05.04.1938
Sameinað þing: 16. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (2882)

91. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Flm. (Ólafur Thors):

Síðasta ræða hv. þm. Seyðf. (HG) gefur lítið tilefni til andsvara, enda sýnist allmjög af honum dregið.

Út af hernaðarhjali hans minni ég hann á, að hinir spöku Rómverjar sögðu: „Ef þú vilt efla friðinn, þá vertu viðbúinn ófriði“. Það er þessi sami boðskapur, sem ég hefi flutt við þessar umr.

Annars liggur við, að ég kveinki mér við að auka raunir þessa hv. þm. Allir hlustendur skilja, hverju fram fer. Hæstv. forsrh. er að biðla til mín. Ég tek því vel og læt líklega, en hv. þm. Seyðf. situr eins og vonsvikin ástmey og grætur hinum beisku tárum afbrýðiseminnar. Og svo illa ber hann harm sinn, að forsrh. hefir runnið til rifja og er nú í síðustu ræðunni farinn að rifja upp forna vináttu og mæla blíðlega til hv. þm. Seyðf.

Ræða hæstv. fjmrh. lá nokkuð utan við efnið. Ég sagði ekki, að stjórnin hefði skapað gjaldeyrisvandræði, hallarekstur og opnað atvinnuleysinu dyr, — mætti þó að vísu sýna, að stjórnin á sinn þátt í því —, heldur sagði ég, að undir þessari stjórnarforystu hefði þjóðin lent í þessum erfiðleikum. Hinsvegar sagði ég, að stj. hefði aukið útgjöld ríkisins, þyngt skatta, hert fjötra og aukið einræði. Ekkert af þessu reyndi ráðh. að hrekja, enda er það ekki hægt.

Út af ummælum ráðh. um aflabrest og markaðsmissi er það að segja, að að sönnu er brestandi þorskafli mikið áfall, en þó lán, úr því markaður misstist. En auk þess hefir aukið andvirði síldar og síldarafurða meir en jafnað þann halla. — Að öðru leyti fjallaði þessi ræða ráðh. einmitt um venjulegt yrkisefni á eldhúsdegi, og er því rétt, að sú deila bíði þess, að þær umræður fari fram.

Örfáum orðum vil ég beina til hæstv. forsrh. Hann segir, að það sé ekki aðalatriði um styrk ríkisstjórnar, að mikill fjöldi þingmanna standi að henni. Þingmenn muni lítt liðtækir til stórræða. Þetta er utan við kjarna málsins, en hann er sá, að á því veltur, að ríkisstjórnin haldi þinglegum styrk, þótt hún geri skyldu sína, jafnt í kaupgjaldsmálum sem öðrum.

Annars hlýtur það að vekja athygli, hve forsrh. leikur tveim skjöldum, er hann í senn lætur í veðri vaka, að hann mundi alltaf allt byggja á traustinu á löghlýðni borgaranna, en lætur þó skína í, að það sé svo sem hægt að draga saman lið og berja sitt fram, ef þess þurfi með.

Ráðh. var, svo sem til að sanna, hve fjarri sanni liðsamdráttur væri, að bregða upp mynd af því, hvað af hefði hlotizt, ef slíkt hefði verið gert í benzínverkfallinu svokallaða. Það spaugilega er bara það, að þessi sami ráðh. gerði tilraun til að ná saman liði einmitt í þessu verkfalli, — tilraun, sem mistókst af því, að bílstjórar höfðu samúð þeirra, sem til var leitað.

Ég mun ekki fremur en ég er vanur láta mig miklu skipta vaðal kommúnista. Ræða hv. 5. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar, var þessi sama ræða, sem kommúnistar eða Kommfl. Íslands, eða bróðir þessa eða bróðir hins, alltaf og alstaðar undir öllum kringumstæðum flytur. Það er bankavaldið og Kveldúlfur og hringavaldið og lýðræðisástin frá Moskva og háa kaupið, þ. e. a. s. háa kaup allra þeirra, sem hér fást við eða fengizt hafa við stjórn einhverra fyrirtækja, að undanteknum þeim 15000 kr., er Einar Olgeirsson tók á ári meðan hann stjórnaði síldareinkasölunni, sem honum, eins og kunnugt er, fórst svo hönduglega, að hún eftir stuttan starfstíma fór svo eftirminnilega á hausinn, að jafnvel þó útgerðarmenn hefðu lánað skip sín endurgjaldlaust í 2 ár og sjómenn hefðu gefið alla sína vinnu í 2 ár, þá nægði það samt ekki til að frelsa þetta óskabarn, sem borgaði Einari Olgeirssyni 15000 kr. á ári, frá afleiðingum óstjórnar hans, þ. e. a. s. gjaldþrotinu.

