29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Einar Olgeirsson:

Þó að ekki megi vænta verulegra átaka um þetta frv., vil ég gera grein fyrir afstöðu okkar kommúnista til þess. Við erum á móti frv., að undantekinni 2. gr. þess. Þær tekjur, sem ríkissjóður kann að missa við það, ef þetta verður samþ., verða teknar annarsstaðar frá, og þá líklega með því að hækka tolla á nauðsynjum og álögur, sem á almenningi bitna.

Þó að bæði Alþfl. og Framsfl. hafi það á stefnuskrá sinni að afnema tolla á nauðsynjum almennings, hafa þeir um skeið haldið áfram að hækka stöðugt þessa tolla, og sjá nú ekki aðra fjáröflunarleið. Við komúnistar höfum lagt fram frumvörp, sem myndu hafa séð fyrir nokkurra millj. kr. tekjum í ríkissjóð, ef samþykki hefði náðst um þau. Auk þess myndu þau sem leiðir til tekjuöflunar hafa haft mjög mikla þjóðfélagslega þýðingu, í stað þess að nú er meira og meira stefnt í þá átt, að byrðarnar komi sem ójafnast niður.

Við kommúnistar erum með 2. gr. þessa frv., um tekjuskattinn, en þar sem við erum á móti frv. í heild sinni, hirði ég ekki um að ræða nánar efni þess.