10.03.1938
Sameinað þing: 6. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í D-deild Alþingistíðinda. (2984)

10. mál, Stórhöfðaviti í Vestmannaeyjum

*Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti! Till. shlj. þessari var flutt á Alþ. 1934 og samþ. þá. Hún var flutt þá eins og nú eftir áskorun sjómanna í Vestmannaeyjum, sem þá þegar töldu vitann á Stórhöfða lýsa mjög dauft, svo dauft, að það væri til mikils baga fyrir siglingar. Það er meira að segja svo, að þegar komið er austan að Eyjum, þá kemur fyrst í ljós lítill viti, Urðaviti, sem ekki hefir eins mikið ljósmagn og Stórhöfðavitinn.

Það var samþ. 1934 að auka ljósmagn vitans, en ekkert hefir verið framkvæmt í því. Það getur stafað nokkuð af því. að á sama þingi var flutt af öðrum þm. till. um að setja miðunarvita í Vestmannaeyjum. Nú er þar fyrir radióviti, og þegar till. kom um að setja þar miðunarvita. þá ætla ég, að fjvn. hafi gefið henni meiri gaum en till. um að auka ljósmagnið á sjálfum ljósavitanum. Það stóð til um tíma að setja miðunarvita í Eyjum, en þegar farið var að rannsaka það mál, þá komust menn að raun um, að það bæri ekki að setja miðunarvita á þennan stað. Af hvaða ástæðum það hefir verið, er mér ekki fyllilega ljóst, en nokkuð er það, að ekkert hefir verið gert í þessu efni, og miðunarvitinn hefir ekki verið byggður. Nú er það vitanlegt, að þó miðunarviti hefði verið byggður, þá hefði hann aldrei komið eins mörgum að gagni eins og ljósaviti, því hann kemur öllum skipum að gagni, bæði stórum og smáum og hverskonar útbúnað, sem þau hafa. En miðunarviti kemur þeim einum að gagni, sem hafa sérstakan útbúnað um borð. Mér hefir því skilizt, að hugmyndin um að setja miðunarvita sé lögð á hilluna um ófyrirsjáanlegan tíma, en jafnvel þó að svo verði, þá er samt mikil þörf á því að bæta ljósið í vitanum.

Nú er þetta mál tekið upp á ný, og fyrir þinginu liggja áskoranir um þetta mál frá 72 bátaformönnum austur þar og frá skipstjórafundi, sem haldinn var þar 28. febr. í vetur. Í fundargerðinni frá þeim fundi er rætt almennt um bætt ljós við Eyjar, en þó einkum um aukið ljósmagn á Stórhöfðavita, og svo nýjan vita á Þrídröngum. Það mál hefir verið borið fram á öðrum vettvangi, og geri ég ráð fyrir, að það nái samþykki, þar sem sjútvn. þessarar d. hefir lagt það til.

Hér liggur fyrir þörfin á því að auka ljósmagn Stórhöfðavitans, og það sem fyrst. Það er í rauninni ekki verjandi, að framkvæmdarvaldið skuli allan þann tíma, síðan 1934 að till. var samþ., hafa látið úr hömlu dragast að gera nokkra tilraun til þess að bæta ljósið á þessum stað. En þar sem það hefir ekki verið gert, þá sé ég mér ekki annað fært en að taka upp málið á ný á Alþ., og vonast ég til, að undirtektir þingsins verði hinar sömu og áður, en framkvæmdir framkvæmdarvaldsins verði betri og fljótari en átt hefir sér stað í þessu máli.

Ég skal svo ekki tefja fyrir Alþ. með því að lesa upp fundargerðina og áskoranir þær, sem fyrir þinginu liggja. Þær liggja fyrir á lestrarsalnum, og efni þeirra hefir verið lýst í báðum þingdeildum. Ég mun líka fúslega á síðari stigum þessa máls gefa þær upplýsingar, sem óskað kynni að vera, og um það, hversu mikil hætta bátaflotanum við Vestmannaeyjar stafar af því, að ljósmagn Stórhöfðavitans er svona lítið. Ennfremur er hægt að fá umsagnir skipstjóra á millilandaskipunum og öðrum skipum um það, að vitinn sést mjög oft afarilla. — Ef þetta mál þarf að fara í n., þá geri ég ráð fyrir, að aðeins sé um fjvn. að ræða, og vil ég því mælast til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til fjvn.