Þetta var nú í þá daga, þegar Einar Olgeirsson kunni að meta peningana, en annars er engin ástæða til að vera að illskast við þessa smábátaútgerð Stalins hér á Íslandi. Heima fyrir er hann búinn að leggja stóru skipunum upp, þ. e. a. s., hann er eins og kunnugt er búinn að láta drepa alla eða nær alla þá helztu dýrlinga, sem Einar Olgeirsson og hans nótar hafa í blöðum sínum skriðið á fjórum fótum fyrir í mörg ár. Það getur þá og þegar komið fyrir, að Stalin hætti að senda peninga til útgerðarinnar hérna heima, og þá verða þessir piltar, eins og Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason, sjálfsagt skikkanlegir salon-sósíalistar, eins og Haraldur Guðmundsson og Stefán Jóhann.

Ég skal játa það, að framan af ræðu Einars Olgeirssonar var mér dálítið um og ó. Ég var farinn að óttast, að hann ætlaði að reyna að klína á Sjálfstfl. einhverri smán með því að vera okkur sammála og greiða atkvæði með vantraustinu okkar, en svo er nú fyrir þakkandi, að hann bjargaði því öllu við. Hann lýsti því yfir, að hann væri á móti ríkisstj. og vantreysti henni og þess vegna myndi hann greiða atkv. á móti vantraustinu. Þetta er nú að vísu venjuleg kommúnistísk rökfræði, en að þessu sinni erum við ánægðir með hana.

Ég get ekki neitað því, að framkoma Bændafl. í þessu máli kom mér dálítið á óvart. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að gera tillögu hans um stjórn allra flokka að umræðuefni. Hv. þm. Dal. (ÞBr) ræðir sjálfsagt nánar um það við kjósendur sína í Dölum áður en hann tekur fullnaðarákvörðun um að setjast sjálfur í þá stjórn, t. d. milli Einars Olgeirssonar og Haralds Guðmundssonar, en að því er sjálf rökin snertir, um nauðsyn þessarar hinnar rökstuddu dagskrár Bændafl., þá verð ég að viðurkenna, að ég skil þau ekki alveg til fulls. Hv. þm. virðist bera fram þessa till. sína — en hún hnígur sem kunnugt er að því, að núverandi ríkisstjórn sé of veik, að nauðsynlegt sé, að ríkisstjórn sé miklu sterkari, að þess vegna hefði átt að mynda þjóðstjórn, en úr því það var ekki gert, þá sé ekki rétt að samþ. vantraust á þessa stjórn, því að það sé vitað, að hún hafi meiri hluta þingsins að baki sér, heldur sé bezt að skora á stj. að taka til athugunar, hvort hún teldi ekki nauðsynlegt að styrkja sig, — vegna þess, að hann teldi tilgangslaust að bera fram vantraust á stjórn, sem hefði yfirlýstan styrk þingmeirihluta að baki sér. En mig langar nú að spyrja hann, hvort hann teldi þá þinglegra að krefjast þess af þessari sömu stjórn, að hún beiti sér fyrir því að koma sjálfri sér frá völdum með myndun þjóðstjórnar, eins og hann sjálfur leggur til. Mér sýnist þetta vera nokkuð líkt hvað öðru, og þætti gaman að fá nánari skýringar, að öðru leyti en því, að Bændafl. vill sýnilega hliðra sér hjá að lýsa vantrausti á stjórnina, og má þá segja, að batnandi manni sé bezt að lifa. Virtist mér þetta ástæðulausa hik stafa af því, að Bændafl. teldi, að ekki væri hægt að lýsa vantrausti á hæstv. atvmrh., Skúla Guðmundsson. Má að vísu vel játa, að Bændafl. hefir sízt ástæðu til að gera lítið úr þeim manni, en þó varla heldur svo mikið, að hann geti bætt þjóðinni upp hækkandi skatta, vaxandi atvinnuleysi og auknar frelsisskerðingar. Leyfi ég mér í því sambandi að minna hv. þm. Dal. á það, að forsrh. lýsti yfir, að stefna stj. yrði óbreytt, og þykir mér það oflof um Skúla Guðmundsson, að þm. Dal. telji nú, að allri sinni fyrri andstöðu á þessari stjórnarstefnu sé lokið, eingöngu ef Skúli er atvmrh., þótt stefnan sé óbreytt.

