21.03.1938
Efri deild: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (2900)

14. mál, mjólkurverð

*Frsm. minni hl. (Erlendur Þorsteinsson):

Ég á nokkra sérstöðu í þessu máli innan landbn. Ég ætla að fara inn á tvö atriði í ræðu hv. 1. þm. N.-M. Hann sagði, að hann teldi það ekki á valdi ríkisstj. að breyta verðlagi á mjólk, en skömmu seinna sagði sami þm., að hann teldi rétt, að ríkisstj. léti n. athuga, hvort ekki væri fært að breyta verðlaginu oftar en gert er, — lækka mjólkina þegar mikið framboð er af henni, en hækka aftur þegar minna er um hana. M. ö. o., hv. 1. þm. N.-M. gengur inn á, að ríkisstj. geti haft áhrif á, hvaða afstöðu n. tekur í þessu máli, og þar af leiðandi getur hún líka haft áhrif á, að n. breyti þessari ákvörðun sinni oft. Í öðru lagi virtist mér koma fram hjá hv. þm., að mjólkurhækkunin 13. febr. hefði orðið þess valdandi, að mjólkursalan hefði aukizt. Ég tel slíkt óskylt og ekki sambærilegt. Mig minnir, að það væri samgönguteppa og mjólkurskortur áður, og þar af leiðandi ekki selt það, sem hægt var. En þeir örðugleikar hefðu fallið úr sögunni seinna. Ef ætti að taka þetta sem rök, þá ætti ekki að vera annar vandinn en að hækka ennþá meira mjólkina, sennilega í 60 til 70 aura lítrann, til þess að selja á öllu verðjöfnunarsvæðinu. (PZ: Þetta eru bara staðreyndir með neyzluaukninguna). Sami þm. talaði líka um það, að hann vissi, að þessi mjólkurhækkun hefði haft þau áhrif, að flöskumjólk minnkaði, en aukizt hefði lauasalan. Í reikningum samsölunnar fyrir árið 1937 er einn liður, sem orsakar tekjur af flöskugjaldinu, sem nemur samtals kr. 42313.84. Ef þessi tekjuliður hverfur, þurfa þá ekki einhversstaðar að koma tekjur, sem rynnu til bænda?

