04.04.1938
Sameinað þing: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (2861)

91. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Heiðruðu tilheyrendur!

Þar sem þetta er í fyrsta sinn síðan Kommúnistaflokkur Íslands eignaðist fulltrúa á Alþingi, að vantraust á ríkisstj. er rætt, þykir mér hlýða að gera nokkra grein fyrir almennri afstöðu flokksins til ríkisstjórna í auðvaldsskipulagi. um leið og ég lýsi afstöðu flokksins til þeirrar till. um vantraust á ríkisstj., sem hér liggur fyrir.

Við kommúnistarnir erum andstæðingar núv. auðvaldsskipulags. Við berjumst fyrir því að afnema það með öllu og koma þjóðfélagi sósíalismans á í staðinn.

Við erum svarnir andstæðingar auðvaldsskipulagsins vegna þess, að í því þjóðfélagi eru framleiðslutækin, sem mennirnir vinna með — verksmiðjurnar, togararnir, samgöngutækin — eign lítillar stéttar — auðmannastéttarinnar, en meiri hluti mannanna, einmitt mennirnir, sem vinna og skapa verðmætin, verkamennirnir, eru eignalausir og verða að selja vinnuafl sitt, og auðmennirnir kaupa það því aðeins, að þeir græði á því.

Við kommúnistar erum andstæðingar auðvaldsskipulagsins vegna þess, að í því skipulagi eru vinnandi stéttirnar látnar þræla til að skapa fámennri yfirstétt auð, og er svo hent út á gaddinn, varpað út í vonleysi atvinnuleysisins. þegar yfirstéttin vill ekki nýta vinnuafl þeirra lengur.

Við erum andstæðingar auðvaldsskipulagsins vegna þess, að í því eru peningarnir gerðir að drottnum mannanna. en lífshamingja og velferð fjöldans að verzlunarvöru, og það vöru, sem oftast er einskis metin og svívirt.

Þar sem auðvaldsskipulagið þannig byggist á kúgun verkalýðsins og allrar alþýðu, rís verkalýðurinn og allir þeir. sem þrá frelsi, upp gegn þessu skipulagi og berst fyrir afnámi þess. –fyrir sköpun þjóðfélags. þar sem verkalýðurinn á sjálfur framleiðslutækin. — þar sem vinnandi stéttirnar ráði sjálfur lífsskilyrðum sínum og njóti því ávaxtanna af erfiði sínu og fórnum.

Þessi frelsisbarátta verkalýðsins — fyrir afnámi auðvaldsskipulagsins og fyrir því að koma sósíalismannm á — er stórfenglegasta frelsisbarátta allra tíma, og við kommúnistar, sem erum hluti þess verkalýðs, sem sækir fram til sósíalismans, skoðum það sérstaklega sem skyldu okkar að berjast þar í fylkingarbrjósti. en að hafa þó á hverjum tíma baráttunnar heildarhagsmuni verkalýðshreyfingarinnar fyrir augum.

