12.05.1938
Sameinað þing: 31. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í D-deild Alþingistíðinda. (2945)

129. mál, ríkisbúin á Vífilsstöðum og Kleppi

*Flm. (Jón Pálmason):

Tími þingsins er orðinn lítill, svo ég sé mér ekki fært að hafa langa framsöguræðu um þessa till., enda gerð skýr grein fyrir henni í grg., og eins tók ég það fram í útvarpsumr. fyrir skömmu, hvaða orsakir liggja til þess, að ég og hv. þm. Borgf. berum fram þessa till. um að reyna að leigja þau ríkisbú, sem um ræðir í till. Ég skal taka það fram, að búin yrði að leigja með því skilyrði, að sjúkrahúsin fengju mjólk við ekki hærra verði en nú er, og einnig yrðu þeir menn eða félög, sem til greina kæmu með að taka búin á leigu, að setja hæfilegar tryggingar fyrir því, að þeir héldu búunum í góðu standi.

Það, sem fyrir okkur flm. vakir, er að reyna með þessari tilraun að vita, hvort ekki gæti tekizt að koma fjárhagsafkomu búanna úr því ástandi, sem það er nú komið í. Tel ég það leið út úr þeim ógöngum, sem þau að ástæðulausu eru komin í, að reyna að leigja þau einstaklingum eða félögum til rekstrar.

Skal ég svo ekki frekar eyða að þessu orðum, nema tilefni gefist til.