11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (2816)

131. mál, ný læknishéröð

*Flm. (Helgi Jónasson):

Þáltill. þessi fer fram á að skora á ríkisstj. að láta rannsaka, í samráði við landlækni, möguleikana fyrir stofnun nýs læknishéraðs fyrir næstu sveitir beggja megin Þjórsár.

Í Þjórsártúni hefir, sem kunnugt er, verið starfandi læknir í mörg ár, eða síðan skömmu fyrir aldamót, þangað til nú fyrir fáum árum, að hann varð að láta af störfum vegna sjóndepru. Það hefir margoft komið í ljós, að nauðsynlegt er að hafa lækni á þessu svæði nálægt Þjórsárbrú, því að þær fjölmennu sveitir, sem liggja beggja megin Þjórsár, eru mjög illa settar með að ná til læknis vegna fjarlægðar.

Ég kem ekki með till. um það nú, hvernig ég hugsa mér skiptingu á þessu héraði, hve stórt þetta nýja læknishérað ætti að vera, en legg það á vald hæstv. ríkisstj. og landlæknis að koma með till. um það fyrir næsta þing.

Frá þessum sveitum eru víða 50 kílómetrar til næstu héraðslækna, og auk þess eiga þeir læknar fólksmörgum héruðum að gegna. Ennfremur eru sum læknishéruð á þessum stöðum svo stór, að ef farsótt kemur upp í héraðinu, þá kemst ekki einn læknir nærri því yfir að sinna öllum sjúklingum, sem þá gæti þurft að sækja lækni til, ef um mikil veikindi væri að ræða.

Vona ég, að till. þessi verði samþ., og sé ég ekki ástæðu til að hafa um hana fleiri orð að sinni.