05.04.1938
Sameinað þing: 16. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í D-deild Alþingistíðinda. (2881)

91. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Einar Olgeirsson1):

Það getur nú ekki verið alveg rétt, sem andstæðingar okkar hafa haldið fram, að við kommúnistar séum alveg þýðingarlausir, ef dæma skal eftir því, hve miklu púðri þeir eyða á okkur. Hv. þm. S.-Þ. (JJ) stóð allreiður upp og hélt eina af sínum æsingaræðum yfir því, að launráð hans sjálfs skyldu ekki heppnast, að hann skyldi ekki komast í ráðherrastólinn við hliðina á Ólafi Thors, og ekki heldur fá að verða ráðh. í framsóknarráðuneytinu, þegar ráðh. Alþfl. var dreginn til baka. Í Landsbankanum mun hann finna sinn eina örugga stað. Hann er einn af þeim þm., sem landsbankavaldið ræður algerlega yfir, og má þar minna á l. um síldarverksmiðjur ríkisins, sem samþ. voru í fyrra. Þessi þm., sem ekki kann einföldustu þingmannasiði, þótt hann hafi setið á þingi í ein 20 ár, reynir nú að berjast móti þeim hugsjónum, sem hann áður varð frægur fyrir að fylgja. Hv. þm. S.-Þ. kom með sinn gamla róg um síldareinkasöluna og mig. En það, sem hann þar sagði, er ekki rétt. Þegar ég fór frá síldareinkasölunni eftir 3 ára starf, var hún vel stæð, en mennirnir, sem hann setti yfir hana, settu hana á hausinn á hálfu ári. Ég veit, hvers vegna ég var rekinn; það var af því, að ég vildi ekki beygja mig, og þó bauð Jónas Jónsson mér góð boð. Hann bauð mér skólastjórastöðuna við gagnfræðaskóla Akureyrar, auk forstjórastöðu við síldareinkasöluna, en þar brást honum bogalistin. Framgangur fyrirætlana hans strandaði á afstöðu okkar kommúnista.

Hann talaði um, að Landsbankinn hafi orðið fyrir óréttmætum árásum í sambandi við óreiðuna þar. En það er sama sem að segja, að ekki hefði mátt tala illa um Íslandsbanka á þeim árum, þegar hann tapaði 18 millj., eða um Landsbankann á þeim árum, þegar hann tapaði um 16 millj. kr. af þjóðarfé. Ríkið hefir alltaf verið látið hlaupa undir bagga með honum til að bjarga honum frá gjaldþroti. Hvað var það, sem Jónas frá Hriflu skrifaði um undir fyrirsögninni: „Hverju leyna Jensenssynir þjóðina?“. Nú vill hann mynda samkomulag til að leyna þjóðina svindlinu í Landsbankanum. Hann þykist vera pólitískt heiðarlegur og vilja vernda Landsbankann, meðan hann er að leiða yfir hann sömu vandræðin og með Íslandsbanka. Jónas heldur, að hann geti ráðið yfir Framsfl., en það getur hann ekki, því að framsóknarmenn hafa gert kosningabandalag við kommúnista víða á landinu. Atkvæðatala hv. þm. S.-Þ. (JJ) fer minnkandi í hans eigin kjördæmi við hverjar kosningar, og hér á þingi er talið, að honum fylgi 21/2 þm. úr Framsfl.

Þá ætla ég að víkja að ræðu hv. þm. Ísaf. (FJ). Hann talaði um samfylkingu Alþfl. og Kommfl. Við kommúnistar höfum alltaf reynt að hafa samfylkingu við Alþfl., og er þar skemmst að minnast síðustu bæjarstjórnarkosninga hér í Reykjavík. En þá var rýtingnum lagt í bakið á okkur, þegar við ráðgerðum sameiningu þessara flokka og áttum að sækja gegn hinum sterka sameiginlega óvini, íhaldinu.

Þá talaði hann um það, að við hefðum látið sameininguna stranda á því, að við vildum ekki samþykkja, að flokkurinn skyldi reyna að ná völdum á þingræðislegan hátt. En þetta er rangt. Kaflinn um þetta hljóðar svo: „Vill flokkurinn vinna að þessu með þátttöku í kosningum til Alþ., sveitar- og bæjarstjórna og með löggjafar- og stjórnarstarfsemi á þingræðisgrundvelli, með stétta- og viðskiptasamtökum sínum og fjöldaáhrifum, með útbreiðslu- og fræðslustarfsemi meðal hinna vinnandi stétta. Í þessu endurbótastarfi hefir flokkurinn jafnan fyrir augum og undirbyggir takmark sitt, valdatöku alþýðunnar, til að geta breytt þjóðskipulaginn í samræmi við stefnu sína og byggt upp sósíalismann, sem felur í sér hið fullkomnasta lýðræði í öllum þjóðmálum“. Þetta var fellt af meiri hluta fulltrúa hins íslenzka Alþfl. Hinsvegar er afstaða norska verkamannaflokksins. Hann lætur standa í stefnuskránni, að hann sé reiðubúinn með öllum meðulum að ná völdum fyrir verkalýðinn. En þm. Alþfl. töldu ómögulegt að ganga að þessu, því að þeir héldu, að Framsfl. myndi ekki leyfa þeim að orða þetta svona, og slita allri samvinnu við þá, ef þetta yrði samþ. En verkalýðurinn myndi hafa farið sínu fram, hvað sem slíku líður. Norski verkarnannaflokkurinn er í stjórnarsamvinnu við norska bændaflokkinn, og Framsfl. myndi eiga bágt með að neita samkomulagi við flokk, sem ekki hefir róttækari stefnuskrá en norski verkamannaflokkurinn.

Þá vil ég minnast á rangfærslur hv. þm. Ísaf. (FJ) um Rússland. Hann segir, að við kommúnistar viljum enga sameiningu við Alþfl., nema því aðeins, að hann vilji skilyrðislaust hrósa öllu, sem gerist í Rússlandi, og verja allt, sem rússneskt er, jafnt fyrir réttmætri sem óréttmætri gagnrýni. En þetta er ekki rétt. Norski verkalýðsflokkurinn vill styðja hina vísindalegu uppbyggingu sósíalismans, sem þar fer fram, og veita hlutlausa fræðslu um Rússland.

Þetta er allt annað en það, sem hv. þm. Ísaf. ( FJ) heldur fram, að við kommúnistar heimtum. að allt sé varið, sem gerist austur í Rússlandi, og þar á meðal allt „spionage-systemið“, sem Alþýðublaðið er að reyna að verja, en það er allt annað en að verja uppbyggingu sósíalismans. Þá halda þm. Alþfl. því fram, að við kommúnistar vildum fara að koma á þjóðstjórn hér á Íslandi. Þetta er hinn háskalegasti hugtakaruglingur. Þjóðstjórn er stjórn hægri flokkanna, sem beinist gegn verkalýðnum, en þjóðfylkingarstjórn er stjórn vinstri flokkanna, sem vilja reyna að berjast sameinaðir gegn fasismanum. Þessi þjóðfylkingarstjórn vill leita samvinnu við hina borgaralegu lýðræðisflokka, eins langt til hægri og unnt er. Íslenzka þjóðin vill, að samfylking Kommfl. og Alþfl. komist á. Við treystum því, að hún muni komast á og sigra hér á Íslandi á næstunni.

1) Í þessa ræðu vantar það mikið, að hún er óleiðréttanleg. — EOI.