03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Jakob Möller:

Það var fyrirspurn, sem ég ætlaði að gera. — Ég hafði í raun og veru vænzt þess, að það hefði verið lýst einhverri afstöðu til brtt. hv. 7. landsk. af hálfu hins stjórnarflokksins. Mér skilst nefnilega, að brtt. þessi stefni gersamlega að því sama, sem farið var fram á í frv., sem Alþfl. flutti hér á þingi, og það þing eftir þing, um útgerð ríkis og bæja, en fékk engan byr hjá hinum stjórnarflokknum. Ég hafði nú skilið það svo, að þegar samþ. væri að veita þessi hlunnindi félögum sjómanna og verkamanna og annara, þá væri það ekki meiningin, að það ætti að framkvæma það alveg eins og um væri að ræða útgerð ríkis og bæjarfélaga, sem ekki hafði komizt fram frv. um. Það studdi ef til vill þessa skoðun mína um það ákvæði, sem hér er í þessu frv. um styrk til félaga sjómanna og verkamanna, að af hálfu Framsfl. og ríkisstj., að svo miklu leyti sem Framsfl. skipaði hana, — var lýst mjög eindregið yfir því, að sá flokkur og þeir ráðh., sem hann skipaði, mundu ekki í neinum kringumstæðum vilja fallast á, að lagt væri í opinberan rekstur eins og þar væri um að ræða. En ef þessi brtt. hv. 7. landsk. verður samþ., þá skilst mér, að fallið sé alveg frá þeirri ákvörðun Framsfl. Ég skal ekkert um það segja, hvort það sé svo ákaflega misráðið út af fyrir sig, ef farið er út á slíka braut á annað borð, þó að það sé gert, sem í brtt. felst, því að ég held nú, að þó að stofnað verði til slíkra félaga verkamanna sem hér um ræðir, þar sem lagt sé fram af hluthöfum í 71/2% af stofnfénu, en 1/3 af ríkisfé op afgangurinn sé svo lánsfé, þá sé það hér um bil óhjákvæmilegt, að það verði svo um þau fyrirtæki, að þau verði rekin af því opinbera, og það sé þá með þessu verið að henda inn á þjóðnýtingarbraut, þó að Alþfl. hafi orðið að fara þessa krókaleið, til þess að koma Framsfl. inn á þessa braut.

Það er rétt, sem hv. þm. G.-K. sagði, að eftir orðalagi l. er ekkert þar í raun og veru um það, hverjir geti orðið þátttakendur í þessum útgerðarfélögum, þar sem um útgerðarfélög sjómanna og verkamanna er að ræða. Ég hafði skilið l. þannig, að það væri ekki tilgangurinn, að í þeim skyldi vera um að ræða þátttöku annara félaga en verkamanna og sjómanna, en þar sem bætt er við „og annara“, sé með því átt við, að einnig aðrir en verkamenn og sjómenn geti verið þátttakendur í þeim félögum. Hinsvegar má og vera, að þann skilning megi leggja í þetta orðalag, að einnig sé átt við félög annara manna. En þá er það rétt, sem hv. þm. G.-K. benti á, að ef orðalagið er skilið þannig, þá er það orðið einskis virði um það að takmarka hlunnindin við verkamenn og sjómenn, og gæti þá alveg eins náð til útgerðarfélaga og annara. En af sögu þessa máls hér á þingi virðist mér, að það eitt væri þó í þessu útilokað, að bæjarfélög gætu orðið aðnjótandi styrksins. Því að fram á slíkt hafði verið farið, en það náði ekki fram að ganga; og var yfirlýst andstaða Framsfl. gegn frv. um það, og yfirleitt gegn útgerð bæjarfélaga. Það er tilgangur minn að bera þetta fram sem fyrirspurn, hvort Framsfl. hafi breytt um afstöðu í málinu að þessu leyti og hvort nú væri í ráði að breyta þeirri fyrirætlun, sem mörkuð var með ákvæðum í l. um fiskveiðasjóð, á þá leið, að upp af þeirri lagasetningu eigi nú að spretta útgerð ríkis og bæjarfélaga.