05.04.1938
Sameinað þing: 16. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (2869)

91. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Stefán Stefánsson:

Herra forseti! Góðir hlustendur! Klukkan 4,20 að morgni þess 17. marz voru afgr. l. frá Alþ. um, að ágreiningur útgerðarmanna botnvörpuskipa og sjómanna skyldi lagður í gerð. L. þessi voru samþ. af þremur flokkum þingsins, Framsfl., Sjálfstfl. og Bændafl. Verkalýðsflokkarnir greiddu atkv. gegn l.

Samningar þeir, sem gerðir voru milli útgerðarmanna og sjómanna, voru útrunnir um síðastl. áramót, þar sem sjómenn sögðu upp gildandi samningum frá þeim tíma. Nýir samningar náðust eigi með aðiljum.

Sáttasemjari ríkisins hafði reynt að miðla málum og borið fram miðlunartill., er hafnað hafði verið af báðum aðiljum. Samkv. ósk hæstv. forsrh. útnefndi hæstiréttur þriggja manna sáttanefnd, sáttasemjara til aðstoðar.

Var nú á ný leitað um sættir og borin fram ný miðlunartill. Var hún felld af sjómönnum með 284 atkv. gegn 226. Útgerðarmenn samþ. till. með skilyrðum. Sáttasemjari taldi nú allar frekari sáttatilraunir árangurslausar og tilkynnti það hæstv. forsrh. Nú voru góð ráð dýr. Átti að láta allt reka á reiðanum, — eiga á hættu að saltfisksvertíð togaranna félli niður? Eða átti að leysa málið með aðstoð löggjafarvaldsins? Félli saltfisksvertíðin niður, var óhjákvæmilegt ríkisgjaldþrot yfirvofandi jafnframt stórkostlegu atvinnuleysi og hverskonar þrengingum. Til þess nú að fyrirbyggja hinn bráða voða, bar hæstv. forsrh. f. h. Framsfl. fram áður umgetið frv.

Þm. allra þeirra flokka, er l. greiddu atkv., voru sammála um það, að viðurkenna bæri sem höfuðreglu samningsrétt aðilja til að ráða fram úr ágreiningi um kaup og kjör, en sú höfuðregla yrði að víkja, þegar um það væri að ræða að sjá borgið hagsmunum þjóðarinnar. En full ástæða er til þess að ætla, jafnvel vissa, að hér hefði ríkt fullkomið neyðarástand, hefði eigi tekizt að leysa deiluna.

Afgreiðsla l. varð til þess, sem kunnugt er, að Alþfl. dró sinn ráðh. úr ríkisstj. Enda þótt flokkurinn viðurkenndi, að togaradeilan yrði eigi leyst án tilstyrks löggjafans, vildi flokkurinn eigi fara þá leið, sem farin var með gerðardóminum. En samkv. honum er eigi aðeins leyst úr ágreiningi um kaup á saltfisksveiðunum, heldur einnig á síldveiðum og ísfisksveiðum. Alþfl. vildi aðeins lögbjóða till. sáttasemjara um saltfisksveiðarnar, er samhljóða voru ákvæðum gerðardómsins, en eiga allt á hættu, hversu færi með aðra þætti deilunnar. Þetta taldi Framsfl. og aðrir, sem l. greiddu atkv., ófæra leið.

Þar sem nú hafði slitnað upp úr stjórnarsamvinnu Framsfl. og Alþfl. út af lausn togaradeilunnar, var allt í nokkurri óvissu, hversu færi um hæstv. ríkisstj., hvaða breytingar kynnu á henni að verða vegna samvinnuslitanna. Virtust fjórir möguleikar vera fyrir hendi:

1. Myndun þjóðstjórnar, sem skipuð væri fulltrúum frá öllum ábyrgum stjórnmálaflokkum, með það fyrir augum að sameina þjóðina og fulltrúa hennar til átaka vegna fjárhagsvandræða og yfirvofandi örðugleika.

2. Samstarf Framsfl. og þeirra þingflokka, er ásamt honum hafa leyst togaradeiluna, síldarverksmiðjumálin og fleiri mál.

3. Áframhaldandi samstarf Framsfl. við verkalýðsflokkana.

4. Þingrof og nýjar kosningar.

