25.02.1938
Efri deild: 8. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (2891)

14. mál, mjólkurverð

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég verð að játa það, að ég skil ekki, hvernig hv. 1. landsk. hugsar sér að koma 1. lið þessarar þáltill. til framkvæmda. Hann veit, að til eru sérstök l., sem ákveða, að skipuð sé mjólkurverðlagsn. Hann veit, að í þeirri n. sitja nú tveir menn fyrir neytendur og tveir fyrir framleiðendur og einn stjórnskipaður. Hvort ætlast hann nú heldur til, að vilji og skoðanir þessara manna, sem hafa verið, hvað meiri hl. snertir, með í að hækka verð mjólkurinnar, sé einskis virtur, eða þeir þá eigi bara að vera til þess að framkvæma það, sem stjórnarráðið segir þeim að gera? Þekkir hv. 1. landsk. dæmi þess úr sinni starfsemi, að þær n., sem Kommfl. skipar, geri það, sem forráðamaður flokksins segir þeim að gera (BrB: Já, miðstjórn flokksins), og þær hafi engar sjálfstæðar skoðanir eða vilja? Er það á þann hátt, að stjórnin eigi að hlutast til um þetta og segja: Já, nefnd mín góð. Þið gerið bara það, sem ég segi fyrir, og ákveðið ekki annað —? Eða á stjórnarráðið að grípa fram í og framkvæma þennan vilja með því að breyta l.? Ég skil sem sagt ekki þetta.

En af því að atvikin haga því svo, að ég er í þessari d. og jafnframt formaður þeirrar n., sem framkvæmdi þessa mjólkurhækkun, sem hér er um að ræða, þá þykir mér rétt að skýra frá því, hvernig þessa verðhækkun bar að og á hverju hún er byggð.

Skal ég fyrst geta þess, að það mun hafa verið seint í september, sem menn, bæði hér í Reykjavík og utan Reykjavíkur, fóru að koma til mín og tala um, að nauðsynlegt væri, að mjólkurverðið væri hækkað. Það var löngu áður en breyt. var gerð á l., sem hv. 1. landsk. heldur, að öll hækkunin hafi byggzt á. Meðal þessara manna voru þau Eyjólfur Jóhannsson, Ragnhildur í Háteigi og Magnús á Blikastöðum, svo að ég nefni þrjú nöfn. Ég sagði þessum þremur mönnum og öllum öðrum, sem á þetta minntust þá, að satt að segja vissi ég ekki, hvort til væri nokkur mjólkurverðlagsn.; ég vissi ekki, hvort hún hefði verið skipuð nema eitt ár, árið 1934. Og ég hélt satt að segja, með tilliti til skipunar kjötverðlagsn., að mjólkurverðlagsn. væri ekki til, og þyrfti því að skipa hana á ný. Þessi svör mín urðu til þess, að 10. okt. í haust skrifaði félag, sem kallar sig Mjólkursamlag Kjalarnesþings, — en í stjórn þess eru Lorenz Thors, Ólafur Bjarnason í Brautarholti o. fl. —, og skoraði á stjórnarráðið að hækka mjólkurverðið úr 38 aurum upp í 45 aura og að tilsvarandi hækkun þessu yrði gerð á öllum öðrum mjólkurafurðum. Og svo sendi stj. þessa félags bréf í þá átt, að hún skoraði á stjórnarráðið að skipa mjólkurverðlagsn. tafarlaust, væri hún ekki til. Við þessari áskorun varð svo stjórnarráðið, og þessi n. var skipuð í okt. eða nóv. í haust, eftir að bæjarstjórn sem fulltrúi neytenda og mjólkursölun. sem fulltrúi framleiðenda voru búnar að benda á menn til að fara í nefndina. 23. okt. kemur svo aftur áskorun, og þá frá félagi, sem kallar sig Mjólkurbandalag Suðurlands. Í stjórn þess félags er Eyjólfur Jóhannsson formaður, og bréfið frá því er undirskrifað af honum. Hann skorar á stjórnina 23. okt. að hækka mjólkurverðið úr 38 aurum upp í 45 aura pr. lítra og láta hækka verð á skyri um 10.% og verð á smjöri og rjóma um 20–25%. Hann rökstuddi þessa till. með því, að verðlag sé hækkandi á öllum aðkeyptum vörum og að kaupgjald sé hækkandi og dýr heyfengur, og verði því að kaupa mikinn fóðurbæti, ef ekki eigi að drepa mikinn hluta búfjár og ef ekki eigi að verða fóðurskortur.

