11.05.1938
Sameinað þing: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í D-deild Alþingistíðinda. (2938)

130. mál, fullveldisminning

Flm. (Thor Thors):

Þessi þáltill. er þess efnis, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að 20 ára fullveldis þjóðarinnar 1. desember þ. á. verði minnzt á virðulegan og viðeigandi hátt á Íslandi og erlendis, þar sem því verður við komið. Það má telja víst, að þetta 20 ára afmæli fullveldis þjóðarinnar, sem nú fer í hönd, 1. desember næstk., verði síðasta stóra afmæli fullveldisins meðan núverandi sambandslög eru í gildi. Þegar þjóðin gat minnzt 10 ára afmælis fullveldisins, var það gert með nokkuð öðrum hætti og virðulegri en tíðkazt hefir árlega að minnast afmælis fullveldisins. Þá voru hér samkomur í Reykjavík og víðar, sem ríkisstj. gekkst fyrir, og einnig mun þá fullveldisafmælisins sérstaklega hafa verið minnzt í Kaupmannahöfn af Íslendingum þar, sem alltaf er töluvert af, og íslenzka sendiherranum. Ég tel, að hin mesta nauðsyn sé á að nota þetta tækifæri til þess að vekja athygli á þjóð vorri sem víðast erlendis á þessum merkisdegi. Við þurfum að vekja athygli á þjóðinni og atvinnuvegum hennar, og við þurfum að minna á sjálfstæðisbaráttu hennar á undanförnum öldum og leggja ríka áherzlu enn á ný á það, að alheimi sé það ljóst, að við erum fullvalda þjóð og ætlum að halda áfram að vera það.

Ég geri ráð fyrir, að ekki geti verið mikill ágreiningur meðal hv. þm. um það, að það væri goðgá af okkar hendi að láta slíkt tækifæri ganga okkur ónotað út greipum. Um hitt má frekar ræða og deila, á hvern hátt við gætum bezt notað þennan dag til þess að okkur yrði sómi og gagn að. Hér innanlands er sjálfsagt, að dagsins sé minnzt með almennum frídegi um land allt og hátíðahöldum. Ég teldi mjög vel fara á því, að guðsþjónustur yrðu þá víðsvegar um land til minningar þeirrar baráttu, sem liggur bak við þá fullveldisviðurkenningu, sem við þá vildum minnast. Ennfremur fyndist mér mjög vel við eiga, að ríkisstj. og fulltrúar allra stjórnmálaflokka á landinu notuðu daginn til þess að ávarpa þjóðina sérstaklega gegnum útvarpið. Þá tel ég einnig nauðsyn á, að fólkinu sé gefinn kostur á því að minnast þessa dags með gleði og skemmtunum sem víðast og að sérstök samkoma verði haldin hér í höfuðstaðnum, þar sem allir stjórnmálaflokkar lýstu m. a. áliti sínu á því, sem þessi dagur væri haldinn hátíðlegur til minningar um, fullveldi voru, og þeirri baráttu, sem við höfum orðið að heyja til þess að fá það viðurkennt og fengið okkur í hendur. Þá er það einnig nauðsynlegt, að öll blöð landsins helgi þennan dag efni sitt algerlega þessum degi, til þess enn frekar en með því, sem ég hefi minnzt á, að það verði brýnt fyrir þjóðinni, hve mikið hún hefir unnið í baráttunni og hve vel hún þarf að halda saman til þess að ná hinu endanlega takmarki.

