10.03.1938
Sameinað þing: 6. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (2986)

10. mál, Stórhöfðaviti í Vestmannaeyjum

*Flm. (Jóhann Jósefsson):

Mér þykir vænt um að heyra á ræðu hv. 7. landsk., að verið er að gera tilraun á þessum stað, og ég verð að viðurkenna, að ég get ekkert um það sagt fyrirfram, frekar en hv. 7. landsk., hvernig sú tilraun kann að reynast. Færi svo, að hún verði ekki fullnægjandi, eða þær umbætur, sem á að gera á þann veg, þá verður að taka til annara ráða.

Ég get verið samþykkur hv. 7. landsk. um það, að sjá til þessar tvær vikur, sem tilraunin stendur yfir, og býst ég ekki við, að málið verði afgr. frá fjvn. fyrr en eftir tvær vikur hvort sem er. En hvað sem öðru líður, þá ætla ég að vænta þess, að bæði hv. 7. landsk. og aðrir hv. þm. séu sammála um, á hvern hátt sem það kann að vera gert, að verða þurfi við þeim kröfum um aukið ljósmagn á þessum stað, sem voru fyrst bornar upp á þinginu 1934 og enn eru bornar hér fram.

Að svo mæltu vil ég þakka hv. 7. landsk. fyrir það, sem hann hefir gert í þessu máli, og vænti, að þær tilraunir, sem gerðar verða, og aðrar framkvæmdir frá hans hálfu megi með samþykki þingsins verða til þess að leysa þessi vandræði.