Síðastl. föstudag fékkst ráðning gátunnar. Framsfl. fer einn með stjórnina, en nýtur hlutleysis Alþfl. og loforðs hans um að ganga á móti vantrausti, komi það fram. Hlutleysið er með öllu ótímabundið. Vitað er, að sköpun ríkisstj. gekk ekki hljóðulaust af, og var fæðingin erfið. Viðsjár og deilur hafa orðið innan Framsfl. um það, hvaða afstöðu flokkurinn ætti að taka til stjórnarmyndunar. Formaður flokksins, hv. þm. S.-þ., Jónas Jónsson, mun með öllu hafa viljað slíta samvinnu við verkalýðsflokkana eða þm. þeirra. En hann og þeir, er honum fylgdu, urðu í minni hl. Rauða sveitin í Framsfl. undir forustu bitlingahöfðingjans hv. 1. þm. N.-M., Páls Zóphóníassonar, og annara þm., er eiga þingmannslíf sitt undir kommúnistum, varð fjölmennari í flokknum, þótt undarlegt megi virðast um flokk, er vill láta telja sig flokk bænda.

Mér þykir ekki óviðeigandi vegna þessa hv. þm. að minna á það, að í Ed. hefir form. S. Í. S., hv. 2. þm. Eyf., Einar Árnason, borið fram frv. um breyt. á samvinnulögunum eftir ósk Sambandsins. Hingað til hefir Framsfl. staðið óskiptur um Sambandið, en nú snýst þessi hv. Þm. gegn frv. ásamt form. Kommfl. í Ed., Brynjólfi Bjarnasyni. Svo er nú orðið náið samstarf þessa manns við kommúnista, að hann gengur á móti sínum eigin flokki og móti Sambandinu um að gera lagabreyt., sem óskað er eftir af því og borin er fram af form. Sambandsins.

Eins og þjóðinni mun kunnugt, var hv. 3. þm. Reykv. Héðni Valdimarssyni, vísað úr Alþfl. 9. febr. síðastl. Allt frá þeim degi hefir verið barátta upp á lif og dauða milli hans og annara þm., sem kosnir voru af Alþfl. á þing. En þeir voru 7. Héðinn Valdimarsson sá 8. Barizt er um kjósendur flokksins. Enda þótt hér sé ójafn leikur, þar sem 7 eru á móti 1, virðist margt benda til þess, að hv. 3. þm. Reykv., Héðinn Valdimarsson, muni ganga með sigur af hólmi. Af hræðslu við þennan hv. þm. þorðu hinir 7 andstæðingar hans, þm. Alþfl., ekki að greiða gerðardómnum atkv. Eigi skorti þá viljann, en þá skorti þrekið. Eigi var það af umhyggju fyrir sjómönnum, að þeir greiddu atkv. gegn gerðardómnum. Ef svo hefði verið, hefðu þeir greitt atkv. með, en ekki móti. En það var umhyggjan fyrir þeirra eigin lifi, þingmannslífi í framtíðinni. Ef þeir styddu að framgangi gerðardómsins, fengju þeir hv. 3. þm. Reykv., Héðni Valdimarssyni, vopn í hendur, er hann myndi vega að þeim með. Það þarf enginn kjósandi í þessu landi, sízt af öllu kjósendur Alþfl., að láta sér í hug koma, að hv. þm. Seyðf., Haraldur Guðmundsson, hafi viljað láta draga sig úr ráðherrastólnum. En það, sem létti samflokksmönnum hans dráttinn, var hans veika von um, að rauða sveitin í Framsfl. myndi sjá aumur á honum og flokksmönnum hans, — og vera kynni, að mætti tosa einhverjum þeirra aftur í ráðherrastól. Og svo er nú komið, að eigi er ólíklegt. að hin veika von háttv. þm. kunni að rætast.

Sama daginn og þm. Alþfl. draga sinn ráðherra út ór ríkisstj. fara þeir að leita eftir samvinnu við Framsfl. á ný. Ennþá er það hræðslan við hv. 3. þm. Reykv., Héðin Valdimarsson. sem ræður gerðum þeirra. Hans vegna gera þeir sig hlægilega hjá sínum fyrri kjósendum og gervallri þjóðinni.

