29.03.1938
Efri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í D-deild Alþingistíðinda. (2910)

14. mál, mjólkurverð

Sigurjón Á. Ólafsson:

Það vildi svo til á síðasta þingi, þegar breyt. á mjólkurl. voru til umr., að mjög mikið var um það deilt hér í d., hvort þær lagabreyt. mundu valda nokkurri mjólkurhækkkun eða ekki. Ég minnist þess, að því var haldið fram af andmælendum frv., að verð hlyti að hækka, en aðrir töldu, að til þeirra ráða þyrfti ekki að grípa. Vitna ég þar til orða hv. 1. þm. N.-M. Hann taldi enga ástæðu til að óttast slíkt. Reynslan hefir sýnt. að andmælendurnir hafa orðið helzt til sannspáir. Ég fyrir mitt leyti er alls ekki viss um framgang breytinganna, ef gert hefði verið uppskátt, að þetta mundi af þeim leiða. Ég greiddi þeim atkv. með þeim fyrirvara, að ég treysti hinu, og svo stóð á hér í deild, að það var nokkuð undir mínu atkv. komið, hvort mjólkurlögin gengju fram eða ekki.

Ég hefi orðið fyrir nokkrum vonbrigðum. Því er mín afstaða ljós. Ég get ekki annað en verið með þessari till., en býst þó við, að ekki nái hún tilgangi sínum, þar sem svæfa á málið með því að vísa því til ríkisstj. Hér eftir tel ég mig ekki bundinn að styðja þá mjólkurlöggjöf, sem sýnir í framkvæmd, að hún er tvíeggjað sverð. því að mjólkurhækkun getur orðið að neyzlulækkun og síðan að verðlækkun til bænda, svo að allir aðiljar bíði tjón af. Ég veit líka, hvar skórinn kreppir. Því er haldið fram, að hækkunin sé lítil. Hún er þó 5%, og það er alltilfinnanlegt fyrir stærsta neytendahópinn, reykvískt alþýðufólk, sem á við þröngan kost að búa.

Fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar vildi hver flokkur þvo sig hreinan af því að vilja mjólkurhækkun. Þá vildi hv. 1. þm. N.-M. þvo sig og flokk sinn hreinan með feitletraðri yfirlýsing í N. dbl. og gaf í skyn, að það mundi aldrei verða þeirra verk að koma á hækkun. (PZ: Þar var ekkert nema bara skýrt frá staðreyndum). Já, en þannig, að fólki var ætlað að lesa út úr þeim andstöðu Framsfl. við mjólkurhækkun. Þegar þeir koma á fund í mjólkurverðlagsn., þessi hv. þm. og fleiri, sem höfðu látizt vera sýknir af að vilja hækka, gera þeir sig bera að óheilindunum. Mér er það ljóst, að allar líkur benda til að fulltrúi Sjálfstfl., sem er fulltrúi neytendanna. hefði orðið móti mjólkurhækkun, ef hv. 1. þm. N.-M. hefði ekki verið runninn af hólminum í lið hækkunarmanna. En almennt er því haldið fram, að í skjóli við fulltrúa Sjálfstfl. hafi hækkunin komizt á.

Aðalrök hv. 1. þm. N.-M. fyrir hækkuninni eru vaxandi dýrtíð og meiri örðugleikar fyrir þá, sem framleiða mjólkina. Gott og vel. Þessari kenningu er bara ekki haldið fram, þegar hún snertir aðrar stéttir. Þegar sjómenn fóru fram á nokkra leiðréttingu á kaupi sínu og kjörum, var því neitað í blaði framsóknarmanna, að dýrtíðin hefði aukizt.

Ég vil ennfremur geta þess við hv. 1. þm. N.-M. og hans flokk, að með tilstyrk Alþfl. komst skipulagið á. Þá var byggt á þeirri grundvallarhugsun, að hagnaðinum, sem næðist með bættu skipulagi, skyldi skipt hnífjafnt milli neytenda og framleiðenda (PZ: „Eyrir fyrir eyri“, sagði Jón Baldvinsson). Verðið hefir hækkað til bændanna og ekki lækkað til neytenda. En neytendur hafa yfirleitt ekki fengið það, sem þeim var lofað með skipulaginu. Alþfl. gerði meira en að koma skipulaginu á. Eins og öllum er kunnugt, þá var gerð mjög harðvítug árás af ýmsum í bænum móti skipulaginu eða ýmsum framkvæmdaratriðum í sambandi við það. Alþfl. studdi vel að því, að skipulagið fengi að balda áfram, til þess að hægt væri að sýna fram á, hvað rétt er. Þetta var stutt af hálfu Alþfl. bæði í blöðum og ræðum. Þess vegna hefði ég sízt búizt við, að þakkirnar fyrir að hafa stutt bændur í þessu nauðsynjamáli og svo Framsfl. yrðu svo þær, að á hinum óheppilegasta tíma skuli vera skellt mjólkurhækkun á neytendur í bænum, þvert ofan í gefin loforð og í skjóli þeirra breytinga á mjólkurlögunum, sem komust í gegn á síðasta þingi. Það er þessi brigðmælgi, sem kom mér til að taka til máls í þessum umræðum.

Ég sagði hér í upphafi míns máls, og færði rök fyrir því, að hinn mesti hagur mjólkurframleiðenda sé sá, að mjólkurneyzla yrði sem mest. Ég skal ekki fara út í það, sem hér hefir verið hreyft, að kostnaður við vinnslumjólk er óeðlilega hár, og þarf að lækka hann til þess að lækka verðjöfnunargjaldið. Það er þegar búið að sanna með mjög sterkum rökum, að þetta er eitt af því stóra og vandasama í þessu mál?, sem þarf vel að athugast.

Ég sagði í upphafi, að ég ætlaði ekki að flytja langt mál, en má til að segja nokkur orð til hv. 1. þm. Reykv. Hann lét falla nokkur orð um Jón sál. Baldvinsson, og fannst mér það svona heldur taktlítið einmitt nú, meðan hann liggur á líkbörunum, að vera að flytja ádeiluorð til okkar flokksmanna hans fyrir það, hvar hann hafi verið í framboði við síðustu kosningar. Hann vildi láta líta svo út, sem við hefðum gert hann að millisveitaflutningamanni. eða hvernig hann orðaði það. En ég get frætt hv. þm. og aðra, sem mál mitt heyra, um það, að Jón sál. Baldvinsson var ávallt reiðubúinn fyrir sinn flokk að fara þar fram, sem hann taldi mesta þörf, og skoraðist aldrei undan eða hlífði sér í einu né neinu, sem flokksheill varðaði. Og það var gert með hans fulla samþykki, að hann bauð sig fram á þessum stað, því að hann var sannfærður um, að hann gat þar bezt notið sín fyrir flokkinn. Svo að hér var ekki um neitt það að ræða, sem ástæða sé að kasta steini að okkur flokksmönnum hans fyrir. En að gefnu tilefni vildi ég geta þessa hér. En það, sem hv. 11. landsk. minntist á, var allt annars eðlis, þar sem fyrrv. þm. Dal. var tekinn upp úr kjördæmi og — að mér er sagt — ekki með ljúfu geði, til þess að rýma fyrir annars flokks manni. Þetta er nauðaólíkt því, sem átti sér stað um Jón Baldvinsson, sem flutti sig bara til í kjördæmum fyrir flokkinn. En ég hefði óskað, að hv. 1. þm. Reykv. hefði ekki verið að blanda þessu hér inn í eins og sakir standa, og tel það nánast sagt taktleysi af honum.