Við kommúnistar vitum, að frelsi alþýðunnar fæst ekki að fullu nema með afnámi auðvaldsskipulagsins, og berjumst fyrir því með allri alþýðu. En í því felst ekki það, sem oft er haldið fram á síðustu tímum af þeim mönnum, er reyna að kljúfa vinstri öflin í baráttunni gegn fasismanum. að barátta verkalýðsins og þar með kommúnistaflokka beinist gegn lýðræðinu, af því að í sumum löndum ríkir auðvaldsskipulagið með borgarlegu lýðræðisfyrirkomulagi. Þessi kenning um baráttu okkar gegn lýðræði er hreinasta bábilja. Virkilegt lýðræði annarsvegar og auðvaldsskipulag hinsvegar eru raunverulega andstæður, sem aldrei er hægt að samræma, frekar en hægt er að samræma peningagildi og manngildi eða yfirráð auðs og full mannréttindi. Lýðræði í þjóðfélagi, þar sem yfirgnæfandi meiri hluti mannanna er atvinnulega háður lítilli eignastétt, verður því aldrei nema svipur hjá sjón. Einræðið er það skipulag, sem mest er í samræmi við hagsmuni auðvaldsins, og því það skipulag, sem það viðheldur meðan tök eru á. Alþýðan knýr að vísu auðvaldið oft með samtökum sínum til að koma á nokkuð almennum kosningarrétti, eins og t. d. íslenzka alþýðan hefir smám saman gert á síðasta mannsaldri, — en undirtökunum heldur auðmannastéttin, og þyki henni völd sín í hættu sökum of mikilla mannréttinda fólksins, þá svífst hún ekki þess að beita hvaða ráðum sem er til að koma á fullkomnu einræði sínu aftur. Spánn er bezta dæmið um þetta. Lýðræði í auðvaldsþjóðfélagi er því aðeins svipur hjá sjón, samanborið við fullkomið lýðræði á grundvelli sósíalisma. — og auk þess eins fallvalt og raun ber vitni um, hvert sem maður litur í auðvaldsheiminum.

Við kommúnistar, og öll sú alþýða, sem berst fyrir sósíalisma, erum andstæðir auðvaldsskipulaginu, af því að það er sjálft í eðli sínu kúgunarskipulag og andstætt öllu lýðræði og frelsi. Það liggur því í augum uppi fyrir þá, sem vilja skilja örlagaríkustu baráttu nútímans, að einmitt andstæðingar auðvaldsins, fylgjendur sósíalismans eru forvígismenn lýðræðis og felsis.

Það leiðir því einnig af sjálfu sér, að á öllum venjulegum tímum auðvaldsskipulagsins erum við kommúnistar hinir ákveðnustu andstæðingar hverrar ríkisstj., sem fer með völd í auðvaldsþjóðfélagi. Því að slíkar ríkisstjórnir eru venjulegast aðeins nefndir, sem auðvaldið setur til að gæta heildarhagsmuna sinna og beitir sem verkfærum sínum.

Þetta á einnig við að miklu leyti um ríkisstjórn þá. sem nú situr, ráðuneyti Hermanns Jónassonar. Þessi ríkisstj. staður að viðhaldi auðvaldsskipulagsins og alls þess ranglætis, sem því fylgir. Þessi ríkisstj. hefir enn ekki þorað að láta til skarar skríða gegn fjármálaspillingunni í landinu, gegn þjóðarskaðsamlegum yfirráðum landsbankastjórnarinnar og Kveldúlfs yfir atvinnu- og fjárhagsmálum landsins, — og það þó óhjákvæmilegt sé orðið frá lagalegu sjónarmiði að gripa þarna inn í. Þessi ríkisstj. hefir nú nýlega knúð fram lögþvingaðan gerðardóm í vinnudeilu, og ætlar sér nú að knýja fram vinnulöggjöf, er skerðir verkfallsrétt verkamanna, þó að mikill meiri hluti verkalýðssamtakanna mótmæli. Þessi ríkisstj. hefir ekki fengizt til að gera þær stórfelldu ráðstafanir, sem meiri hluti þjóðarinnar heimtar, til að bæta úr atvinnuleysinu. Þótt þúsundir vinnufærra Íslendinga gangi atvinnulausir mánuðum saman, þótt ungu verkamennirnir lifi við hörmungarkjör og skorturinn sverfi æ fastar að fjölskyldum verkamanna, þá hafa núv. stjórnarflokkar samt steindrepið hverja einustu tillögu okkar kommúnista hér á þinginu, sem miðaði í þá átt að auka atvinnuna, tryggja byggingu verkamannabústaða, bæta alþýðutryggingarnar, auka fiskiflotann. eða á annan hátt að bæta kjör vinnandi stéttanna. Það þarf því engan að undra, þótt við kommúnistar vantreystum núv. ríkisstj. og þessari pólitík hennar, sem núv. ráðuneyti hefir lýst yfir, að verði haldið áfram. Enda vorum við kommúnistar einu þingmennirnir, sem greiddum atkv. á móti fjárl. í fyrra, — fjárl., sem þýddu nýjar milljónaálögur á þjóðina, — en íhaldið ýmist greiddi atkv. með þeim eða sat hjá. Afstaða okkar kommúnistanna gagnvart þeirri pólitík. sem ríkisstj. hefir rekið, er því skýr.