Einn af þeim möguleikum, sem skapazt gátu upp úr hinu breytta viðhorfi á Alþ., voru nýjar kosningar. Þessi tvö orð: „nýjar kosningar“, virðast í sjálfu sér vera mjög meinlaus orð. En þó er það svo, að þm. Alþfl. mega ekki heyra þau nefnd án þess að grípa fyrir eyrun. Hljómur þeirra orða gerir þá jafnhrædda sem vopnagnýrinn gerði Björn í Mörk að baki Kára forðum. Nýjar kosningar gætu lagt þá alla að velli. Þeim varð að afstýra, hvað sem það kostaði. Nú skyldi freistað hinnar veiku vonar, er hv. þm. Seyðf.. Haraldur Guðmundsson, ól í brjósti, þegar hann var dreginn nauðugur úr ráðherrastól, og leitað á náðir hinnar rauðu sveitar í Framsfl. og biðja hana ásjár og griða. Buðust nú þm. Alþfl. til að gera eitt af tvennu: „draga“ mann úr sínum hópi á ný inn í stj. eða sýna hlutleysi fyrst um sinn í von um ráðherrasæti síðar. Við kveinstafina glúpnaði rauða sveitin, kenndi skyldleikans milli sín og þm. Alþfl., taldi þá ekki hafa verið sjálfráða gerða sinna, þegar þeir greiddu atkv. gegn gerðardómnum, tók þá í faðm sinn og blessaði þá. Minni hl. Framsfl. varð að horfa á öll þessi læti. Allt frá því að hv. 3. þm. Reykv., H. V., var rekinn úr flokknum, sjá þm. Alþfl. hann í öllu og alstaðar. Allir þeirra draumar snúast um hann og á hvern hátt þeir fái á honum sigrazt.

Af hræðslu við hann greiða þeir atkv. gegn gerðardómnum. Af hræðslu við hann lætur hv. þm. Seyðf., H. G., draga sig úr ráðherrastólnum. Af hræðslu við hann óttast þeir nýjar kosningar fyrst um sinn. Af hræðslu við sama þm. leita þeir á náðir hinnar rauðu sveitar og biðja hana ásjár og griða.

Framkoma þm. Alþfl. er dæmafá. Þeir neita að leysa með Framsfl. eitt hið mesta vandamál, sem leyst hefir verið á Alþ. hin síðari ár. Á fundi Sjómannafélags Reykjavíkur gengust jafnvel þm. þeirra fyrir því að mótmæla gerðardómnum og hóta ofbeldi, ef l. kæmu til framkvæmda. Í till., sem samþ. var á fundi félagsins, segir svo:

„Telur félagið eigi úrskurðinn á þann hátt bindandi fyrir meðlimi sína, að því sé óheimilt að gera ráðstafanir til, að ekki verði lögskráð á togarana með þeim kjörum, sem í úrskurðinum eru ákveðin“. Sjálfir þingmennirnir egna sjómenn til mótmæla gegn settum l., — láta mótmæla þeim sem markleysu og eru óbeint með hótanir um að hindra lögskráningu á togarana samkv. gerðardómnum, séu kjörin ekki að ósk Sjómannafélagsins. Hvort félagið gerir alvöru úr þessum hótunum, eða ekki, verður eigi séð, þar sem félagið samþ. leyfi til handa sjómönnum að láta skrá sig á saltfisksveiðar samkv. till. sáttasemjara, er var samhljóða gerðardómnum. Þetta mun sjást fyrst þegar líður að síldveiðum, hvort félagið gerir alvöru úr hótunum sínum. Það er vonandi, að sjómenn láti hvorki þm. eða aðra hafa sig til þess, er miður skyldi.

En hvað sem verða kann um þessi mál, þá verður að telja það mjög vítavert, að fulltrúar á löggjafarþingi landsins skuli standa að till. og samþykktum, sem hafa inni að halda óbeinar hótanir um ofbeldi til að hindra framgang l. í landinu.

En þrátt fyrir allt þetta komu þessir menn bónarveg til Framsfl., og rauða sveitin tekur þeim fegins hendi. Þessir gömlu samherjar ganga aftur saman í stjórnarsængina; þó þannig, að Framsfl. hvílir þar einn, en þm. Alþfl. standa vörð um sængina, gegn því, að sá, er í sænginni hvílir, verndi þá og geri þeim ekkert mein, og lofi jafnvel einhverjum þeirra að skríða upp í þegar frá líður.

