05.04.1938
Sameinað þing: 16. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í D-deild Alþingistíðinda. (2871)

91. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Finnur Jónsson:

Það, sem einkum hefir einkennt umr. um vantrauststill., er hinn dæmalausi góðvilji allra flokka í því að styðja ríkisstj. Sjálfstfl. bauð henni stuðning sinn, Bændafl. bauð henni stuðning sinn og Kommfl. hrópaði, að vísu ekki á þjóðstjórn, en á þjóðfylkingu — sem raunar er hið sama — og óskar eftir, að í henni taki þátt Alþfl., Kommfl., Framsfl. og hinn frjálslyndi og lýðræðissinnaði hluti Sjálfstfl., sem kommúnistar svo kalla! Það lítur því út fyrir, að allir flokkar þingsins nema Alþfl. vilji stofna hér til stjórnar, sem saman standi af mönnum úr öllum flokkum!

Þegar þessi þjóðstjórnarhugmynd er orðin svo almenn hjá öllum flokkum, hvort sem þeir telja sig hægri flokka eða vinstri flokka, þá er vert að atbuga, hvort líklegt sé, að framkvæmd hennar gæti orðið þjóðinni til blessunar, og þá verður að athuga um leið, hvers vegna menn eru ekki sammála, og hvað það er, sem skiptir mönnum í stjórnmálaflokka. Það mun vera almennt viðurkennt, að það sé ólíkt viðhorf, ólíkar skoðanir á því, á hvern hátt bezt verði ráðið fram úr vandamálum þeim. sem skipta mönnum í flokka, og það sé grundvöllur allrar flokkaskiptingar.

Við deilum hér á Alþingi a. m. k. að jafnaði ekki um menn, heldur um málefni, og hingað til hefir það verið svo, að flokkarnir, sem hafa komið sér saman um afgreiðslu mála á Alþingi, hafa myndað stjórn. Aðrir flokkar, sem ekki hafa verið sömu skoðunar um það, hvernig haga skuli afgreiðslu höfuðmála, hafa verið í andstöðu við ríkisstjórn. Deilur á milli flokka á Alþingi hafa stafað, eins og ég hefi þegar sagt, af mismunandi skoðunum á þjóðmálum. Væri nú hægt að þurrka út þennan ágreining að öllu leyti? Er það hugsanlegt, að ágreiningur, sem hingað til hefir skipt mönnum í flokka, sé svo lítill, að hann mundi alveg þurrkast út með því að skipa menn úr öllum flokkum í ríkisstjórn?

Myndi það verða sterkari ríkisstjórn, sem þannig yrði? Myndi það ekki heldur fara þannig, að deilur, sem hér rísa oft hátt á Alþingi, yrðu beinlínis fluttar inn í ríkisstj., og hvað myndi vinnast við það?

Það er vert fyrir Framsfl. að athuga, hvað stuðningur þeirra flokka, sem nú eru að bjóða honum hjálp til stjórnarmyndunar, muni kosta.

Hvað á t. d. stuðningur Bændafl. og Sjálfstfl. að kosta?

Það vita raunar allir hv. þm., og raunar allir landsmenn, að stuðningur þessara tveggja flokka við framsóknarstjórn mundi kosta það, að Kveldúlfssvindlið fengi að halda áfram óhindrað. hað mundi kosta vopnaða ríkislögreglu til þess að bæla niður kröfur alþýðu um bætt kjör með ofbeldi. Og eftir því, sem form. Sjálfstfl. hefir talað hér á Alþingi. þá mundi sú stuðningur einnig kosta það, að útgerðarmenn fengju gjaldeyrinn og gætu selt hann hæstbjóðanda á opinberu uppboði í þessu gjaldeyrisfátæka landi. Undirokun alþýðunnar og aukin dýrtíð í landinu væru þær fórnir, sem Framsfl. yrði að færa Bændafl. og Sjálfstfl. fyrir að fá að njóta stuðnings þeirra til þess að mynda ríkisstjórn.