Um þetta leyti var ég búinn að koma á fund úti í Oddfellow-húsi — ég ætla að það hafi verið 10. des. — til að ræða við menn, sem þar voru að ræða um mjólkurverðlagið. Þegar ég kom til þessara manna, vildu þeir fá hjá mér ákveðið loforð um, að mjólkin yrði hækkuð í verði alveg tafarlaust. og höfðu stór orð um þann drátt, sem orðið hefði á því og ég væri valdur að. Ég lofaði þessum mönnum þá, að ég skyldi reyna að átta mig greinilega á þeim atriðum, sem áhrif hefðu á það, hvort réttmætt væri að hækka mjólkurverðið eða ekki, og þegar ég væri búinn að því, þá mundi ég kalla mjólkurverðlagsn. saman. En hvað hún þá gerði, vissi ég vitanlega ekki. Þessu lofaði ég þarna á fundinum. Og mér virtist, að aðalmenn á fundinum væru Eyjólfur Jóhannsson, Magnús Þorláksson, Einar Ólafsson og Ragnhildur í Háteigi. Það töluðu margir fleiri, en mér virtist þessir menn vera aðalmennirnir á fundinum. (MJ: Það er bezt að nefna bara sjálfstæðismenn). Ég sá ekki einn einasta mann á fundinum annan en Klemenz Jónsson í Árnakoti, sem ekki var sjálfstæðismaður. Þegar ég fór af þessum fundi, skrifaði ég tafarlaust öllum þeim mönnum hér í bænum, sem verzla með fóðurbæti, og bað þá um upplýsingar um, hvaða verð hefði verið á fóðurbæti hjá þeim ýms ár og hvað það væri nú. Sömuleiðis fór ég í það og setti líka aðra menn í það með mér að tína upp úr skattskýrslum bænda, hvaða kaup hefði verið borgað kaupamönnum og kaupakonum um allmörg undanfarin ár. Þetta fór ég í gegnum. Og í síðasta lagi skrifaði ég svo mjólkursölun. og spurði hana, hverjar væru þær kaupkröfur verkafólks, sem hún hefði neyðzt til að verða við síðan árið 1934, og þá sérstaklega um áramótin síðustu. Tiltölulega skömmu eftir áramót var ég búinn að athuga kaupgjaldið, en svar frá mjólkursölunefnd kom fyrst 2. febr. Það sýndi sig við þessar athuganir, að á því svæði, sem mjólkin var seld af til Reykjavíkur, unnu árið 1934 691 karlmaður að kaupavinnu, en árið 1937 716; árið 1930 aðeins fleiri, sjö hundruð fjörutíu og nokkrir, og kvennmenn h. u. b. jafnt frá ári til árs, liðlega 700 (718–720). Kaupið, sem að meðaltali var greitt yfir allt heila svæðið hin einstöku ár, reiknaði ég svo út og sá, að það hafði breytzt, þannig að frá því árið 1930 hafði það lækkað til ársins 1933, svo farið að hækka og hækkað til ársins 1937, er það var orðið rétt að segja það sama og árið 1930. Þarna er fæði vitanlega ekki tekið með í útreikningnum. 1937 þurftu menn því að borga nálega alveg það sama í kaup við heyvinnu eins og 1930, en kaupið lækkaði í millitíð, og var það þegar mjólkin var sett niður, og það var ein af ástæðunum til mjólkurlækkunarinnar 1934.

