29.03.1938
Efri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (2909)

14. mál, mjólkurverð

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Málið er svo þýðingarlítið eða þýðingarlaust eins og það liggur fyrir, að ég vil ekki eyða tíma í víðtækar umræður.

Það er ekki hægt að svo stöddu að afnema bráðabirgðaákvæðið. Ég mun hafa sagt á síðasta þingi, að eðlilegast og æskilegast væri, að samkomulag næðist milli allra aðilja um mjólkurskipulagið, svo að hægt væri að fá þeim alla stjórn þess í hendur. En að afnema bráðabirgðaákvæðið, fyrr en þessu skilyrði er fullnægt, er sama og að hleypa öllu í bál og brand og eyðileggja mjólkurskipulagið. Þá yrði allt eins og var, meðan þeir samningar, sem gerðir voru, voru brotnir sitt á hvað, dreifingarkostnaður ægilegur, mjólkurgæðin á engan hátt tryggð og markaðurinn í voða. Hér er aðeins um tvennt að gera í bráð, slíka upplausn eða bráðabirgða kvæðið.

Eins og hv. alþm. muna, er svo fyrir mælt í l. frá síðasta þingi, að verðmunurmjólkur í nærsveitum og austan við fjall skuli vera sem svarar flutningskostnaði að austan. Og samkv. reynslu var þá gert ráð fyrir, að sá munur næmi 3–4 aurum á lítra. Það skiptir miklu, að fullt samkomulag náist um þetta atriði, og er verið að reikna út kostnaðinn.

Þá er það, hve mikið eigi að reikna búunum í vinnslukostnað, og það, hvernig stöðin hér í Reykjavík skuli rekin. Ef sæmileg lausn og samkomulag næst um þessi þrjú atriði, nálgast sá tími, að bráðabirgðaákvæðið verði óþarft. — Ég tel það réttast og öllum fyrir beztu, að bændur reki sjálfir mjólkurvinnslustöðina hér, en að ríkið þurfi ekki að grípa til einskonar ríkisrekstrar á henni. Það er ákaflega illt viðureignar fyrir ráðh. að þurfa sífellt að hafa yfirstjórn þessa í sínum höndum. Ég veit, að hver einasti ráðh. mundi kjósa að losna við allt það umstang og að bændur sjálfir tækju við stjórninni, eftir að samkomulag hefði náðst. — Ég held, að nýju lögin feli ekki í sér nein ákvæði, sem geti valdið varanlegum ágreiningi, og að ákjósanleg lausn sé væntanleg.

Þetta eru þær óskir, sem ég vona, að rætist, og þær ástæður, sem því valda, að bráðabirgðaákvæðið verður að haldast enn um stund, því að afnám þess væri sama og að afnema skipulagið.