29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Ólafur Thors:

Það er rétt hjá hv. frsm. meiri hl. n., að í þessu sama frv. er nokkuð gert til þess að gera útgerðarmönnum hægra að útvega kol og salt til útgerðarinnar. En sú hjálp er ekki mjög mikils virði, eða a. m. k. ekki eins mikils virði og hv. frsm. meiri hl. hyggur, því að vörutollurinn af kolum er ekki talinn nema meiru en 1400 kr. á hvern togara yfir vertíðina, og salttollurinn er minni, aðeins 500–600 kr. á hvern togara yfir vertíðina. (SvbH: Hefir hann talið allt?) En svo veit ég líka, að þessi hv. frsm. er minnugur þess, að þessar tilslakanir eru bara heimild fyrir ríkisstj., sem ég geri mér þó von um, að verði notuð. Eins og hv. 1. þm. Rang. eflaust man, komast þessar tilslakanir þó ekki til jafns við hinar nýju álögur, sem lagðar voru á útgerðina á hinu sama þingi, og námu 2–6% hækkun á hverri nauðsynjavöru, sem til útgerðar þarf, nema kolum og salti. Allar aðrar vörur eru verðtollaðar, eða verðinu hleypt upp með gjaldeyrishömlunum. En auk þess arna var lagt á þessu þingi 12% álag ofan á alla skatta og tolla, sem á útgerðinni hvíla. Ég er ekki í neinum vafa um það, að enda þótt til viðbótar þessum tilslökunum komi þær tilslakanir, sem gerðar voru á síðasta Alþ., að fella niður útflutningstollinn á saltfiski, muni sú verða raunin á, ef dæmið er gert upp, að þær álögur, sem á útgerðina voru lagðar, verði meiri en það, sem henni var gefið eftir. En af því að hv. frsm. meiri hl. lét í ljós, að hann hefði ekki mjög ósvipað sjónarmið og ég, vil ég taka fram, að það hefir verið venja þingsins að leggja meiri kvaðir á þá menn, sem mjög standa miður að vigi í baráttu atvinnuveganna, en hina, sem betur standa að vígi og taka laun sín á þurru landi. En þá er höfuðröksemdin fyrir því, að það þurfi að fá nýtízku togara, sem sé að slíkir togarar hafi betri aðstöðu til sæmilegrar rekstrarafkomu en hinir eldri. Ég viðurkenni að full þörf er á því að endurnýja togaraflotann, en ég vil nota þetta tækifæri til þess að leiða athygli þessa hv. þm. að því, að það er fullkominn misskilningur, sem oft hefir sézt á prenti í flokksblöðum Framsfl. og í Alþýðubl., að ég hafi lýst því yfir, að togararnir væru ryðkláfar og manndrápsbollar. Ég get, með leyfi hæstv. forseta, lesið upp orðrétt þau ummæli mín, er ég viðhafði á Alþ. 1934 á eldhúsdaginn. Þar segir svo: „Ef til vill sýnir ekkert eins vel eymd og volæði atvinnulífsins eins og það, að nær fullkomin þögn ríkir um þá staðreynd, að árin eru smátt og smátt að breyta fiskiflotanum í ryðkláfa og fúaduggur. Svo hörð er lífsbaráttan, svo örðug gliman við. hið lága afurðaverð og sligandi skattpyndingar ríkisvaldsins, að útvegsmenn gefa sér hvorki tíma til þess að líta um öxl eða horfa fram á veginn, en einblína á þann hjallann, sem næstur er, til þess að missa ekki fótanna. Þannig draga þrengingar liðandi stundar athyglina frá þeim voða, sem framundan bíður, þegar útvegsmenn, sjómenn og verkamenn, þegar öll íslenzka þjóðin vaknar til fulls skilnings á þeirri hræðilegu staðreynd, að fiskiskipin eru orðnir mannskaðabollar, ósjófærar fleytur, sem samt verða notaðar af því okkar fátæka þjóð á sér ekki annars úrkosta til lífsframfæris, notaðar þar til þeim smáfækkar, sem líkkistum dugmestu sjómanna heimsins“.

Þetta mun verða fyrr eða síðar, ef Alþ. ber aldrei gæfu til þess að létta sköttum af útgerðinni. Útgerðin verður að bera sig, svo að hún geti endurnýjað sig sjálf. Við eigum ekki að endurnýja fiskiflotann á þann hátt, að ríkið gefi fjórða hlutann af andvirði hvers skips og láni þar á ofan 7–8% af kaupverðinu. Við athugun þessa máls hlýtur hv. frsm. meiri hl. að skilja það, að þetta er ekki hugsanlegt í okkar þjóðfélagi. Íslenzka þjóðfélagið getur ekki byggt upp sína framtíð á því, að togaraflotinn standi uppi algerlega ósjálfbjarga og leggist síðan sem ómagi upp á þjóðfélagið, en það gerir hann, ef hann á að baslast áfram með gjöfum af hendi ríkisins. Það, sem hér þarf að gera, er fyrst og fremst, að búa þannig um hnútana, að útgerðarmenn geti verið alveg sjálfbjarga. Það er nauðsynlegt, að þeir menn, sem leggja fyrir sig þann atvinnuveg, verði sjálfbjarga engu síður en aðrir. Einmitt vegna þess, hve þörfin er brýn á að endurnýja togaraflotann, riður mikið á, að Alþ. geri sér ljóst, hvað það er, sem þarf að gera. Það eru ekki gjafir til einstakra manna til að kaupa nýja togara með framlagi frá ríkinu, sem svarar 1/3 kostnaðar, heldur að létta sköttum af útgerðinni. En viðvíkjandi þessum orðum þm. má segja það, að Alþ. verður að gera sér ljóst, hvað gera þarf. Það er að sjálfsögðu hin mesta nauðsyn að létta slíkum kostnaði af útgerðinni, svo að útgerðarmenn sjái sig ekki dauðadæmda af þeim ástæðum. Fyrsta boðið í viðreisnarmálum sjávarútvegsins er að skapa þeim flota, sem fyrir er, sæmilega rekstrarafkomu.