Um fóðurbætinn gilti alveg sama sagan. Hann var árið 1937 kominn upp í sama verð og árið 1930, og um 7% dýrari en 1934.

Þá tók ég allar kýr á svæðinu, sem eru í eign þeirra, sem eru í nautgriparæktarfélaginu, og athugaði, hve mikinn hluta fóðursins þær hefðu fengið sem fóðurbæti og hve mikinn hluta hey. Þá sýndi sig, að vetrarfóður kúnna hafði hækkað um 5,8% frá árinu 1934 til ársins 1937. Þá er þó alveg séð burt frá því, að vitanlega vita það allir menn, að hey frá sumrinu í sumar er allt annað fóður heldur en það hey, sem fæst þegar vel viðrar. Og ég gerði. það með vilja að taka ekki tillit til þess. Því að þótt í öllum þessum áskorunum, sem sendar hafa verið og stjórnarráðinu hafa borizt, sé fyrst og fremst lögð höfuðáherzlan á það, að það eigi að hækka mjólkurverðið nú, af því að sumarið hafi verið svo slæmt, þá álít ég, að ekki sé hægt að taka tillit til þess að því er til mjólkurverðsins kemur.

Samtímis þessum athugunum reyndi ég að átta mig á, hvernig hefði breytzt hlutfallstala hjá hagstofunni um kostnað við framfærslu 5 manna fjölskyldu hér í Rvík. Var slíkt fyrst reiknað eftir húsaleigu; en eftir manntalið 1930 var reiknað eftir því, hver byggingarkostnaðurinn var, og þá reiknað aftur fyrir sig í tímann, til þess að fá sem gleggst yfirlit og tölurnar samræmdar. Það sýndi sig, að árið 1930 er þessi hlutfalistala, þegar talan fyrir árið 1914 var sett 100, 252. Svo fer hún lækkandi, og kemst árið 1933 niður í 226. Svo fer hún aftur hækkandi og kemst árið 1937 upp í liðugt 257. Hún fylgir alveg sömu línum eins og kaup fólksins í sveitinni hefir gert á þessu tímabili, þessi lína, sem hagstofan reiknaði út um kostnað við framfærslu 5 manna fjölskyldu hér í Rvík.

Þá reyndi ég að átta mig á því, hvernig það væri með kaupgetu almennings. Síðan ég komst í kjötverðlagsn. hefi ég alltaf reynt að fylgjast með því, hvað ýmsar búðir hafa haft í veltu á ári, og reynt að nota þær upplýsingar sem mælikvarða á það, hvað fólkið er ört að kaupa. Og það sýndi sig, að fólkið var örara að kaupa árið 1937 en undanfarið, sem telja má merki um meiri kaupgetu.

En hjá mjólkursamsölunni sjálfri höfðu ekki orðið smávægilegar breyt. Um áramótin var samið um kauphækkun hjá öllu fólki þar, sem nam um 12½% að meðaltali. Og ef sú kauphækkun á að koma niður á verði neyzlumjólkurinnar, þá gildir hún ½ eyris verðhækkun á hvern lítra. Þetta er kauphækkun bara þeirra, sem vinna við mjólkurbúðirnar. Ef aðgætt er, hvað kol til stöðvarinnar, lok á flöskur og keyrsla á bílum o. fl. hefir hækkað í verði — og þetta allt eru óhjákvæmilegir útgjaldaliðir —, þá sýnir sig, að þessi hækkun samtals nemur sem svarar eins eyris verðhækkun á hverjum litra mjólkur, sem seldur er. Þessi hækkun hefir að langmestu leyti verið framkvæmd eftir kröfum manna, sem nú finna hvað mest að því, að mjólkin skuli hafa hækkað í verði; en þetta ekki látið ganga út yfir bændur í hækkuðu verði til þeirra. Samsalan verður þannig að borga meira í rekstrarkostnað fyrir hvern lítra nú heldur en fyrst þegar hún var til.