Nú liggur hér fyrir vantraustsyfirlýsing á þessa ríkisstjórn. Hvaðan kemur þessi vantraustsyfirlýsing og hver er tilgangurinn með henni?

Það er Sjálfstfl., með Ólaf Thors í fararbroddi, sem ber till. fram.

Og hver er afstaða þess flokks til þeirra mála, sem við kommúnistar berjumst fyrir og gera það að verkum, að við erum andstæðir núv. ríkisstjórn? Afstaða hans til fjármálaspillingarinnar, landsbankaóstjórnarinnar og Kveldúlfshneykslisins er, að öllu þessu skuli halda áfram. Það lá við, að Sjálfstfl. hótaði hér uppreisn, ef annað eins ætti að láta viðgangast og að gera upp gjaldþrota fyrirtæki.

Hv. þm. G.-K. fór mörgum hjartnæmum orðum um „helgreipar atvinnuleysisins“. Hann man víst ekki eftir því lengur, þegar Kveldúlfur lagði upp togurunum 1936 til þess að gera neyðina meiri. Og flokksmenn hans í bæjarstj. taka sér ekki eins nærri atvinnuleysið, þegar þeir eru að leggja niður atvinnubótavinnuna. Hv. þm. ætti frekar að leita til flokksbræðra sinna í bæjarstj. Reykjavíkur og biðja þá að létta af atvinnuleysinu og spyrja þá um hitaveituna, hvað henni liði. Nei, við erum nú farnir að þekkja afstöðu Sjálfstfl. til atvinnuleysisins, sem sé, að honum komi það ekkert við. Og söm er afstaða flokksins til húsnæðismálanna í Rvík. Bjarni Benediktsson lýsti yfir því, að þau mál væru utan við verkahring Sjálfstfl. Það væri dálagleg útkoma, sem verkalýðurinn ætti í vændum, ef þessir menn ættu að ráða.

Hv. þm. talaði lítið um dýrtíðina, enda má hann vita, að það eru nánustu stuðningsmenn hans, sem halda henni uppi. Og þá einu sinni heyrist Morgunblaðið kvarta, þegar komið er við þeirra kaun, sbr. kolaverðið. Það er sama, hvaða hagsmunamál verkalýðurinn á. Alstaðar er Sjálfstfl. hans versti andstæðingur. Ég vil skjóta því hér inn í, að það er ekki aðalatriðið fyrir þessum herrum, hvaða kaup verkamennirnir fá. Á Siglufirði neituðu atvinnurekendur að skrifa undir kaupsamninga um daginn, nema þeir fengju gerðardóm. Þeir vilja geta kúgað verkamennina. Það er aðalatriðið.