Það er óhætt að fullyrða, að núv. ríkisstj. er ein hin veikasta, er verið hefir, enda þótt hún sé þingræðisstjórn, þar sem hún nýtur fylgis eða hlutleysis 26 þm. En lýðræðisstjórn er hún eigi, þar sem aðeins tæplega einn fjórði kjósenda í landinu veitir henni heinan stuðning, en með öllu er óvíst um fylgi þeirra, er hlutleysið veita. Minna má á það, að hæstv. forsrh. dró það ekki í efa, að núv. stjórnarflokkar myndu eigi ná meiri hl., ef nú yrði gengið til kosninga, og viðurkenndi þar með, að stj. væri ekki lýðræðisstjórn. Ennfremur veikir það stj., að hlutleysið er ótímabundið, en á það var einmitt lögð áherzla af hv. þm. Seyðf. (HG), þegar hin nýja stjórn var tilkynnt á Alþ. Þarf því eigi að vera tjaldað nema til einnar nætur, þar sem hið ótímabundna hlutleysi getur brugðizt þegar minnst varir. En hvísli nú Framsfl. hinum óttalegu orðum „nýjar kosningar“ í eyra þm. Alþfl., má gera ráð fyrir, að þeir hafi hægt um sig fyrst um sinn.

Till. sú um vantraust, er hér er borin fram af hv. þm. G.-K., Ólafi Thors, mun eiga að byggjast á því, að ríkisstj. sé of veik til að tryggja það, að gerðardómslögin komi til framkvæmda, geri Sjómannafélagið alvöru úr hinum óbeinu hótunum sínum.

En á þessum tíma verður ekkert um það sagt, hvort hinar óbeinu hótanir koma til framkvæmda. Fulltrúar Bændafl. á þingi telja till. þessa gagnslausa eins og nú er ástatt. Það var vitað og er vitað, að 26 þm. greiða atkv. gegn till. Því höfum við borið fram rökst. dagskrá um að vísa till. frá. Stj. er að sjálfsögðu mjög veik, og því allt í óvissu, hve langlíf hún verður. Vegna erfiðleikanna, sem að steðja, töldum við sjálfsagt, að ríkisstj. hefði haft a. m. k. öruggan meiri hl. þjóðarinnar að baki. Því hefði stærsti flokkur þingsins, Framsfl., átt að gera tilraun til að mynda þjóðstjórn ábyrgra stjórnmálaflokka, tilraun til að sameina þjóðina, en eigi sundra.

Við væntum þess, að Framsfl., er nú fer með völd, sjái nauðsyn þessa fyrr en seinna. Við teljum, að eins og nú er komið málum með okkar þjóð, muni aðeins sú ríkisstj., sem hefir mikinn meiri hl. kjósenda að styðjast við, megna að vinna bug á erfiðleikunum. Við sýnum með dagskránni vilja okkar til að sameina þjóðina og bendum jafnframt á leið, er muni vera vænlegust til þessa.

Hin nýja stj. hefir ennþá ekkert gert fyrir sér frá því hún tók til starfa, er sérstaklega réttlæti framkomu vantrauststill. Hvað sem segja má, og hvers sem má vænta af hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., er hinn nýi atvmrh. óreyndur og verðskuldar eigi vantraust. Hefir Bændafl. jafnvel nokkra ástæðu til að ætla, að hann muni hafa bætandi áhrif á sína samstarfsmenn í ríkisstj. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda á grein eftir hæstv. ráðh. í bænda- og samvinnublaðinu Framsókn, 29. tölubl. 1933, um verðskráning. Þar ber hæstv. ráðh. fram tvær till., er ég vil leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta: „l. Verðlagsnefnd, sem Alþingi kýs, ákveði verð á helztu framleiðsluvörum landsmanna, fyrir ákveðin tímabil í senn, með tilliti til meðalframleiðslukostnaðar og notagildis þeirra, og séu vörurnar seldar við þessu skráða verði innanlands. Verðlagsnefndin hafi vald til að takmarka framleiðslu einstakra vörutegunda, ef söluerfiðleikar gera það nauðsynlegt. — 2. Öll verzlun með erlendan gjaldeyri sé í höndum einnar stofnunar, t. d. Landsbankans, sem kaupi allan þann erlenda gjaldeyri, sem fæst fyrir íslenzka framleiðslu erlendis, og skal kaupverð gjaldeyrisins miðast við skráningarverð hinna útfluttu vara hér innanlands, svo að framleiðendur fái jafnhátt verð, í íslenzkum peningum, fyrir þann hluta framleiðslunnar, sem seldur er erlendis, og það, sem selt er innanlands. Bankinn ákveði síðan söluverð erlends gjaldeyris á hverjum tíma, eftir því, hve mikið hefir orðið að greiða fyrir hann í íslenzkum peningum“.

