21.03.1938
Efri deild: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (2903)

14. mál, mjólkurverð

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég ætlaði ekki að taka til máls nú. Mér finnst þáltill. svo sjálfsögð gagnvart neytendunum, að ekki sé umtalsmál að samþ. hana. En það eru nokkur ummæli, sem fram hafa komið frá ýmsum þm., sem gefa mér tilefni til að segja fáein orð. Það hafa staðið miklar deilur um mjólkurlögin, og varla hafi orðið lengri umr. hér en um þau. Það sýnir, hve rík óánægjan er manna á meðal, og einkum meðal neytenda. Það verður alltaf sú raunin á, að sú löggjöf, sem tekur hagsmuni aðeins annars aðiljans til greina, en ekki hins, verður ranglát, og það er gefinn hlutur, að allt þetta mjólkurskipulag gengur freklega á rétt neytenda og þeirra, sem framleiða mjólk í kaupstöðunum, og á síðasta þingi var hert á þessu ranglæti að því er snertir framleiðendur í nágrenni kaupstaða.

Ég vil minna hv. 11. landsk. þm. á, að þessi l., mjólkurl., og breyt., sem gerðar voru á þeim á síðasta þingi, voru samþ. fyrir atbeina Alþfl. og Framsfl. Það verður hann að viðurkenna. Ég vil ennfremur benda á það til áréttingar því, að ekki er farið að vilja neytenda í þessu efni, hve lítið er hirt um að fá fram vilja þeirra, sem kosnir eru af bæjarstj. til þess að segja sitt álit. Ég á t. d. sæti í mjólkurverðlagsn. fyrir bæjarstj. Hafnarfjarðarkaupstaðar. Nú síðast þegar n. var kölluð saman, var mér ekki tilkynntur fundurinn fyrr en svo seint, að farið var að halda fundinn, þegar ég fékk tilkynninguna, og næst er fundur haldinn á þeim tíma, sem formaður n. vissi vel, að ég gat ekki mætt. Hann er svo hnísinn og forvitinn um hagi manna, að honum hefir ekki verið ókunnugt um, að einmitt þá átti ég að taka á móti sjúklingum á lækningastofu minni. Ég hringdi þá til hans og sagði honum, að ég væri á móti hækkuninni. Hann segir, að það geri ekkert til, því að hún verði samþ. fyrir því. Þessir menn, sem neytendur kjósa, eru sem sé alveg fyrir borð bornir. Enda gætti megnasta ranglætis í upphafi, þegar lögin voru samþ., gagnvart neytendum í Hafnarfirði og Rvík. Ég vil taka það fram út af orðum hæstv. forsrh. um, að mjólkin hefði verið lækkuð þegar l. komu til framkvæmda, að það er ekki rétt að því er Hafnarfjörð snertir, því að þar kostaði mjólkin 35 aura. Form. mjólkursölun. vissi það, og hann var vist sá eini af þm., sem vissi það að kröfur voru komnar um hækkun frá framleiðendum í Rvík, af því að þeir gátu ekki staðizt verðlagið samkv. mjólkursölul. Samt fær hann samþ. brtt., sem hljóta að hafa í för með sér aukið ranglæti. Svo á eftir er þeim kennt um allt, þeir hafi orðið til að hækka mjólkina. Þessi óheilindi hjá Framsfl. og Alþfl. endurtaka sig nú, bæði við afgreiðslu mjólkurmálsins í mjólkurverðlagsnefndinni í Rvík og einnig í orðum hv. 11. landsk. um Sjálfstfl. í sambandi við málið. Hv. 11. landsk. þm. má vita það, að ef Alþfl. hefði ekki orðið til þess að koma þessari ranglátu löggjöf á gagnvart mjólkurframleiðendum í Rvík og Hafnarfirði, þá hefði ekki orðið sú hækkun á mjólkinni, sem nú er komin.

Það var bent á það af Sjálfstfl. á vetrarþinginu, að þetta yrði til þess að hækka mjólkina, og þó að Framsfl. vildi ekkert segja hér í hv. d., heyrði maður það út í frá, að þeim fyndist sjálfsagt, að mjólkin hækkaði um leið og ýmsar aðrar afurðir hækkuðu.

Ég gerði skýra grein fyrir afstöðu minni í þessu máli á síðasta þingi, en vildi með þessum orðum sýna fram á óheilindi í þessu frá byrjun, og þar eiga sammerkt Framsfl. og Alþfl.