Ég skal þá nokkuð snúa mér að málinu sjálfu. Meiri hl. n. hefir tekið þá afstöðu til málsins, að láta það fá hægt og rólegt andlát, og hefir nú sett nokkurskonar eftirmæli með smekklegum orðum og tilheyrandi ályktun til ríkisstj. og ýmissa nefnda. Ég aftur á móti vil, að miðað sé að því, að því verði komið fyrir þannig, að hv. deild geti tekið greinilega afstöðu, er komi skýrt fram, hvort hún vilji samþ. eða fella till. Ég legg til, að till. verði samþ. með einni brtt. Þær meginástæður, sem liggja til þess, eru fyrst og fremst þær, að þegar mjólkurl. voru samin á síðasta Alþingi, var það skýrt tekið fram, a. m. k. af einstaka mönnum, að þeir greiddu þeim atkv. í trausti þess, að þessi breyt. á lögunum hefði engin áhrif til hækkunar á neyzlumjólk í bænum. Það er því vitanlegt, að afstaða þeirra til mjólkurl. hlýtur að hafa breytzt, þegar því trausti var brugðið, en verður til þess, að mjólkin hækkar. Þá er það eitt, sem ég tel og við alþýðuflokksmenn, með fullum rökum, að hækkun mjólkurverðsins hafi orðið til þess að minnka neyzluna. Þá er það, á hverju mjólkursölun. byggði hækkunina. Mér hefir verið sagt, að það væri vegna þess, að kauphækkun til verkamanna hefði orðið á þeim svæðum, sem næst liggja, síðan 1934. Ég skal ekki segja, hvað mikið er til í því. En ég hygg, að þetta atriði sé lítils eða einskis virði í þessu efni. Þá er það eðlilegast, að mjólkursölun. hefði lagt til grundvallar þann árangur, sem hefir verið af mjólkursölufyrirkomulaginu síðastl. ár. Ég hygg, að árangurinn hafi orðið til hagsbóta fyrir bændur, en ekki fyrir verkamenn. Maður skyldi halda, að verðhækkunin væri með tilliti til þess, að n. áliti, að skipulagningin í mjólkursölunni hefði brugðizt eða ekki reynzt eins vel og búizt var við þegar lögin voru sett. Ég fékk þess vegna, þó eftir mikla vafninga og milliliði, eitt eintak af reikningum samsölunnar fyrir árið 1937. Ég hefi athugað þennan reikning dálítið, og ætla að gera grein fyrir helztu tölum, sem þar eru. Samkv. þessum reikningi eru tekjur samsölunnar samtals kr. 501043.97, en tekjuafgangur samtals 200 þús. kr. Um verðjöfnunarsjóð sjálfan er það að segja, að tekjur hans, að frádregnum launum og kostnaði mjólkursölun., eru kr. 193596.94. Svo eru aftur kröfur, sem koma fram til verðjöfnunarsjóðs og hann verður að uppfylla. Fyrsti liður er ógreidd verðuppbót umfram sjóðseign í árslok 1936, er nemur samtals kr. 263089.12. Af þessu er greitt af tekjuafgangi mjólkursamsölunnar fyrir árið 1936 kr. 143291.37. Eftir þessu eru þá kröfur til verðjöfnunarsjóðs árið 1936 kr. 119797.75. Annar liður eru kröfur til verðjöfnunarsjóðs vegna vinnslu á mjólkurvörum 1937, kr. 284722.84. Þriðji liður, kröfur, sem gerðar eru til verðjöfnunarsjóðs, er vegna útflutnings á ostum 1937, samtals kr. 115770.32. Þær kröfur, sem liggja fyrir til verðjöfnunarsjóðs, eru samtals kr. 520290.91. En tekjur eru. eins og ég gat um, þessar kr. 193596.94. Frá þessum kröfum vil ég þó draga kröfur, sem eru ógreiddar frá 1936, því þær eiga engin áhrif að hafa á afkomu verðjöfnunarsjóðs 1937. Þá kemur í ljós, að það, sem fyrir liggur frá 1937, nemur samtals kr. 400493.16. Ef við drögum frá þeim kröfum tekjur, sem verðjöfnunarsjóður hefir, þá nemur það kr. 206895.22. Ef við síðan gerum ráð fyrir því, að um mjólkursöluna séu hafðar sömu reglur fyrir árið 1937 eins og fyrir árið 1936, og tekinn tekjuafgangurinn frá árinu 1937 til að greiða upp í verðjöfnunarkröfur, þá er það kr. 400111.59. Málið stendur þá þannig, að 1937 eru tekjur af samsölunni og tekjur verðjöfnunarsjóðs næstum nægilega miklar til að fullnægja þeim kröfum, sem fram hafa komið til verðjöfnunar; vantar aðeins kr. 60612.72, og það er vitanlega tiltölulega lítið. Útkoma ársins 1937 sýnir því, að mjólkurskipulagið á öllu verðlagssvæðinu hefir gefizt vel, og það hefir gefizt það vel, að það nægja tekjur af verðjöfnunargjaldinu og tekjuafgangur af mjólkursölunni til að mæta þeim kröfum, sem gerðar eru á því ári. En það, sem vantar á, eru kr. 119797.75, sem mjólkursamsalan er að draslast með frá árinu 1936, og sem hún nú vill láta mjólkurneytendur í bænum greiða í hækkuðu mjólkurverði á árinu 1938. Þá er að athuga, hvort líkur eru fyrir hendi, að mjólkurframleiðslan aukist að mun nú á næstunni; yrði þá að gera ráð fyrir því, að vinnslumjólk aukist í hlutfalli við neyzlumjólk, þannig, að meira verðjöfnunargjald þurfi að greiða. En allt bendir á, að svo verði ekki. Eins og allir vita, hafa — því miður — hey hrakizt, og lítur þannig út, að framleiðslan minnki eða e. t. v. standi í stað, og þá er minni vinnslumjólk, sem þarf að bæta upp, og þar af leiðandi minna verðjöfnunargjald, sem þarf að greiða. Mér skilst því, að með því að líta á tekjur samsölunnar og verðjöfnunarsjóðs árið 1937, og með því að líta á framleiðslumagn mjólkurinnar, þá hefði mjólkurverðlagsn. átt að vera það ljóst, að óþarft væri í þeim tilgangi að hækka verð mjólkurinnar.

Það er ekki hægt að segja, að í höfuðatriðunum beri minni og meiri hl. n. á milli, heldur það, að ég held fram, og ég tel með fullum rökum, að lækkun mjólkurverðsins myndi leiða til aukinnar neyzlu. Og það er vitað og viðurkennt af hv. 1. þm. N.-M., að um leið og neyzlumjólk eykst og vinnslumjólk minnkar, getur verðið lækkað vegna þess, að minna þarf þá til að greiða upp í verðjöfnunina. Viðvíkjandi aukningunni má geta um, að eftir því sem talið er mjólkurmagnið í þessum reikningum, er það árið 1935 9943809 1/2 kg., 1936 11799741 1/2 kg. og 1937 12424597 1/2 kg. Þannig hefir aukningin á árinu 1937 verið miklu minni, allt að 2/5 minni, miðað við árið á undan. Enda er vitað, að framleiðsluaukningin hefði öll selzt í landinu, og er það nokkuð á annað hundrað þús. lítra, miðað við það mjólkurmagn, sem var 1936.