Eru þessar till. í fullu samræmi við það, sem Bændafl. hefir barizt fyrir, — að framleiðendur fengju greitt framleiðsluverð, og um rétta skráningu ísl. peninga. Má ætla, að ráðh. sé ennþá sama sinnis um þessi mál. — Þar sem hæstv. ráðh. hefir atvinnumálin með höndum, vil ég vænta þess, með tilvísun til áðurgreindra till., að hann hafi á þeim meiri skilning og liti þau með meiri velvilja en fyrirrennari hans.

Hæstv. forsrh. lýsti yfir, þá er hann tilkynnti um hið nýja ráðuneyti, að stj. myndi fylgja hinni sömu stefnu og hún hefir fylgt undanfarið, og mun það eiga að byggjast á því, að sömu flokkar standi að stj. og áður, þrátt fyrir breyt. á ráðuneytinu. Er slík tilkynning um stjórnarstefnu þjóðinni litill gleðiboðskapur.

Fylgi nú hæstv. stj. fyrri stefnu sinni, hvað er þá framundan? Það má fullyrða, að allt muni síga meir og meir á ógæfuhliðina, svo sem verið hefir. Framundan yrðu ríkisgjaldþrot. Á þinginu 1936 sagði hæstv. fjmrh., þegar hann lagði fram fjárlfrv. fyrir 1937: „Núv. ríkisstj. telur það sitt hlutverk að stöðva skuldasöfnun við útlönd“. Hversu hefir nú farið um þetta ágæta hlutverk ríkisstj.? Í árslok 1933 eru skuldir þjóðarinnar við útlönd 74,6millj. kr. Á árinu 1931 tók ríkisstj. við af fyrra ráðuneyti, og ber því að nokkru ábyrgð á því ári. Í árslok 1936 voru skuldir orðnar 104,3 millj., eða höfðu vaxið sem næst um 30 millj. á þremur árum. Skuldir þjóðarinnar eru nú aldrei undir 110 millj. króna. — Þetta eru illar efndir á góðum ásetningi og vafalaust góðum vilja. En það sýnir aðeins, að hæstv. ríkisstj. hefir eigi verið vaxin þeim starfa, er hún tók að sér. Enda er hæstv. fjmrh. þetta vel ljóst, ef dæma mætti af því, að hann verður æ daprari með ræðu hverri, er hann flytur í þinginu um fjármálin og gjaldeyrismálin.

Í sömu fjármálaræðu og ég áðan gat um segir hæstv. ráðh. einnig: „Fullum greiðslujöfnuði hefir þó ekki verið náð á árinu. Til þess að slíkt takist, þarf verzlunarjöfnuðurinn sennilega að vera hagstæður um nálægt 6 millj. kr.“. M. ö. o., hinar svokölluðu duldu greiðslur eru að áliti ráðh. 1936 um 6 millj. Mönnum til skýringar skal þess getið, að þegar talað er um hinar „duldu greiðslur“, er átt við vexti og afborganir af erlendum skuldum, ferðapeninga Íslendinga erlendis og kostnað námsmanna, sem þar eru. Ennfremur andvirði þeirra vara, er keyptar eru inn í landið og hvergi koma fram í skýrslum, hvort þær eru innfluttar leyfilega eða óleyfilega o. fl.