Hv. þm. G.-K. hefir sagt, að það þyrfti að vera til gerðardómur í kaupdeilumálum, því að kaupkröfur verkamanna væru ósvífnar. En hverjar eru kröfurnar? 1500–3000 kr. á ári. Samt gætu árslaunin verið um 7000 kr. að meðaltali, ef jafnt væri skipt. En hvað gera Ólafur Thors og hans nótar sig ánægða með? Við skulum athuga það. Richard Thors er framkvæmdarstj. fisksölusamlagsins og hefir 21 þús. kr. í laun. Þar eru 3 framkvæmdarstj. með þessi sömu laun. Magnús Sigurðsson bankastjóri hefir upp undir 30 þús. kr., 2 aðrir bankastjórar hafa ámóta laun. Sjálfur er Ólafur Thors og bræður hans álíka hálaunaðir hjá Kveldúlfi. í Landsbankanum fer yfir 1/2 millj. kr. í kaupgreiðslur, og 6 menn fá 1/5 partinn af þeirri upphæð. Þar er hv. þm. G-K. innsti pottur í búri með 2500 kr. laun fyrir að líta þangað inn rétt stöku sinnum. Eggert Claessen, formaður Vinnuveitendafél., samdi við Íslandsbanka um árið um 40 þús. kr. laun á ári, er væru tryggð í 10 ár, á sama tíma sem hann var að setja bankann á hausinn! Þessir herrar leyfa sér svo að koma og heimta ríkisstj., sem sé nógu sterk til að lækka kaupið hjá þeim fátækustu, og heimta, að slík ríkisstj. beiti ríkisvaldinu miskunnarlaust í kauplækkunarskyni. Verkalýður Íslands, sem er berjast við að bæta hin lélegu kjör sín, svarar þessum herrum, þessum kauplækkunarpostulum, með því að segja: „Byrjaðu á sjálfum þér, góði! Skerið þið fyrst niður háu launin. Prófið þið að lifa sjálfir af árslaunum verkamannanna, og síðan skulum við talast við um álit ykkar á kauplækkun“.

Sú pólitík, sem alþýðan heimtar, að sé framfylgt, er, að gert sé upp sukkið og að fjár sé aflað með sköttum á auðinn. Við kommúnistar höfum hvað eftir annað lagt fram till., sem miða að þessu. Við höfum sannað með frv. okkar, að hægt sé að afla millj. kr. með sköttum á gróðann. Við höfum barizt fyrir auknum réttindum alþýðunnar, bættum tryggingum, neytendasamtökum á móti dýrtíðinni, hjálp til smáútvegsmanna. Við höfum barizt fyrir því, að einokunaraðstaða heildsala gagnvart smákaupmönnum verði afnumin, að reynt verði að reisa við útgerðina, að prófuð verði útgerð allstórra vélbáta með dieselvélum. Bak við kröfur okkar stendur meiri hluti kjósenda. Við erum vissir um, að meiri hl. þjóðarinnar vill þessa pólitík, og að frammi fyrir dómi fólksins mundi pólitík okkar standast. Við erum reiðubúnir til að styðja hverja ríkisstj., sem vill gera þetta með okkur, en — þetta er ekki annað en það, sem Framsfl. lofar fyrir hverjar kosningar, þó að minna verði úr efndum.

Þessi vantrauststill., sem hér liggur fyrir, kemur frá afturhaldssamasta hluta burgeisastéttarinnar á Íslandi, frá þeirri auðmannaklíku, sem vill ræna fólkið því lýðræði, sem það hefir aflað sér, stöðva með ofbeldi sókn alþýðunnar fram til sósíalismans og leiða yfir þjóðina algert einræði spilltustu auðmannaklíknanna, fasismann. En þar sem framsóknarflokkarnir og sósíalistar og kommúnistar hafa tekið höndum saman, hefir fasisminn verið stöðvaður.

Það kom líka greinilega í ljós bæði í ræðu hv. þm. G.-K. um daginn, er hann tilkynnti vantraustið, og nú, að það, sem hann og hans fylgifiskar vantreysta ríkisstj. til, það er að beita ofbeldi gegn verkalýðnum, framfylgja gerðardómslögunum með ofbeldi og liðsafnaði. Það er hér um að ræða árás á lýðræðið frá afturhaldinu, árás á stjórn, sem auðmannaklíkan óttast, að verði ekki nógu fylgispök sér.

Það liggur því í augum uppi, að þrátt fyrir vantraust okkar kommúnista á núv. ríkisstj., þá getum við alls ekki greitt atkv. með vantraustsyfirlýsingu úr þeirri átt sem þessi kemur. Þvert á móti hefðum við, ef flytjendur vantraustsins hefðu þorað að láta rökstuðning sinn fyrir vantraustinu standa í hinni prentuðu till., greitt atkv. gegn þessari vantraustsyfirlýsingu íhaldsins.

