margir unglingar eru í hættu staddir vegna þess að þjóðin vanrækir skyldur sínar við þá, — já, fara beinlínis illa fyrir hreina og beina handvömm þjóðarinnar. Mér svíður aðgerðaleysið og ég mun aldrei geta sætt mig við það, ef þing og stjórn taka nú ekki málið föstum tökum og hrinda því fram strax og fært þykir. Hér liggur fyrir d. í dag annað alvörumál, frv. um varnir gegn þeirri fjárpest, sem nú ógnar miklum hluta þjóðarinnar. Eng­um dettur annað í hug en að gera allt, sem hugsanlegt er til að stöðva þann vágest. En þegar við lítum á óknyttapestina, sem er að grípa um sig hjá æskulýðnum okkar, ætti Al­þingi að hafa skilning á því, að hún er sízt hættuminni fyrir þjóðina.

Ég skal ekki fara út í það, hvað við tekur, ef ekkert er gert til varnar; það fá þeir að reyna, sem við það verða að glíma á sínum tíma.

Ég þakka samt sem áður hv. frsm. og hv. alls­hn. fyrir þann skilning, sem fram hefir komið á málefninu frá þeirra hendi, þó ég harmi það mjög, að frv. skuli ekki hafa fundið fulla náð fyrir augum þeirra. Ég sagði þó n., að hún hefði samþykki mitt til hverskonar breytinga á frv., aðeins ef meginmál þess mætti standa óhaggað, því málefnið sjálft er mér fyrir öllu, af því ég er sannfærð um, að í frv. er farin rétt leið til hjálpar vangæfum börnum þjóðarinnar.