Nú hefir verzlunarjöfnuður okkar verið hagstæður um 6–7 millj. 2 síðastl. ár. Samkv. fyrri upplýsingum hæstv. ráðh. hefði því átt að vera hægt að halda uppi fullum greiðslujöfnuði. Skuldir hefðu ekki átt að vaxa.

Fyrir fáum dögum sagði hæstv. ráðh. í ræðu um gjaldeyrismál í Nd. Alþ., að verzlunarjöfnuðurinn yrði að vera hagstæður um 10 millj., ef halda ætti í horfinn. Ég geri ráð fyrir, að með orðunum „að halda í horfinu“ hafi hæstv. ráðh. átt við það, að ná fullum greiðslujöfnuði. Þessar tölur reka sig hvor á aðra. Hið sanna er, að duldu greiðslurnar hafa verið langt yfir 6 millj. 1936. Þær eru einnig yfir 10 millj. nú. Hæstv. ráðh. er það vel ljóst, að þetta er svo. En, hann vill fela það fyrir alþjóð, hversu erfitt ástandið er. Allar líkur benda til þess, að hinar duldu greiðslur séu nú eigi undir 15 –16 millj., og mun síðar koma í ljós, að svo sé. Verzlunarjöfnuðurinn þarf því að vera hagstæður um minnst 15 millj., svo að fullur greiðslujöfnuður náist.

Ástand gjaldeyrismálanna, eins og fjármálanna, er hið hörmulegasta. Allir, sem við viðskipti og verzlun fást, eru kunnugir vandræðunum eins og þau eru og hafa verið. Og þó segir hæstv. fjmrh., að enn eigi eftir að aukast gjaldeyrisvandræðin. Smáupphæðir fást ekki yfirfærðar, og íslenzkt námsfólk erlendis verður að lifa á bónbjörgum, sökum gjaldeyrisvandræða. Óyfirfærðar eru hjá bönkum landsins a. m. k. 5–6 millj. kr., er veitt hefir verið innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir. Vegna vanskila tapa ríkisstofnanir og einstaklingar viðskiptasamböndum. Útlendir „kreditorar“ hafa jafnvel við orð að ganga að ríkinu til greiðslu á skuldum. Er það glöggt tákn um ástandið.

Annars er það í sjálfu sér óverjandi af gjaldeyris- og innflutningsnefnd að veita leyfi án tryggingar fyrir yfirfærslu. Slíkt er aðeins til að stimpla þá, sem leyfin fá, sem vanskilamenn, og bankana um leið, og auglýsing um vandræði þjóðarinnar. Atvinnuvegirnir eru í meiri eða minni rústum. Flest stærri atvinnufyrirtæki, svo sem togararfélög, eru í raun og veru eign bankanna, þar sem þau eiga ekki fyrir skuldum. Svo er einnig ástatt um ýmsa smærri atvinnurekendur. Erfitt var þegar ríkisstj. tók við 1934, en erfiðara er það nú.

Á hvern hátt hefir nú hæstv. ríkisstj. viljað efla atvinnuvegina? Hún hefir talið sig bezt gera það með því að taka sér í munn hróp kommúnista, að auka sem mest kaupgetuna við sjóinn og í kaupstöðum landsins. Þetta hefir fyrst og fremst átt að bjarga bændum, þar sem aukin kaupgeta gerði það að verkum, að þá keypti fólkið afurðir bænda. Þetta er gott að vissu marki. En takmörk eru fyrir því, hvað ganga má langt í slíku. Það er eigi nema gott að auka kaupgetuna, svo lengi sem framleiðslan þolir aukninguna. En þegar hún er orðin fölsk, hærra kaup greitt en framleiðslan getur undir risið, þá er gengið inn á mjög hættulega braut, er liggur til ófarnaðar fyrir land og þjóð. Því miður hefir þetta orðið svo hjá okkur. Framleiðendur hafa hin síðari ár orðið að greiða hærra kaup en framleiðslan hefir borið. Framleiðslan hefir tapað ár frá ári. Því er nú komið sem komið er. Hin aukna kaupgeta í bæjum hefir freistað fólksins. Það hefir flúið framleiðsluna og sveitirnar. Allir vilja nú gerast launþegar og verkamenn, taka kaup sitt hjá öðrum. Þannig er straumurinn enn þann dag í dag. Svo hefir verið misboðið atvinnuvegunum, framleiðslunni, þessu fjöreggi þjóðarinnar, með sívaxandi kröfum hins opinbera og einstaklinga, að eigi er annað sýnilegt en að fjöreggið falli í mola, hafi það eigi þegar gert það.