Þegar þessar aðstæður voru athugaðar, skoðaði ég ekki huga minn um að hækka mjólkurverðið. Ég álít, að ég eigi ákaflega erfitt með, þegar ég kem út á meðal bænda og þeir vita mig fyrir að hafa ekki hækkað verð mjólkurinnar nóg, að svara fyrir það að hafa ekki látið verðhækkunina nema meiru, því að hækkunin er ekki nema brot af þeirri hækkun, sem hefir orðið á framleiðslukostnaði mjólkur hjá bændum. Þegar ég var með því að hækka verð mjólkurinnar ekki meira en þetta, byggði ég það á því, að það hefði þegar unnizt svo mikið fyrir framleiðendur við það skipulag á mjólkursölunni, sem orðið hefir, að þótt bændur fengju nú ekki fullkomna hækkun á mjólkurverðinu samanborið við þeirra tilkostnað við framleiðslu mjólkurinnar, þá væru þeir búnir að fá hana að nokkru leyti áður. Á því flothylki reyni ég að fljóta, þegar ég kem út til bænda. Aftur á móti þegar ég kem fram fyrir neytendur, þá hefi ég góða samvizku, því að hækkunin er öll þeim í vil. Hefði verið farið eftir því, sem framleiðslukostnaður krafðist hjá bændum, þá átti verðhækkunin að vera miklu hærri en þetta. Og ég geri ráð fyrir, að þeir menn, sem tala um þessa mjólkurverðhækkun og vita hana, vilji vera í samræmi við sjálfa sig, þegar talað er um hækkun á öðrum sviðum. Hvernig stendur á því, að h. u. b. alstaðar hefir verið hækkað kaup nú í ár? Mjólkin var undantekning árið 1934, að hún var lækkuð, þegar allt seig þá niður á við, þ. e. a. s. kostnaður yfirleitt við að lifa. Lækkaði verkkauptaxti þá, þó að það lækkaði í kostnaði að lifa úr 252 niður í 226? Ég varð ekki var við það. Nú er framfærslukostnaður kominn aftur upp í það sama sem árið 1930. Þá liggur ekkert fyrir annað að gera en að hækka einnig mjólkurverðið upp í það verð, er þá gilti. Svo koma mennirnir, sem hafa sama kaup og árið 1930, þegar hlutfallstala framfærslukostnaðar var h. u. b. sú sama og nú, og segja: Við þurfum að fá hærra kaup, ekki eins og árið 1930 og 1931, heldur töluvert meira. Það er þess vegna dálítið erfitt gagnvart bændum að forsvara það, að mjólkin er ekki hækkuð meira í verði. Ég skal viðurkenna það.

Ég þykist þá hafa gert grein fyrir því, hvers vegna ég og meiri hl. mjólkurverðlagsn. var ákveðinn í því að gera þessa mjólkurverðhækkun. Líka þykist ég hafa bent á, hvers vegna þessi hækkun var ekki gerð meiri, sem vel hefði þó mátt forsvara. Ég hefi líka bent á, hvaðan þessar kröfur eru komnar; og bréfin liggja hér fyrir framan mig með þessum kröfum, ef einhvern kann að langa sérstaklega til að lesa þau.

Þá benti hv. 1. landsk. þm. á það, að nauðsyn bæri til þess að auka mjólkurneyzluna hér í bænum. Og mér virtist koma fram hjá honum, að hann hefði töluverða trú á, að það væri hægt. Ég skal ekki segja annað um þetta en það, að eftir því, sem ég veit bezt, hefir reynslan verið sú um alian heim, að þegar neyzla óunnar mjólkur er komin upp í 1/2 litra á mann í bæ, þá virðist hér um bil ómögulegt að hækka hana nokkuð verulega úr því. Ég hygg, að þær tölur, sem hv. 1. landsk. var með og hann vill miða við mjólkurneyzlu í Svíþjóð, eigi ekki við neyzlumjólkina (óunna), heldur eigi þær við neyzlu bæði óunninnar mjólkur og mjólkurafurða, smjörs, osta o. s. frv.

