29.03.1938
Efri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (2916)

14. mál, mjólkurverð

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég ætla aðeins að svara því fáum orðum, sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. N.-M. Hann sagði, að ég hefði sagt, að kröfurnar um mjólkurhækkun stöfuðu af síðustu breyt. á mjólkursölulögunum. Þetta er ekki rétt. Ég var aðeins að sýna fram á óheilindi, hin sífelldu óheilindi þessa hv. þm. í þessu máli, — hin sömu og margendurteknu óheilindi, sem alltaf einkenna öll afskipti þessa hv. þm. í öllu hans mjólkurvafstri.

Hitt er allt annað mál, hvað snertir fundarboðunina til okkar Hafnfirðinganna. Sé það rétt ályktað hjá hv. þm., að við Hafnfirðingar hefðum engu getað ráðið um mjólkurverðið, þó að fulltrúi okkar sem neytenda hefði mætt á fundinum, þá gegnir vitanlega sama máli með fulltrúa neytendanna hér í Reykjavík. Eigi þeir ekki að geta fengið neinu um þokað hvað mjólkurverðið snertir, þá er hreinn og beinn óþarfi að láta bæjarstjórnirnar vera að kjósa þá.

Ég vil svo að síðustu taka undir það með hv. 1. þm. Reykv., að hv. 3. landsk. ætti að vara sig á sessunaut sínum, hv. 1. þm. N.-M., a. m. k. gæta þess, að hann fái hann ekki til þess að gera hluti, sem öllum eru til stórrar bölvunar, sem hann á að vinna fyrir.