Það er einn liður hér í þessari kröfu til verðjöfnunarsjóðs, sem ekki er nokkur leið annað en að drepa örlítið á og ræða um. Það eru þær kröfur, sem koma til verðjöfnunar vegna útflutnings á ostum árið 1937. Það er í raun og veru ekki svo létt að fá upplýsingar um það, hvað mikið af ostum er flutt út á árinu 1937 frá mjólkurverðjöfnunarsvæði Rvíkur. En samkv. hagskýrslum hefir verið flutt út af osti alls 1937 137970 kg., fyrir samtals 168880 kr. Og eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi getað fengið, mun það vera um 40–50 þús. kg., sem flutt eru út annarsstaðar, fyrir utan þetta verðjöfnunarsvæði, og liggur nær að ætla, að hafi verið flutt út utan þessa verðjöfnunarsvæðis sem svarar ca. 90–100 þús. kg., og ætti mjólkurmagnið að samsvara ca. einni millj., eða um 1/5 af vinnslumjólk. Fyrir þetta verður að greiða samkv. kröfum 115 þús. kr., er svarar 11,5 aur. á lítrann. Vitanlega sjá allir, hvílíkur blóðskattur — liggur mér við að segja — þessi krafa er á hendur þeim, sem neyzlumjólkina nota og neyzlumjólk framleiða, ef á að greiða meira en helming þess verðs í verðjöfnunargjald, sem bændur fá fyrir mjólkina, sem fer í osta. Það hefir komið frá okkur alþýðuflokksmönnum skýrt og greinilega, að við erum á móti þessum till. eingöngu vegna þess, að við teljum, að þær séu neikvæðar sem hagsbótaatriði fyrir mjólkurframleiðendur, og líka er vitanlegt, að bændur og verkamenn eiga að hafa samleið í þessu máli, og það er hagur beggja aðilja, að mjólkurneyzlan aukist sem mest. En við teljum, að neyzla geti aldrei aukizt á meðan mjólkin er höfð í svo háu verði sem hún er nú. Það þarf ekki um það að deila, við vitum það vel, sem þekkjum til á heimilum verkamanna, að þeir geta ekki leyft sér að hugsa fyrst og fremst um það, hvaða vörur eru hollastar, heldur hvaða vörur eru ódýrar, og á meðan mjólkin er svona há, getur hún ekki keppt við aðrar nauðsynlegar fæðutegundir. Aftur á móti er það vitanlegt, að ef mjólkin lækkaði í verði, þá myndu verkamenn auka kaup á þessari vöru, er yrði bændum til stórfelldra hagsbóta. Væri nú gert ráð fyrir því, að úr þessari einu millj. lítra, sem flutt er út úr landinu í ostum og sem gerðar eru kröfur um til verðjöfnunarsjóðs að greiða 11,5 aura á hvern lítra, væri framleitt skyr og smjör, og selt með töluvert lægra verði, t. d. 50 aura í heildsölu kg. af skyrinu, og smjörið sem svaraði á 30 aura lítrinn, þá yrði vinnsluverðið rúmir 20 aurar á lítrann til bænda. Þannig er hægt að koma í veg fyrir, að af þessari einu millj. þurfi að borga verðjöfnunargjald. Nú munu andmælendur svara því til, hvort við höfum tryggingu fyrir því, að hægt væri að selja allt það skyr, sem framleitt yrði í viðbót við það, sem nú er selt. Vitanlega er ekki hægt að segja það alveg ákveðið, en það þarf ekki meiri aukningu en það, að ef skyrsalan ykist um 1/2 kg. á viku hjá hverri fimm manna fjölskyldu, þá myndi aukningin ganga út og meira. Þess vegna er ekki nokkur vafi á, að einmitt það, sem þarf að leysa í þessu máli, er að láta hlutfallið á milli neyzlumjólkur og vinnslumjólkur vera sem næst þannig, að neyzlumjólk ykist, en vinnslumjólk minnkaði. Þá skapast grundvöllur til að selja með lágu verði, og bændur fá meira fyrir mjólkina en nú er.

Þá eru aðrir liðir till. og brtt. á þskj. 28, um það, að láta fara fram rannsókn á, hvort tiltækilegt sé að lækka framleiðslukostnaðinn, og athuga, hvaða leiðir eru heppilegastar til að auka mjólkurneyzluna. Þetta, sem hér um ræðir, er hagsmunamál ekki eingöngu fyrir verkamenn og neytendur í kaupstöðum, heldur og líka fyrir framleiðendur mjólkurinnar. Ég hefi gert eina brtt., þannig að burt falli orðin í 2. lið „og hvaða tegund framleiðslu hentar bezt á þessu svæði“, þ. e. kringum Reykjavík. Eins og ég tók fram í nál., gerði ég það vegna þess, að þótt um sinn hafi oftast verið það góð veðrátta, að svo að segja daglegar samgöngur hafa verið við fjarlægar sveitir, er það ekki alltaf hægt, t. d. yfir vetrarmánuðina geta samgöngur hæglega fallið niður um lengri tíma. Og ekki sízt ef neyzlan færi í vöxt, er það ekki forsvaranlegt, að þeir, sem hér búa í Reykjavík og Hafnarfirði, eigi að eiga undir því að fá sína mjólk, hvort hægt er að ná sambandi að vetrarlagi við fjarlægar sveitir. Ég tel, að slíkt nái ekki nokkurri átt, að taka þau lönd, sem nú eru notuð til mjólkurframleiðslu, til annars, svo framarlega sem ekki er vitað, að fullnægt er eftirspurninni.

