22.04.1938
Sameinað þing: 22. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (2933)

45. mál, kreppu- og stríðsráðstafanir

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Ég gæti í rauninni fallið frá orðinu, því að mest af því hefir verið tekið fram. sem ég vildi sagt hafa.

Það er gleðilegt, að hæstv. fjmrh. hefir upplýst, að málið hafi þó verið tekið til athugunar í utanríkismálan. Þetta eru þær fyrstu upplýsingar, sem okkur berast um það, að stjórnarvöldin hafi yfirleitt tekið þetta mál til meðferðar.

Ég tel víst, að allir hv. þm. hljóti að vera sammála um nauðsyn þessa máls, enda virðist svo á umr., sem allir séu því sammála. En í svona máli teljum við nauðsynlegt, að öll þjóðin standi saman. Því þarf svona n. að vera samsett af fulltrúum frá öllum hlutum þjóðarinnar, öllum flokkum. Hæstv. fjmrh. kvaðst hafa hugsað sér, að n. skipuðu stjórnmálamenn og fulltrúar atvinnufyrirtækja. Hér er ekki um neinn ágreining að ræða, því við ætlumst til, að n. hefði samstarf við fulltrúa frá atvinnufyrirtækjum og öðrum þeim stofnunum, sem nauðsyn bæri til.

En aðalnauðsyn þess að fá till. samþ. liggur ekki aðeins í því, að þar með komi fram þingviljinn, heldur einnig í því, að tryggt verði, að með málið verði farið af stofnun, sem talizt gæti fulltrúi fyrir allar pólitískar skoðanir, sem uppi eru í landinu. Því legg ég á móti því, að samþ. verði till. um að vísa málinu til stj. Hinsvegar er ekki nema sjálfsagt, að hv. þm. gefist kostur á að athuga málið betur, ef þeir óska að bera fram brtt. eða samþ. þál. í nokkuð öðru formi en hér liggur fyrir.