Ég fel ennfremur nauðsynlegt, að með sambandsþjóð vorri verði þessa dags alveg sérstaklega minnzt, fyrst og fremst af Íslendingum, sem jafnan eru nokkuð fjölmennir í Kaupmannahöfn. Þá tel ég einnig, að mælast þurfi til þess, að konungur Íslands sýni deginum sérstakan sóma og að sendiherra þjóðarinnar í Danmörku noti einnig tækifærið til þess að auglýsa þessa hátíð vora. Þá er það einnig nauðsynlegt, að Íslendingar í Danmörku komi á framfæri í öllum stórblöðunum þar áliti sínu á fullveldinu og því, sem framundan er í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Það er einnig nauðsynlegt, að sem víðast um heim komi í blöðum greinar þennan dag um frelsisbaráttu og fullveldi okkar í nútíð, fortíð og — eftir því sem unnt er í framtíð. Það ætti að vera hægðarleikur að koma slíkum greinum á framfæri gegnum fulltrúa landsins víðsvegar um heim. Slíkar blaðagreinar gætu haft mjög mikla þýðingu til þess að auglýsa þjóðina fyrir alheimi, e. t. v. meiri þýðingu heldur en við gerum okkur ljóst. Ég minnist þess t. d. frá ferðum mínum jafnvel í fjarlægum heimsálfum, eins og t. d. í Suður-Ameríku, að ég hefi orðið þess var hjá fjölda manna, að það eina, sem þeir í raun og veru vissu um Ísland, var það, að við hefðum haldið hátíðlegt þúsund ára afmæli Alþingis. Við það tækifæri var Íslandi meiri gaumur gefinn en sennilega nokkru sinni fyrr, og ekkert heimsblaðanna lét þennan atburð, þó að hann væri hátíðlegur haldinn hjá smáþjóð norður við heimskaut, framhjá sér fara. Sá atburður hefir því miklu um þokað um að gera miklu fleiri mönnum ljóst en áður, hverjar eru aðstæður þjóðar vorrar, hvernig sjálfstæðisbaráttu hennar hefir verið háttað og við hvaða kost hún á að búa.

Það væri einnig æskilegt, ef unnt væri að koma því við sakir kostnaðar, að fulltrúum Íslands erlendis, þ. e. a. s. þeim þjónustumönnum í utanríkisþjónustu Dana, sem með mál okkar eiga að fara, yrði falið að gera sitt til þess að auglýsa þennan dag á þann hátt, sem virðulegast yrði við komið. Það er gert ráð fyrir því í þessari þáltill., að ríkisstj. ráðgist við utanríkismálan. um það, á hvern veg þessu yrði bezt við komið erlendis, og má telja víst, að allir stjórnmálaflokkarnir vilji stuðla að því, að þessa merkisdags í sögu þjóðarinnar verði minnzt með sem mestum sóma.

Ennfremur er getið um það í þáltill., að æskilegt væri, að hægt yrði að gefa út sérstakt minningarrit, og yrði það birt á a. m. k. einu heimsmálanna, auk íslenzku. Ég hefi orðað það svo, að þetta væri „æskilegt“, til þess að ríkisstj. sé ekki við það bundin, ef kostnaður skyldi reynast of mikill. En ég vil geta þess, að vandað rit um sjálfstæðisbaráttu vora og hag þjóðar vorrar gæti fært með sér tekjur, því að sennilega mætti selja ritið síðar, t. d. á heimssýningunni í New York. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, höfum við ákveðið að leggja í það djarfa fyrirtæki að taka þátt í alheimssýningunni í New York á næsta ári og skipa okkur þar á bekk með stórveldum heimsins. Það gefur að skilja, að við höfum mjög veika aðstöðu til að vekja athygli á okkur þar, og mun mörgum þykja það fífldjarft af okkur að ráðast í slíkt stórræði. En að sjálfsögðu verður vandað svo til framkomu okkar sem unnt er, og má e. t. v. vænta þess, að það óbreyttasta geti vakið á sér athygli innan um allan þann íburð, sem stórþjóðirnar geta leyft sér.

Ég hefi flutt þessa till. af því að mér er það ljóst, og enda öllum hv. þm., að oss er hin mesta nauðsyn á því að vekja athygli sem víðast á fullveldi voru, og ég veit, að aukin athygli á Íslandi og Íslendingum og sögu þeirra þýðir aukna samúð annara þjóða með okkar litlu þjóð, sem væri okkur ómetanleg.