Hv. þm. G.-K. (ÓTh) sagði hér í umr. í gærkvöldi, að í Framsfl. geisaði stríð milli holds og anda. Sennilega meinar Ólafur Thors það, að það sé andi Framsfl. að vilja vinna með Alþfl. að umbótum alþýðunnar, en hold Framsfl. vilji í sæng með íhaldinu, og íhaldið vill vinna það til að taka á móti hinu andlausa holdi Framsfl., til þess að fá aðstöðu til þess að eiga þátt í stjórnarmyndun.

Hæstv. forsrh. minntist á þjóðstjórn hér í umr. í gærkvöldi og vitnaði þar til Staunings forsætisráðherra í Danmörku. Það er algerlega rangt að vitna til Staunings viðvíkjandi því, að hann telji þjóðstjórn heppilega. Stauning hefir aðspurður látið svo um mælt, að hann hafi hugsað um, hvort þjóðstjórn væri heppileg, en hann lét þess um leið getið, að hann hefði ekki trú á því, að hún gæti blessazt. Nú er það svo, að flokkar geta að vísu oft unnið saman í einstökum málum, ef ekki verða hagsmunaárekstrar á milli þeirra, eða mál þau, sem afgreiðslu fá, ekki koma í bága við stefnu flokksins að öðru leyti. Hinsvegar er sameining eða samstarf flokka, sem ekki berjast fyrir líkum málefnum og á svipuðum grundvelli, skaðleg og getur ekki leitt til neins annars en glundroða. Ég get nefnt hér dæmi um samvinnu flokka, sem á rétt á sér, samninga þá, sem gerðir voru 1934 um stjórnarsamvinnu milli Alþfl. og Framsfl. Ég get einnig nefnt hér sem dæmi um samvinnu flokka, sem á rétt á sér. samninga, sem gerðir hafa verið milli Alþfl. og Kommfl. um ýmsar framkvæmdir í bæjarmálum úti á landi. Þessi síðari samvinna er þó til orðin á þann hátt, að kommúnistar hafa að öllu leyti gengið inn á stefnu Alþfl. um framkvæmd bæjarmála, þar sem slíkir samningar hafa verið gerðir, en fallið frá sínum fyrri kröfum og stefnum.

Hinsvegar hefir einnig verið leitað samvinnu við Kommfl. um stefnumál í landsmálabaráttunni yfirleitt, en þar hefir Kommfl. ekki fallið frá sinni stefnu, heldur reynt að ríghalda í það að færa hinn sameiginlega flokk verkalýðsins yfir á byltingargrundvöll Kommfl. og gert það að skilyrði fyrir sameiningunni, að flokkarnir skuldbindi sig til að verja allt, sem fram fer austur í Moskva. Sameiningartilraunir kommúnista hafa ekki verið alvarlegri en það, að þeir hafa heimtað, að hver íslenzkur alþýðumaður tryði því, að jafnaðarstefnan væri komin í framkvæmd í Rússlandi, og játaði þessa trú opinberlega. Ennfremur hafa þeir heimtað, að hver einasti alþýðumaður á Íslandi tryði því, að blóðbaðið, sem framkvæmt hefir verið í Rússlandi á öllum helztu foringjum verkalýðsbyltingarinnar í Rússlandi, þar sem þeir hafa verið stimplaðir sem landráðamenn, njósnarar, svikarar og morðingjar, það væri framkvæmd réttlætisins.

Til marks um hina ákveðnu byltingarstefnu Kommfl. má geta þess, að þeir vildu ekki láta standa í stefnuskrá sameinaðs flokks, að hann vildi ná völdum á lýðræðislegan hátt.

Á meðan kommúnistar halda fram slíkum öfgum er gersamlega óhugsandi að sameina alþýðuna á Íslandi í einn flokk. Eins og ég hefi þegar sagt, hafa tekizt samningar við Kommfl. um framkvæmd ýmsra bæjarmála víðsvegar á landinu í anda og stefnuskrá Alþfl. Þetta er í rauninni viðurkenning fyrir því af hálfu Kommfl., að það sé stefna Alþfl., sem er hin rétta fyrir verkalýðinn í baráttu hans hér á landi, en ekki stefna Kommfl.

