22.03.1938
Efri deild: 31. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í D-deild Alþingistíðinda. (2905)

14. mál, mjólkurverð

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Mér þykir rétt að bæta nokkrum orðum við umr. í gær um þetta mál. Hv. 1. þm. N.-M. talaði um óheilindi sjálfstæðismanna. Þetta voru alveg verðskuldaðar þakkir fyrir, að hv. 6. landsk. hafði sem fulltrúi flokks síns skrifað undir nál. með honum. Ég er hv. þm. algerlega sammála um óheilindi hjá mörgum sjálfstæðismönnum, einkum forustumönnum flokksins. Hinsvegar veit ég, að fylgjendum Sjálfstfl. er alvara. Ég efast t. d. ekki um alvöru kvennanna í Húsmæðrafélaginu í þessu máli. Það er dálítið ósamræmi í því hjá hv. 1. þm. N.-M. að tala um óheilindi annara um leið og hann kemur fram með nál., sem einmitt er tilraun til að skjóta Sjálfstfl. undan ábyrgðinni á því, að ekkert sé gert. Hann vill ekki lofa sjálfstæðismönnum að sýna óheilindi sín með því að greiða atkv. móti till. Eða hvers vegna vildi hann ekki setja þá í þessa klípu? Hvers vegna er hann að hjálpa sjálfstæðismönnum út úr þeirri klípu með till. sinni um að vísa málinu til ríkisstj.? — Í rauninni kemur þetta samt ekki sjálfstæðismönnum að haldi, því að hver, sem greiðir atkv. með því að vísa fyrsta lið þáltill. til stj., lýsir sig um leið andvígan mjólkurlækkun; það er augljóst mál, eftir að hæstv. landbrh. hefir lýst sig andvígan lækkun. Sjálfstæðismenn komast því ekki undan ábyrgðinni þrátt fyrir þessa brellu, og ef meiri hl. fæst með þessu nál., stafar það ekki af öðru en því, að forustumenn flokksins eru ákveðnir í að eyða málinu á þennan hátt.

Hv. 1. þm. N.-M. sagði, að í bæjum í Svíþjóð mundi mjólkurneyzla ekki ná 1/2 lítra á mann daglega, og eftir því að dæma ekki meiri þar en hér í Reykjavík. Hvernig stendur þá á því, að neyzlan í Svíþjóð skuli nema 245 lítrum á ári, eða 40% meira en hér á landi, ef hún á að vera „svipuð“ og hér? Nú viðurkennir hv. þm., að eðlilegt væri, að neyzla mjólkur yrði meiri hér en í Svíþjóð. Meðan hún en samkv. skýrslum 40% minni en þar, ætti þá a. m. k. að vera full ástæða til að rannsaka, hvort hér sé nokkuð erfiðara en annarsstaðar að auka svo neyzluna, að hún verði eðlilega mikil fyrir okkar sérstöku skilyrði.

Nú er það víst, að ekki er hægt að tala um aukna neyzlu samtímis því sem verð er hækkað; skraf í þá átt er bara frómar óskir. Hvað sem áhrifum þessarar hækkunar líður í bili, er víst. að með aukinni framleiðslu, sem þýðir meiri vinnslumjólk og verðuppbætur, koma nýjar kröfur um áframhaldandi verðhækkun neyzlumjólkur. Og þegar ofan á það bætist minnkandi kaupgeta, þegar hinnar nýju kreppu fer að gæta, landbúnaðarkreppa hér og erlendis og lækkun á ýmsum matvörum, þá hlýtur það að skapa bændum mikla söluörðugleika.

Hæstv. forsrh. talaði um, að þetta væri tilraun til að lækka verð til bænda, lækka kaup þeirra með alþingisúrskurði. Það væri einskonar vinnulöggjöf. Þetta er mesta firra. Í fyrsta lagi nefnir þáltill. alls ekkert í þá átt að lækka verð til bænda, og ég hefi aldrei lagt í hana þann skilning í umr. Í öðru lagi mun reynast ókleift að halda uppi verðinu, sem bændur fá, nema með bráðum og framsýnum ráðstöfunum til að auka neyzluna, eins og þáltill. mín fer fram á.