Því verður ekki neitað, að við Íslendingar, og þ. á. m. við Reykvíkingar, höfum ekki til almennrar neyzlu ýmsar þær fæðutegundir, sem víða annarsstaðar í löndum geta komið í staðinn fyrir mjólk. Þess vegna gætum við búizt við, að mjólkurneyzla gæti verið hjá okkur meiri en víða í öðrum löndum. Og það getur vel verið. að af þessari ástæðu sé hægt að fá mjólkurneyzluna hér í Reykjavík eitthvað hærra upp heldur en t. d. í Svíþjóð eða Noregi. Þar hafa menn meira af ávöxtum o. fl., sem við höfum ekki, sem getur komið í staðinn fyrir mjólk. En þó mun hér ekki að verulegum mun vera hægt að auka mjólkurneyzluna. Ég hefi ekkert á móti því, að þetta mál verði rannsakað. Og eftir því, sem ég veit bezt, er mjólkursölunefnd alltaf að rannsaka það og reyna að finna leiðir til þess að auka neyzluna, og hefir heppnazt það furðanlega, því að mjólkurneyzlan hefir vaxið ár frá ári þau ár, sem samsalan hefir starfað. Því að þau kraftlitlu öfl, sem reynt hafa að vinna að því að minnka mjólkurneyzluna hér í bænum, hafa annaðhvort hætt við þá starfsemi sína eða þá að sú starfsemi hefir ekki haft nein áhrif. Eina breyt. á mjólkursölunni, sem vart hefir orðið síðan hún hækkaði 13. febr., er sú, að minna er nú selt í hálfflöskum af mjólk heldur en var, og meira í lausri vigt. Við Íslendingar höfum ekki fengið orð fyrir að vera sérlega sparsöm þjóð, enda sýnir það sig t. d. á mjólkursölunni hér í bænum. Við hugsum ekkert um það, þó að við þurfum að borga brotnar flöskur og lok á flöskur. Undanfarið hafa hér í bænum verið seld 90% af allri mjólk á flöskum, sem er 2 aur. dýrari lítrinn en mjólk í lausri vigt. Ef við lítum til annara landa og athugum, hvernig þessu er háttað þar, þá er munurinn afarmikill. Í stað þess, að hér er 90% af mjólkursölunni flöskumjólk, þá er t. d. í Berlín aðeins 8% hennar á flöskum og í Stokkhólmi 12%. Hvernig á því stendur, að við hér kaupum svona mikla flöskumjólk, skal ekki farið út í nú. En þetta er staðreynd, sem ekki verður á móti mælt. En eins og ég þegar hefi tekið fram, þá hefir verðhækkunin síðasta ekki haft önnur áhrif en þau, að mjólkursalan á flöskum hefir minnkað, en sala mjólkur í lausri vigt aukizt að sama skapi.

Hvað 2. lið þessarar till. snertir, þá hefi ég ekkert sérstakt við það að athuga, þó að hann verði samþ. Mér virðist ekkert á móti því, þó að athugað verði, hvað bezt og heppilegast muni að framleiða hér í kringum Reykjavík, en ég hygg þó. að það standi næst búnaðarfélagsskapnum í landinu og gera slíka athugun. En ég er alveg á móti því, sem virðist vaka fyrir hv. 1. landsk., að skipuð sé sérstök n., sem ekkert megi til málanna leggja, heldur eigi ráðh. að segja, að svona og svona skuli það vera, því að ég vil helzt ekki skipta mér af opinberum málum lengur en það, að ég megi hafa mína sjálfstæðu skoðun og fara eftir henni, án fyrirskipana frá öðrum.