Hv. 5. þm. Reykv. (EOI talaði í gærkveldi um það, að alþýðusamtökin hefðu með krafti knúið fram stórfelldar kjarabætur fyrir verkalýðinn. Þessar stórfelldu kjarabætur hafa allar unnizt fyrir starf og stefnu Alþfl., en kommúnistar hafa þar engu komið fram. Alþýða manna úti um allt land þekkir bardagaaðferð Kommfl. Hún þekkir bardagaaðferð Alþfl. og veit, að hún er sú rétta. Allt, sem unnizt hefir í frelsisbaráttu alþýðunnar, hefir unnizt undir merkjum Alþfl.

Það væri þess vegna beinlinis fjörráð við alþýðu manna í landinu, ef Alþfl. færi að hverfa frá stefnu þeirri, sem hann hefir unnið eftir á undanförnum árum, og sameinast Kommfl. Það er ekki mögulegt fyrr en kommúnistar sjá og skilja það, að þeir verða að taka upp stefnu Alþfl. í landsmálum. eins og þeir hafa orðið að ganga inn á stefnu Alþfl. í bæjarmálum.

Kommúnistar eru að ýmsu leyti farnir að viðurkenna veikleika þeirrar stefnu, sem þeir hafa haldið fram undanfarið. Sést það m. a. á afstöðu þeirri, sem þeir hafa til vantraustsyfirlýsingar þeirrar, sem fyrir liggur frá Sjálfstfl. Afstaða þeirra til þeirrar tillögu er í hæsta máta einkennileg. Það er einskonar „haltu-mér-slepptu-mér“ afstaða.

Hv. 5. þm. Reykv. (EOl) sagði í umr. í gær. að þrátt fyrir vantraust kommúnista á núv. ríkisstj. og öllum ríkisstjórnum í auðvaldsþjóðfélagi, þá gætu þeir ekki greitt atkv. með fyrirliggjandi vantrauststillögu. Einar Olgeirsson færði rök bæði með og móti þessu, og þau rök verða svo til þess, að kommúnistar, sem þó virðast hata núv. ríkisstj. og fyrirlíta, vilja samt ekki sýna henni opinbert vantraust!!

Afstaða kommúnista til ríkisstj. er því bæði hlægileg og vesalmannleg, en hún er eðlileg afleiðing af því, að Kommfl. er skipað frá Moskva hvorttveggja í senn, að halda uppi öflugum áróðri gegn ríkisstj., en láta þó vera að greiða atkv. á móti henni. Það er þess vegna eðlilegt, að þeim gangi illa að halda jafnvægi á línunni.

Því hefir verið haldið fram af Sjálfstfl., Bændafl. og Kommfl., að núv. ríkisstj. væri of veik, vegna þess að engir kjósendur stæðu á bak við fulltrúa Alþfl. á Alþingi. Ég mótmæli þessu sem algerlega röngu, því að þótt klofningur hafi að vísu orðið nokkur í Alþfl., þá hefir hann ekki orðið svo mikill, að nokkurt orð sé á því gerandi, og þeir, sem hafa klofið sig út úr Alþfl., hv. 3. þm. Reykv. (HV) og lagsmenn hans, hafa ekki neitt það fylgi meðal kjósenda Alþfl. í landinu, að það réttlæti slík ummæli. Auk þess hafa þeir með breytni sinni sýnt, að, þeir hafa ekki átt heima í Alþfl. um nokkurt skeið.

Ég skal nefna nokkur dæmi þessu til sönnunar. Fylgi hv. 3. þm. Reykv. (HV) innan Alþfl. hefir staðið mjög völtum fótum, og má geta þess í þessu sambandi, að við kosningarnar 1937 lækkaði kjósendatala Alþfl. um 1000 manns hér í Reykjavík, á lista þar sem HV var efsti maður og réði aðferðum í kosningabaráttunni allri, frá kosningunum 1934, en á sama tíma óx kjósendatala Alþfl. utan Reykjavíkur um 1000 manns! Auk þess lækkaði hið sameiginlega fylgi Alþfl. og Kommfl. við bæjarstjórnarkosningarnar í Rvík frá „píslarkosningunum“ 1937 um 400 atkv.! Þar var HV einnig aðalmerkisberinn.