Ég held, að ég hafi nú að nokkru leyti gert grein fyrir afstöðu minni í þessu máli, en ég get þó ekki stillt mig um að drepa hér nokkuð á andstæður innan eins stjórnmálaflokksins, sem hér er í deildinni. Eftir þeim upplýsingum, sem maður hefir orðið var við hjá þeim hv. þm. Sjálfstfl., sem í þessu máli hafa látið uppi skoðun sína, þá er það stundum svo, að annar helmingurinn er með, en hinn er á móti. Hv. þm. Dal. — (Raddir frá þm.: Hann er 6. landsk.). — Já, ég bið afsökunar, ég var nú búinn að gleyma sveitarflutningnum frá því í vor. Hv. 6. landsk. sagði, að með því að vísa till. til stj. væri henni þar með vísað frá. Hv. 2. landsk. hefir, að því er mér virðist, talað með till. og sjálfur borið fram brtt. í sömu átt. En hv. 1. þm. Reykv. er með báðum þessum aðiljum og hélt hér eina „haltu-mér-slepptu-mér“ ræðu, sem ómögulegt var að finna af, með hvorum aðiljanum hann er. Einn er með, annar á móti, og einn með báðum. Annars verð ég að segja það, að þegar hv. 1. þm. Reykv. var að ræða um málið, datt mér í hug ein fróm og góðsöm vinnukona í sveit, sem komizt hefir í kynni við tvo myndarlega vinnupilta, og vill hvorugan móðga, en vera góð við báða. Þegar annar er nærri, er hún góð við hann, en komi hinn, vandast málið, því að líka vill hún sýna honum blíðu, og hrópar þá: Slepptu mér! Og þessir vinnupiltar eru öðrumegin kjósendur þm. hér í Reykjavík, sem vilja láta lækka mjólkina, en hinumegin nokkrir íhaldsbændur í nágrenninu, sem vilja hækka hana og hafa gert kröfur til þess. Það er vitað mál, að nú fyrir bæjarstjórnarkosningarnar var tilkynnt með stórum fyrirsögnum og miklu málæði í blöðum sjálfstæðismanna, að alþýðuflokksmenn og framsóknarflokksmenn ætluðu að hækka mjólkina. Það er ákaflega skiljanleg aðstaða hv. þm. og erfið, enda hefir hann sem minnst viljað láta uppi skoðun sína, en verður nú neyddur til að taka afstöðu til þessarar till., sem hér liggur fyrir. Sjálfstæðismenn hafa skipt með sér verkum, að sjá um, að till. verði svæfð, þ. e. a. s. nokkrir hv. þm., sem engra hagsmuna þurfa að gæta gagnvart sínum kjósendum hér í Reykjavík, hafa tekið að sér að svæfa till. En hinir, sem sinna hagsmuna þurfa að gæta í Reykjavík, ætla sjálfir að greiða atkv. með till. En hv. 1. þm. Reykv. vill komast hjá því að láta sitt álit uppi, og þess vegna geri ég ráð fyrir, að hann hafi haldið þessa „haltu-mér-slepptu-mér“ ræðu. Um Framfl. má segja það, eftir því, sem fram hefir komið í ræðum hjá hæstv. forsrh. og hjá hv. 1. þm. N.-M., að þeir séu ákveðnir að halda áfram mjólkurhækkuninni, því engar kröfur hafa komið um það frá þeim flokki, að mjólkin lækki aftur í verði. Þeir hafa í þessu tilfelli, eins og oft áður, horft meira á pappírinn og þann ímyndaða hag, sem e. t. v. gæti orðið fyrir bændur af að fá þessa 2 aura fram á pappírnum sem verðhækkun. En þeir hafa gert minna að því að muna, að það sem gildir mest fyrir bændur landsins, er, að verkalýðurinn hafi samvinnu við þá (bændurna). Þeir ættu að minnast þess, þessir forsvarsmenn bænda, að þegar verkamaðurinn kemur með útrétta hönd og biður um samvinnu, þá er það ekki leiðin til þess að fá samvinnu, að koma með krepptan hnefann á móti.