Framleiðslan þarf að bera allt uppi, allar byrðar þjóðfélagsins. Hún fæðir alla og klæðir. Á henni hvíla allir skattar og tollar, beint eða óbeint. Falli framleiðslan í rústir, fellur þjóðfélagið það einnig.

Kommúnistar munu vera hinn eini stjórnmálaflokkur í þessu landi, er fagnar því erfiða ástandi, sem er með þjóðinni. Tilvera þeirra sem stjórnmálaflokks byggist á því. Þar sem atvinnulíf stendur með blóma, ekkert er atvinnuleysi og yfirleitt sæmileg afkoma, þar dafnar ekki kommúnismi. Þar á hann engan tilverurétt. Vöxtur kommúnismans hér á landi sýnir betur en nokkuð annað hrörnun atvinnulífsins og framkvæmda í landinu. Hið eina, er fulltrúar kommúnista á Alþ. hafa fundið að fyrrv. ríkisstj., er það, að þeir sigldu eigi þjóðarskútunni nógu ört til vinstri. Hinni „rauðu sveit“, Framsfl., sósíalistunum og kommúnistunum, er að þeirra dómi einni trúandi til að fara með stjórnina. Þeir myndu nógu fljótir að sigla skútunni í kaf. Og þegar hún kemur upp aftur, ætluðu kommúnistar að taka við stjórn. Og það, sem þá fyrst liggur fyrir að gera, að þeirra dómi, er að taka bankana og fjármagnið í landinn í þágu kommúnismans, þjóðnýta togarana, að ríkið geri upptækar allar eignir og sjóði samvinnufélaga. samkv. rússneskri fyrirmynd, og að taka félögin í þjónustu kommúnismans. Lækka mjólkurverðið og þar með kaup bænda. en það hefir verið mesta áhugamál fulltrúa kommúnista á yfirstandandi þingi. Þetta er m. a. leiðin til þess að koma hér upp sæluríki, að fyrirmynd friðar- og mannvinarins Stalíns.

Ég vildi mega vona það, að þjóðin sé eigi svo heillum horfin, að hún láti blekkjast af skránni, að þjóðstjórn ábyrgra stjónmálaflokka Rauða sveitin í Framsfl. er mönnum þessum andlega náskyld. En það traust ber ég til kjósenda í þessu landi, — og þá fyrst og fremst til kjósenda í sveitum landsins —, að þeir láti eigi lengur blekkjast af meðlimum hinnar rauðu sveitar, heldur hrindi þeim af sér við næstu kosningar. Það er skylda hvers kjósanda, sem vinna vill að heill og hamingju þessa lands.

Af þeim dæmum, er ég hefi hér nefnt af fjármálum, gjaldeyrismálum og atvinnumálum þjóðarinnar, er það ljóst, að hér er nauðsyn sameiginlegra átaka til viðreisnar þjóðinni. því höfum við bændaflokksmenn lagt til í dagskránni, að þjóðstjórn ábyrgra stjórnmálaflokka sé mynduð. Með nágrannaþjóðum vorum og fleiri þjóðum er það stjórnarfyrirkomulag mjög á dagskrá, vegna erfiðleika og ófriðarhættu. Þar byggist þessi hugmynd, sem og einnig hér, á því, að á þann hátt megi sameina sem flest landsins börn til átaka. Og enda þótt fulltrúa þjóðarinnar á Alþ. og aðra einstaklinga hennar greini á um margt, þá trúi ég eigi öðru en allir séu sammála um það, að þjóðinni verði að bjarga frá fjárhagshruni og öllum þeim afleiðingum, er það hefir í för með sér.

Þegar hættu eða háska ber að höndum, leggjast allir á eitt, án tillits til ágreiningsmála, vináttu eða óvináttu. Þá gera allir sameiginleg átök til bjargar. Ég tel, að okkar þjóð sé háski búinn. Tökum því höndum saman til viðreisnar og bjargar landi og þjóð.