Þar sem hinsvegar þáltill. hljóðar aðeins um, að Alþingi lýsi vantrausti á ríkisstj., og við vantreystum henni, ekki sízt vegna vinnulöggjafar þeirrar, sem hún nú ætlar að knýja fram, — en erum algerlega andstæðir öllum þeim ástæðum, sem flytjendur till. færa fyrir henni, þá munu þm. Kommfl. sitja hjá við atkvgr., með skírskotun til þeirrar afstöðu okkar, sem ég hefi nú lýst.

Þar með er ekki sagt, að það gæti ekki komið fyrir, að við kommúnistar styddum ríkisstj. í auðvaldsskipulagi. Nú er svo komið að auðmannastéttin, eða a. m. k. afturhaldssamasti hluti hennar, hefir með fasismanum hafið árás á það lýðræði, sem alþýðan hefir knúið fram innan auðvaldsskiplagsins, og baráttan, sem nú stendur yfir jafnt úti í heimi sem hér á Íslandi, er nú sem stendur baráttan milli fasisma og lýðræðis. Við kommúnistar skipum okkur í þeirri baráttu hiklaust með lýðræðinu, en til þess að geta varið lýðræðið gegn fasismanum, er ekki nóg að hrópa í sífellu: „Lýðræði, lýðræði!“ Til þess að verja lýðræðið og til þess að fá hinar vinnandi stéttir til að verja það með öllum ráðum, verður að gefa lýðræðinu slíkt innihald, að fólkið finni, að það sé þess vert að verja það. Er von að fólkið vilji „lýðræði“, sem skammtar því hungur og atvinnuleysi? Er von, að menn elski það „lýðræði“, sem ofsækir verkalýðinn með vinnulöggjöf og stéttardómum, en neitar honum um réttinn til að afla sér brauðs í sveita síns andlitis? En lýðræði, sem gerir allt, sem í þess valdi stendur, til að bæta kjör fólksins, og hikar ekki við að hnekkja okri og gróða auðmannanna til að lina þjáningar hinna fátæku, slíkt lýðræði vinnur hjarta fólksins, um slíkt lýðræði slá vinnandi stéttirnar órjúfandi skjaldborg.

Þess vegna berjumst við kommúnistar fyrir því fólksins og lýðræðisins vegna, að tekin sé upp allt önnur, djörf og einörð pólitík af hálfu þeirra flokka, er lýðræðið vilja vernda og kenna sig við vinnandi stéttirnar. Pólitík núv. ríkisstj. er mörkuð hálfvelgju og ótta. Hún stendur eins og á millí tveggja elda. Annarsvegar eru vinnandi stéttirnar, sem hún á fylgi sitt hjá og heimta af henni róttækta pólitík, hinsvegar hin drottnandi auðmannaklíka í landinu: Kveldúlfur, Landsbankinn, heildsalarnir og hringavaldið, sífellt með hnefann á lofti. Milli þessara afla stendur togstreitan um pólitík ríkisstj. Afturhaldið, með landsbankastj. í broddi fylkingar. heimtar, að Kveldúlfsvaldinu sé haldið við á kostnað landslýðsins, að ekki sé haggað við einræði landsbankastj., að ekki séu þyngdir skatturnir á þeim ríku, en tollarnir hinsvegar hækkaðir á þeim fátæku, að gróði heildsalanna og hringanna, sem eru innundir hjá bankavaldinu, sé ekki skertur, að vinnulöggjöf sé komið n. Og afturhaldinu hefir orðið nokkuð ágengt um þetta. Því tókst í fyrrasumar að fá stöðvaðar allar aðgerðir gegn Kveldúlfi og að láta ausa milljónum kr. í viðbót í þá hít. Því tókst að ná til sín valdinu yfir síldarverksmiðjum ríkisins, til að láta reka þær í samræmi við hagsmuni Kveldúlfs og landsbankavaldsins. Og því tókst nú nýlega að koma á fyrsta lögþvingaða gerðardóminum á Íslandi, með þeim árangri, að harðvítugir atvinnurekendur hugsa sér nú strax gott til glóðarinnar og neita að semja við verkamenn á Siglufirði um kaupgjaldið í síldarverksmiðjunum, til þess að láta ríkisvaldið lögbjóða það með nýjum gerðardómi, þegar þar að komi.