En höfuðrök Bændafl. fyrir þessari fremur hjákátlegu dagskrártillögu voru þau að vantraustið væri neikvætt, en dagskrártill. væri jákvæð. En þetta er náttúrlega alger hugsunarvilla. Verði vantraustið samþ., þá er hin veika stjórn fallin, og þá munu þeir, sem samþ. vantraustið, vegna þess hve stjórnin er veik, auðvitað tryggja það, að mynduð verði sterk stjórn. Það er því augljóst, að verði Bændafl. á móti vantrauststill., þá er hann að hindra, að sterk stjórn verði mynduð því að engar líkur eru til að hin rökst. dagskrá þeirra verði samþ., enda mun hún varla eiga vís nema 2 atkv. í þinginu.

Þessum umr. er nú að verða lokið. Þær hafa verið um margt fróðlegar, svo að menn vita nú miklu betur en áður, hvað á seiði er. Þær hafa sannað, að ádeila Sjálfstfl. var á rökum reist. Mönnum er nú ljóst, að stj. ætlar að fylgja sömu stefnu og þeirri, er þegar hefir fært mikla bölvun yfir þjóðfélagið. Mönnum er ljóst, að stj. getur vegna hins mikla og vaxandi málefnaágreinings milli Framsfl. og Alþfl. ekkert verkefni af höndum innt. Menn vita nú, að stj. klofnaði út af ágreiningi um það, hver afskipti löggjafinn og framkvæmdarvaldið má hafa af kaupdeilum. Menn skilja nú, að enginn mátti leyfa sér að mynda nýja stjórn án þess að tryggja það, að stuðningsmenn hennar væru sammála um það mál, sem klofningnum hefir valdið. Mönnum er ljóst, að Hermann Jónasson vissi, þegar hann myndaði bina nýju stjórn, að afstaða sósíalista til deilumálsins var óbreytt. Mönnum er ljóst, að sterkar líkur benda til þess, að svipaðar deilur, er skapa þörf fyrir stjórnaraðgerðir, séu í uppsiglingu. Mönnum er ljóst, að þær líkur stafa mikið frá samkeppni Héðins Valdimarssonar og kommúnista við sósíalista. Mönnum er ljóst, að þessar líkur hafa stóraukizt vegna þess, að stj. styðst við sósíalista. Mönnum er ljóst, að sósíalistar þora ekki annað en vera andvígir öllum stjórnaraðgerðum á þessu sviði. Mönnum er ljóst, að stjórn, sem styðst við sósíalista, er því öldungis máttvana og óbær um að leysa þörf þjóðfélagsins í þessum mikilvægu málum. Mönnum er ljóst, að með þessari stjórnarmyndun hefir forsrh. ekki eingöngu eyðilagt gerðardómslögin, heldur og stofnað þjóðinni í mikinn voða.

Undir niðri eru fleiri hér innan þingsalanna sammála um höfuðstefnu þessara mála heldur en látið er í veðri vaka. Allir, sem fylgjast með í stjórnmálunum, vita, að í Framsfl., utan þings og innan, fjölgar þeim, sem sjá, hvert stefnir, og í þeim hópi eru margir, kannske flestir, af valdamestu mönnum flokksins, líka á þingi.

Það er mikils virði, að forsrh. hefir nú sagt alþjóð manna sína skoðun um, hvernig hér er komið. Það eru hinar miklu og vaxandi þrengingar, sem framkalla hina vaxandi ábyrgðartilfinningu og breyttu afstöðu ýmsra foringja Framsfl. — Sjálfstfl. fagnar þeirri breytingu, þótt hann harmi, hve seint hún kemur. Sjálfur mun Sjálfstfl. óhikað taka á sig þá ábyrgð og það erfiði, sem þjóðarþörfin krefst á hverjum tíma, eins og flokkurinn líka þegar hefir sýnt með lausn ýmsra vandamála á síðustu þingum í samstarfi við Framsfl.

Sjálfstfl. gekk þess ekki dulinn, að vantrauststill. yrði felld. Hann taldi þó skyldu sína að bera hana fram, meðfram til þess að stofna til þeirra umr., er hér hafa fram farið.

Ég tel, að mikið hafi unnizt á þessum umr. Ég veit, að hlustendur hafa fundið, í hverju þær eru frábrugðnar umr. undanfarinna ára, og læt mér það vel líka.

En þó till. okkar verði felld hér á þingi, þá mun sjálf rás viðburðanna, sjálf hin málefnalega aðstaða í landinu að því leyti tryggja framgang hennar, að þessi stjórn mun ekki fara lengi með völdin í landinn. Brátt mun koma hér ný stjórn, ný stefna, ný átök og nýr ávöxtur.