Enn má geta þess, að í því verkalýðsfélagi, Dagsbrún. þar sem HV hefir aðalfylgi sitt, fengust ekki nema 600 manns í 1800 manna félagi til að kjósa hann sem formann nú nýverið, og stóð þó stjórnarkosningin mörgum vikum lengur en lög mæla fyrir. Fylgi HV í Dagsbrún er ekki meira en það, að hann fékk samþ. till. um að reka Jón heitinn Baldvinsson úr félaginu með rúmlega 400 atkv., en það er nokkurn veginn sama tala og kommúnistinn Þorsteinn Pétursson fékk við stjórnarkosninguna í Dagsbrún. Alþýðuflokksmenn í Dagsbrún fylgja því ekki hv. 3. þm. Reykv. HV hefir séð þetta mjög greinilega sjálfur, því að hann hefir alls ekki treyst sér til og neitað því afgert að láta till. um brottvikningu Jóns Baldvinssonar ganga til allsherjar atkvgr. í félaginu. Ennfremur neitar hann því að láta till. um mótmæli gegn vinnulöggjafarfrv. ganga til allsherjar atkvgr., og meira að segja þorði hann ekki að bera upp till. um það efni í trúnaðarmannaráði Dagsbrúnar. af því að hann vissi sjálfur, að hann var þar í minni hluta.

Það má geta þess. að á jafnaðarmannafélagsfundi þeim, sem kaus Hv fyrir formann, hafði hann ekki nema 170 atkv. meiri hluta, en það voru kommúnistar og samfylkingarmenn, sem áður hafa kosið kommúnista, og hann hafði smalað inn í félagið á þeim sama fundi og þeir samþ. sjálfa sig í félagið.

Til frekari sönnunar um fylgisleysi HV hér í Reykjavík má geta þess, að hann bauð Sjómannafélaginu aðstoð sína og Dagsbrúnar til þess að stofna til alisherjar verkfalls út af gerðardómslögunum, en með því tilboði sínu fékk hann ekki nema 11 atkv. á fundi í Sjómannafélaginu, þar sem mættir voru nokkur hundruð manns.

HV hefir fengið samþykktir úr nokkrum félögum, bæði í Reykjavík og annarsstaðar, um að mótmæla brottrekstri hans úr Alþfl., en þessar samþykktir hafa allar verið gerðar á skyndifundum, sem hóað hefir verið saman eingöngu í þessu skyni og eru í rauninni markleysa ein.

Við alþýðuflokksmenn þekkjum þessar samþykktir frá 1930, þegar kommúnistar höfðu klofið sig út úr Alþfl. og þóttust eiga alla verkalýðshreyfinguna í landinu, — en sú barátta fór þannig, að verkalýðssamband kommúnista liðaðist sundur eftir örfá ár, en alþýðusamtökin uxu að sama skapi.

Sameiningarbarátta HV hefir snúizt upp í hatramma klofningsstarfsemi, og sú klofningsstarfsemi hefir lýst sér á þann hátt, sem frægt er orðið að endemum. Hún hefir lýst sér í því, að HV framdi það níðingsverk að láta reka Jón heitinn Baldvinsson úr Dagsbrún. Hún hefir lýst sér í því, að HV hefir byrjað blaðaútgáfu á móti Alþfl., hún hefir ljóst sér í því, að HV ætlaði að reyna að gera Alþfl. gjaldþrota með því að segja upp ábyrgðum fyrir ýms mikilsverð fyrirtæki haus, hún hefir lýst sér í því, að HV sagði Jafnaðarmannafél. Rvíkur úr Alþfl. með því að láta það kjósa sjálfan hann sem formann — eftir að hana var brottrekinn úr Alþfl., og nú á síðustu dögum hefir þessi klofningsstarfsemi komið mjög átakanlega í ljós, þar sem 2 af síðustu stuðningsmönnum HV, meðlimir útvarpsráðs, þeir Sigfús Sigurhjartarson og Pétur G. Guðmundsson, felldu með atkvæðum sínum tillögu framsóknarmanna í útvarpsráði um það, að leyfa Alþfl. að halda minningarathöfn um Jón heitinn Baldvinsson í útvarpinu daginn, sem hann var jarðsettur, þrátt fyrir það, þó að fjöldi manna úti um land allt óskaði eftir, að það væri gert. Það þarf meira en dirfsku af hálfu hv. 3. þm. Reykv. til að koma hér fram og tala sem alþýðuflokksmaður, rétt eftir að stuðningsmenn hans á hans ábyrgð hafa á þennan hátt svívirt minningu Jóns Baldvinssonar, að honum látnum.

