03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Pétur Ottesen:

Ég á hér brtt. á þskj. 399 við þetta frv., við 4. gr. En í henni er ákveðið, hvernig skipta skuli benzínskattinum til vegaframkvæmda í landinu. Er það gert með þeim hætti að taka í þessa gr. hversu miklu fé skuli varið til þeirra vega, sem það nú annars á að renna til. Þó er gert ráð fyrir, að ekki skuli verja öllu þessu fé með þeim hætti, heldur er gert ráð fyrir, að nokkur afgangur verði af fénu. Og þá er gert ráð fyrir, að sá afgangur renni í sjóð, sem varið sé til lagningar Suðurlandsbrautar á árinu 1940. Ég hefi borið hér fram brtt., sem fer fram á það, að af þeim afgangi, sem hér kann að verða, verði varið allt að 5 þús. kr. til tengibrautarinnar milli Norður- og Suðurlands, eða þess kafla hennar, sem liggur vestan Hafnarfjalls, sunnanvert við svokallaðan Hafnarskóg, eða leiðarinnar milli Hafnarskógs og Skeljabrekku í Andakíl. En þangað liggur upphleyptur vegur í sambandi við þá brú, sem sett var á Andakílsá fyrir þremur árum síðan. Svo hagar til um þennan vegarkafla, að vegurinn spillist mjög, þegar á líður haust, vegna þess hve þar eru niðurgrafnar götur. Og auk þess er nokkur farartálmi að þessum vegi framan af vori, þannig að það er alveg nauðsynlegt til þess að halda opinni þessari leið, að byggja veg þarna á dálitlum kafla. Mundi þessi upphæð, 5. þús. kr., nægja til þess að bæta þarna úr ástandinu einmitt á þeim kaflanum, sem mest torveldar umferðina eins og nú er ástatt. Nú er það svo, að aðalleiðin milli Norður- og Suðurlands, sem haldið er uppi hraðferðum á frá því snemma á vorin og nokkuð langt fram eftir hausti, hún er nú einmitt að leggjast þarna um, þannig að nú hafa bilarnir sína endastöð á Akranesi miklu frekar en í Borgarnesi. Það, sem ráða má af þeim breytingum, sem umferðin hefir tekið á þessari leið á undanförnum árum, og þá sérstaklega á tveimur undanförnum árum, bendir á, að þessi leið leggist um Akranes frekar heldur en að endastöðin verði í Borgarnesi. Og ferðum inn fyrir Hvalfjörð fækkar alltaf þannig, að úr því dregur mjög, að sú leið sé farin. Þess vegna hefi ég lagt til, að þessi breyt. verði gerð, að af þessu fé verði varið allt að 5 þús. kr. til þessa vegar, ef þessi tiltekni afgangur verður, en að svo miklu leyti sem afgangurinn yrði fram yfir þessa upphæð, yrði engin breyt. gerð á ákvæðum frv., heldur yrði þeim hluta afgangsins varið til lagningar Suðurlandsbrautar á árinn 1940. Á þessari löngu leið frá Akureyri til Reykjavíkur, er ekki gert ráð fyrir að verja til vegalagningar neinu af þessu benzínfé á árinu 1939, nema 40 þús. kr. til Vatnsskarðsvegar. En með tilliti til þess, hve mikið ríður á því, að þessi leið geti verið fær sem allra lengstan hluta ársins, þá virðist mér, að sanngjarnt megi telja að samþ. þessa till. mína. Ég vænti þess því að hv. þd. geti orðið mér sammála um, að rétt sé að heimila það, að af þessum afgangi benzínfjárins verði fyrst varið 5 þús. kr. til þessa vegar, sem svo mjög er nauðsynlegt að hraða endurbótum á, og sem mjög var á síðasta hausti og hefir verið undanfarin ár kvartað undan, að væri farartálmi á þessari leið.

Þó að þessi brtt. verði samþ., útheimtir það enga breyt. á fjárl., af því að þessi brtt., þó samþ. verði, breytir ekki neinu um þær upphæðir, sem hér er ákveðið, að skuli renna til hvers vegar fyrir sig, af þeim, sem þar eru taldir.