Annars gleður það mig, að hæstv. ráðh. skuli nú vera orðinn á móti vinnulöggjöf, a. m. k. þegar hann telur, að henni sé snúið gegn bændum. En hverskonar vinnulöggjöf er það, ef komið er á einokun á mjólk til þess að halda verðinu uppi? Við getum búið til hliðstætt dæmi og hugsað okkur, að allir kaupamenn í sveitum tækju höndum saman og ákvæðu kauptaxta, sem síðan væri staðfestur með landslögum. Hvað ætli hæstv. ráðh. segði þá? — Ef menn eru að koma með samlíkingar, verða þeir að vera sjálfum sér samkvæmir.

Það var líka villandi og rangt hjá hæstv. ráðh., að mjólkin hafi lækkað 1934. Verðið í búðum varð það sama og áður yfirleitt — á þeirri mjólk, sem almenningur keypti nær eingöngu —, en mikið af mjólkinni var selt utan búðar mun lægra verði. Þetta hefir margoft verið viðurkennt af forstöðumönnum samsölunnar og að hún hafi verið sett til þess að hindra mjólkurlækkun. En svo ákafir hafa þeir verið að ganga á rétt neytenda, að í rauninni verða þessar aðgerðir þeirra til skaða fyrir bændur.

Þá kem ég að nál. meiri hl. landbn. Það er byggt á algerlega röngum forsendum. Í fyrsta lagi er þýðingarlaust að fullyrða, eins og þar er gert, að þetta sé ekki á valdi ríkisstj. Oddamaður mjólkurverðlagsnefndar er skipaður af ríkisstj., og ég efast ekki um, að ef stj. vildi reyna að lækka mjólkina, stæði ekki á núv. oddamanni og gerðist engin þörf að skipta um hann til þess. Fulltrúar Reykjavíkur og Hafnarfjarðar voru á móti hækkuninni. (PZ: Annar þeirra greiddi atkv. með henni). Já, aðeins til að hindra meiri hækkun, sagði hann, sér til afsökunar. Og sú afsökun hefði fallið niður, ef oddamaður n., og þar með meiri hl. hennar, hefði ekki verið búinn að ákveða að hækka. Í bæjarstj. Rvíkur greiddi sami nm. atkv. með till. um mjólkurlækkun, í samræmi við fyrri afsökun sína.

Það er vitanlega ekkert annað en fjarstæða, að lagabreyt. þurfi til þess, að ríkisstj. geti hlutazt til um lækkun mjólkurverðs.

Annar liður nál. heldur því fram um 2. lið þáltill., að allar rannsóknir á lækkun framleiðslukostnaðar heyri undir Búnaðarfélagið. Hinsvegar viðurkenndi hv. 1. þm. N.-M., að sjálfsagt sé að ýta við Búnaðarfélaginu, og því eigi að vísa málinu til stj. Nú fer till. mín ekki fram á annað en að ríkisstj. hlutist til um þetta — þ. e. um það, að ýta við Búnaðarfélaginu, svo að verkið sé unnið. Hvers vegna á þá ekki einmitt að samþ. þáltill.?

Alveg sama er að segja um rökstuðning meiri hl. fyrir því að vísa 3. lið till. til stj., þau rök, að það mál sé hlutverk mjólkursölun. Hvers vegna má þá ríkisstj. ekki ýta við þeirri nefnd? Ég sé ekki, að n. hafi staðið svo vel í stöðu sinni, að það væri nokkur goðgá.

Nál. minni hl. (ErlÞ) er ég alveg sammála, nema ég tel brtt. hans óþarfa. Það er ekki hægt að vera á móti rannsókn á hagnýtingarmöguleikum nágrennisins, því að þeirra er mikil þörf, enda þótt maður telji varhugavert að draga úr mjólkurframleiðslu á því svæði.

Ég legg til, að fellt verði að vísa málinu til ríkisstj., en till. hinsvegar samþ.