Ef til vill mætti segja, að HV hefði verið það nokkur vorkunn, þó að hann hefði farið að gefa út blað á móti Alþfl., en þar við er að athuga, að blað HV skrifar af meiri fjandskap um Alþfl. en flest önnur blöð. Það er langur vegur frá, að blað þetta skrifi eins og þeir sáttfúsu, sem vilja halda Alþfl. saman; þvert á móti gerir það allt til þess að ófrægja alþýðuflokksmenn og koma í veg fyrir, að Alþfl. geti sameinazt aftur. Blaðið lýsir alþýðuflokksmönnum ekki sem mönnum með viti, heldur sem fáráðlingum, Kleppssjúklingum og þess háttar. Skal því til sönnunar lesinn hér upp lítill kafli úr blaði HV, „Nýju landi“, 9. tölubl., 25. marz 1938:

„En hvað sem því líður, þá held ég, að landlæknir ætti að sjá sóma sinn í því, að láta t. d. alla Kleppssjúklinga, sem sumir hafa aldrei öðlazt neinn skilning. en aðrir tapað honum, ganga í Alþýðuflokksfélagið.

Sé ég ekki annað en að það sé öllum yfirvöldum sjálfsagt og skylt að senda alla fáfróða — skilningstrega og brjálaða í Alþýðuflokksfélagið. Þar eiga þeir að vera“.

Um 700 manns hafa nú af sjálfsdáðum gengið í félagið. Þeir eru nú orðnir 900 og traustasta lið Alþfl. frá fyrstu tíð. Hefir mig ekkert undrað það aðstreymi, þar eð ég veit, að íhaldið og heimskan eru í meiri hluta meðal þjóðarinnar, en skil þetta nú enn betur, enda veit ég það, að hér á landi eru fleiri fáráðlingar en 700.

Eftir slík ummæli um Alþfl. leyfir hv. 3. þm. Reykv. sér samt sem áður að tala ennþá um, að hann sé í Alþfl.

Það er ekki nema eðlilegt, að óhug hafi slegið á marga við það, að Alþfl. klofnaði á, að því er virtist, örlagaþrungnum tímum, en þó er síður en svo, að þessi. klofningur þurfi að vera flokknum til neins skaða.

Þvert á móti mun reynslan sýna, að Alþfl. verður meira einhuga, verður ákveðnari í sinni baráttu og, herðir baráttuna meira einmitt nú, þegar mest á liggur.

Kjarninn úr Alþfl. mun verja öllum sínum kröftum til þess, að flokkurinn verði sterkari eftir þessa hreinsun heldur en hann hefir verið nokkurn tíma áður.

Fulltrúi Bændafl. lét þá ósk í ljós áðan, að hann vonaði, að HV bæri sigur af hólmi í baráttunni við Alþfl. Bændafl. hefir jafnan verið fjandsamlegastur allra flokka í garð fólksins við sjóinn. Bændafl. var einn sinni álitlegur klofningur út úr Framsfl., og hugði Sjálfstfl. gott til samvinnu við hann. Nú er Bændafl. orðin óþarfur, ógeðslegur og fyrirlitinn botnlangi hjá Sjálfstfl. Sömu örlög bíða hv. 3. þm. Reykv. Hann verður innan skamms óþarfur botnlangi hjá Kommfl.

Einhver minntist hér á baráttuaðferð Jóns Baldvinssonar í umr. í gær. Sú baráttuaðferð mun halda áfram að verða leiðarstjarna Alþfl. og undir henni mun hann sigra, hvað sem líður klofningsstarfsemi hv. 3. þm. Reykv. (HV).