03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Eiríkur Einarsson:

Mér þykir rétt að fara hér fáeinum orðum um eitt atriði, sem kemur málinu við, þegar rætt er um ráðstafanir á því fé til vegagerða í landinu, sem frv. þetta fjallar um. Það er í raun og veru stærsti liðurinn, sem þar er um að ræða; það er féð til Suðurlandsbrautarinnar. Það hefði sannarlega einhverntíma verið gleðiefni og fagnaðar fyrir Sunnlendinga, að verja á svo miklu fé, sem frekast er kostur á, miðað við núverandi árferði, til þess að koma þessari vegagerð áfram. En ég fullyrði, ekki aðeins fyrir sjálfan mig, heldur líka veit ég fyrir hönd margra annara, að í sambandi við þessi fjárframlög til Suðurlandsbrautarinnar eigi sér stað nokkrar efasemdir um, að í þessu Suðurlandsbrautarmáli sé eins giftusamlega að verki verið sem vera bæri. Meðan þetta mál er ekki útkljáð og vegurinn um Krísuvíkurleiðina tiltölulega skammt á veg kominn þá hygg ég, að úr því maður hefir sannfæringu um, að hér sé ekki rétt að farið, þá sé rétt að segja álit sitt um máli ð. Og mitt álit er, að hér sé langt frá því að vera rétt á málum haldið með því að leggja veginn um Krísuvíkurleiðina. Er ég því á móti þessu, að Suðurlandsbrautin verði lögð eins og nú er í ráði, um Krísuvíkurleiðina. Ég er öruggur um það, að framtíðin muni verða mér sammála um þessa hluti, þegar reynsla fæst um þá. Í þeim áætlunum, sem vitamálastjóri stóð fyrir og erlendur verkfræðingur, var lagt til, að vegurinn væri lagður um Þrengslin. Síðan kom þessi leið, um 32 km. lengri, til sögunnar, sem Alþ. samþ., að vegurinn yrði lagður eftir. Þarna er ágreiningur um svo mikilsvarðandi málefni, að ég skil í raun og veru ekkert í því, að vegamálastjóri landsins, sem gegnir svo ábyrgðarmiklu starfi fyrir landið, skuli vera eftir sem áður í þessu starfi, að búið er að ganga svo gersamlega á móti hans till. í þessu efni. Ég get ekki séð annað en að annaðhvort hefði átt að víkja honum frá starfi eða að Alþ. hefði að öðrum kosti átt að víkja frá kreddu sinni í þessu efni.

Þó að lagning Suðurlandsbrautarinnar um Krísuvík sé komin nokkuð áleiðis, og þó að það sé ekki nema gott út af fyrir sig um það að segja, að fátækur og vinnuþurfandi verkalýður í Hafnarfirði verði þar nokkurs góðs aðnjótandi, þá má maður ekki kaupa það of háu verði. Það þykir að sumu leyti böl og blóðpeningar, hve mikið þarf að greiða á hverju ári til atvinnubóta, en ef fólkið þarfnast þess til þess að svelta ekki, þá verður að greiða það. Samhliða þessu er annað atriði, sem oft og einatt er ekki gefinn nærri nógu mikill gaumur, sem sé það, að þeim störfum, sem unnin eru af þessum ástæðum, sé fylgt á eftir með nógu mikilli hagsýni og þau verk unnin, sem geta orðið að mestu gagni. Ég held einmitt, að þarna sé að leita ástæðunnar til þeirrar skökku stefnu, sem tekin hefir verið í þessu máli. Þess hefir ekki verið gætt, þegar þessi stefna var tekin, að eitt atriðið hefir verið látið hafa of mikið að segja á kostnað annars atriðis, sem þar átti að ráða meira. En ég held ekki, að það sé of seint að snúa við í þessu efni.

Sá spotti, sem búið er að leggja úr Hafnarfirði, hefir gert mönnum gott að því er starfið snertir, og mætti kannske koma að einhverjum notum, en ég hefi enga trú á því — og er þar á sama máli og vegamálastjóri og fjölmargir fleiri fróðir og gegnir menn um það —, að framtíðin heimti Suðurlandsbraut á allt öðrum stað, miklu skemmri og að sama skapi örugga eins og þessi leið suður með sjó, sem Sunnlendingar munu aldrei sætta sig við, því að hún er í berhöggi við veruleikann. Það er álit margra, að öruggast sé að hafa vetrarbraut þarna, en sumarveg á öðrum stað, skemmri leið. Eg vil í þessu sambandi minna á það, að hingað til hefir ekki reynzt svo auðvelt að viðhalda vel einni langleið, hvað þá heldur ef varðveita ætti tvær nokkurn veginn samhliða langleiðir sína fyrir hvora árstíð. Tel ég því tvímælalaust heppilegra, bæði af þessum ástæðum og öðrum, sem ég hefi tekið fram, að þessi væntanlega Suðurlandsbraut verði lögð um Þrengslin.

Ég veit, að þetta eru ekki nema aðvörunarorð, en það er skoðun mín, að hér hafi ekki verið farið rétt að, enda mun framtiðin taka í strenginn með það, en eins og ég sagði áðan. álit ég ennþá hægt að leiðrétta þetta, eins og það þarf að leiðrétta margt, sem gert hefir verið á liðna tímanum og nauðsynin og reynslan segir betur til um, að þurfi að breyta til batnaðar og snúa í aðra átt.