En þrátt fyrir sigra afturhaldsins í þessum málum, þá er langt frá því, að það hafi unnið nokkurn úrslitasigur ennþá.

Ef framsóknarmenn vilja nú læra af reynslunni og ekki fljóta sofandi að samskonar feigðarósi og lýðræðisflokkar Mið-Evrópu, þá taka þeir nú höndum saman við verkalýðinn, við allan verkalýðinn, án tillits til, hvort það eru sósíaldemokratar eða kommúnistar. Og hver eru skilyrðin til þess, að hægt sé að skapa slíka ríkisstj., stj. fólksins og lýðræðisins gegn afturhaldi og fasisma auðmannaklíkunnar? Skilyrðin eru fyrst og fremst tvenn: Í fyrsta lagi sameiningverkalýðsins, og í öðru lagi þjóðfylking vinstri flokkanna. samvinna verkamanna, bænda og millistétta bæjanna. Bæði þessi skilyrði þarf að skapa í ár. Þá væri hægt að mynda ríkisstj. þjóðfylkingarinnar á næsta ári á Íslandi. Örlög íslenzku þjóðarinnar geta oltið á því, að alþýðan nái að sameina krafta sína svo snemma. að þetta geti tekizt. Hverjir eiga að skapa þessi skilyrði? Það eruð þið, vinnandi stéttirnar, þið, sem hafið byggt upp verklýðshreyfinguna og samvinnuhreyfinguna. Tengið nú þessar hreyfingar saman! Hindrið fasismann og ofbeldi íhaldsins! Fasisminn verður aldrei stöðvaður með undanhaldi, og það þarf einkum Framsfl. að læra. Það er ykkar, íslenzkir alþýðumenn og konur, að skapa einingu lýðræðisaflanna í landinu. Ný kreppa er að færast yfir, nýtt heimsstríð er að hefjast, ef til vill í ár. Sakir þessa verða allar mótsetningar enn skarpari, átökin milli afturhalds og lýðræðis enn harðvítugri, og þess vegna verða kraftar alþýðunnar að verða sterkari og umfram allt sameinaðir, ef nokkur von á að vera um sigur. Þess vegna skorar Kommfl. á ykkur héðan úr sölum Alþingis, verkamenn, bændur, fiskimenn, að nota tímann, sem nú er að liða, þessa mánuði, þetta ár, til að skapa þá einingu, sem ekkert afturhald getur rofið. Og til þess verður að brjóta á bak aftur mótspyrnu hægri aflanna í Framsfl. og Alþfl. þeirra afla. sem vinna í þágu afturhaldsins með því að sundra vinstri flokkunum og berjast gegn samstarfi þeirra og samvinnu.

Þessi stj., sem nú situr, nýtur hvorki traust til hægri né vinstri. Hún kemur til með að lafa sem milliflokkastjórn í því millibilsástandi, um héðan af verður í íslenzkri pólitík til næsta þings. En þetta millibilsástand verða vinstri öflin í landinu að nota til hins ýtrasta til að undirbúa á næsta ári ríkisstj., sem nýtur trausts vinstri aflanna. ríkisstj., sem hefir alþýðuna óskipta á bak við sig, ríkisstj., sem framkvæmir vilja fólksins og bætir úr brýnustu þörfum þess. Og skilyrðið til þess, að þetta takist, er, að á þessu ári verði aðalkjörorð Kommfl. á yfirstandandi tímabili gert að veruleika: Vinnandi stéttir Íslands! Sameinizt!