01.03.1938
Neðri deild: 11. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (2950)

17. mál, síldarverð

Flm. (Einar Olgeirsson):

Í sambandi við umræður, sem áttu sér stað á síðara þingi fyrra árs við afgreiðslu laga um síldarverksmiðjur ríkisins, kom fram ákveðinn þingvilji, þótt óbeint væri, um það, að verksmiðjunum yrði gert mögulegt að greiða fullt áætlunarverð til síldveiðenda við afhending síldarinnar, eða a. m. k. áður en vertíð væri lokið. Það kom strax í ljós, að meiri hl. þingsins var á þessu máli. En það kom líka strax fram hótun um, að þessi þingvilji yrði virtur að vettugi, og síðan hefir verið birt, að bankaráð Landsbankans hafi samþ. að lána ekki verksmiðjunum rekstrarfé til að greiða meira en í mesta lagi 85% af áætlunarverði síldarinnar. Þess vegna álít ég rétt, að hv. deild láti ákveðinn vilja sinn í ljós í málinu.

Það hefir alltaf verið vilji sjómanna og útgerðarmanna að fá fulla greiðslu strax á vertíðinni. Málið kemur ekki aðeins þeim við, sem skipta við síldarverksmiðjur ríkisins, heldur öllum. sem selja síld í bræðslu við aðrar verksmiðjur. Ef ríkisverksmiðjurnar greiða ekki nema 75–85% af áætlunarverði, má búast við, að aðrar verksmiðjur þurfi ekki að kaupa síldina miklu dýrar til að fá hana, og það þýðir, að sjómenn og útgerðarmenn missa af 15–20% af verðmæti aflans.

Nú hefir hinsvegar orðið sú breyt. á afurðaverðinu, að síldarolía hefir fallið mjög tilfinnanlega, eða úr 21–22 £ tonnið niður í 121/2£ tonnið, — fallið fast að því um helming. Þar sem málið til bræðslu var selt í fyrra á 8 kr., er vitað, að nú muni ekki fást fyrir það nema 4–4,50 kr. — því meiri ástæða er nú en fyrr til að greiða strax fullt áætlunarverð fyrir síldina. Í raun og veru fara þarna saman hagsmunir þeirra, sem gera út, og síldarverksmiðja ríkisins. Þær verða að bjóða það verð, að hægt yrði að fá menn til að gera út og að kjör sjómanna verði viðunandi. Það er auðséð, að ef verðið fer niður í 3.50–400 kr. útborgaðar, þá er bókstaflega hætta á því, að flotinn fengist ekki út á síldarmiðin. Við vitum allir, hvað það þýðir. Ef ekki er hægt að fá næga síld í verksmiðjurnar og láta þær starfa sæmilega stöðugt, er fjárhagur þeirra settur í bráðan háska. Í öðru lagi er gjaldeyrisástand landsins nógu slæmt. þótt því sé ekki teflt í tvísýnu, hvort hægt verði að fá út flotann um síldveiðitímann. Í því liggur tvímælalaust meiri hætta en í hinu, að borga síldveiðendum út fullt áætlunarverð. Við vitum, að í fyrra var það síldin, sem bjargaði greiðslujöfnuðinum. Nú er ekki svo álitlegt með þorskveiðarnar, þegar veiðitækin liggja ónotuð, togararnir bundnir, og við sjáum á markaði landbúnaðarafurða hina aðsteðjandi kreppu, — þá má það ekki koma fyrir, að slíkar hömlur verði settar á síldveiðarnar.

Mér er kunnugt, að meiri hl. í stjórn síldarverksmiðjanna er því fylgjandi, að greitt sé fast og fullt verð fyrir síldina. Sú ákvörðun er tekin út frá því sjónarmiði, að fyrir þær sem fyrirtæki sé það langheppilegasta verzlunaraðferðin. Það eina, sem getur hindrað, er, ef stjórn Landsbankans beitir sér sérstaklega harðvítugt gegn því. Ég hygg, að þál., sem samþ. væri hér á Alþingi, geti e. t. v. ráðið úrslitum um þetta.

Ég vonast því til, að hv. deild sjái sér fært að samþ. þessa hóflegu till., sem aðeins er til þess ætluð, að þingið láti í ljós vilja sinn.