26.03.1938
Sameinað þing: 10. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (3006)

31. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Skúli Guðmundsson:

Hæstv. fjmrh. hefir nú tekið rækilega til meðferðar þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, og um leið svarað framsöguræðu hv. þm. Vestm., 2. flm. frv. En ég vil þó fara nokkrum orðum um málið, bæði einstaka liði þessarar þáltill. og einnig einstök atriði, sem fram komu í ræðu hv. þm.

Í 1. lið þessarar þáltill. er þess krafizt, að innflutningur á kornvöru og nýlenduvöru verði gefinn frjáls frá næstu áramótum. Og er þessi krafa rökstudd með því, að þýðingarlaust sé að hafa nokkra takmörkun á innflutningi þessarar vöru, vegna þess að komið hafi í ljós, að innflutningur á henni hafi á undanförnum árum verið veittur eftir neyzluþörfum landsmanna. Þetta mun að miklu leyti vera rétt, þ. e. a. s., það hefir ekki verið skorinn niður innflutningur á þeim vörutegundum, sem notaðar hafa verið til manneldis, en hitt vil ég fullyrða, að ef engar hömlur hefðu verið á innflutningi þessarar vöru undanfarið, þá hefði korninnflutningurinn orðið miklu meiri en hann hefir reynzt samkv. þeim skýrslum, sem hv. þm. Vestm. var að lesa upp í sinni ræðu. Mér er sem sé kunnugt um, að það hefir í mörgum tilfellum verið dregið mjög úr innflutningi á erlendu skepnufóðri frá því, sem beðið hefir verið um. Nú er því ekki að neita, að það getur verið óhjákvæmilegt að flytja inn eitthvað af kornvöru til skepnufóðurs á ýmsum tímum, og hefir enda alltaf verið gert, en ég álít þó nauðsynlegt að hafa á því nokkra takmörkun, því að við vitum, að það er svo með margar landbúnaðarvörur nú, að takmarkað er, hvað hægt er að selja mikið af þeim, bæði innanlands og erlendis, og sumar er erfitt að selja nema í þeim löndum, sem aðeins greiða andvirðið í vörum. Það getur því verið í mesta máta óhyggilegt að flytja ótakmarkað skepnufóður inn frá útlöndum, til þess á þann hátt að auka mjög framleiðslu á landbúnaðarvörum, sem erfitt er að koma í verð. En þetta er bara önnur hlið málsins. Hin hliðin er sú, að það væri í raun og veru ekkert vit í því að gefa þennan innflutning frjálsan, vegna þess að eins og nú stendur og háttað hefir verið undanfarið, þá er nauðsynlegt að beina kaupunum til ákveðinna landa, til þess á þann hátt að skapa markaðsmöguleika fyrir íslenzkar afurðir þar. Þannig hefir innflytjendum á undanförnum árum verið gert að skyldu að kaupa allt kaffi, sem til landsins flyzt, frá Brazilíu, og einnig hveiti að einhverju leyti frá ákveðnu landi. Er þetta m. a. fyrir mjög ákveðna ósk Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, sem hefir lagt á það ríka áherzlu, að þessar vörur væru keyptar í þessum ákveðnu löndum, til þess að greiða á þann hátt fyrir sölu íslenzks fisks þar. — Þó að ekki væri öðru til að dreifa en þessu, þá er þar um svo mikið atriði að ræða, sem ekki er hægt að ganga framhjá, og fyrir þá sök væri það óhæfa, að þessu væri sleppt alveg lausu, eins og hér er farið fram á.

Í 2. lið till. er farið fram á, að breytt sé starfsreglugerð gjaldeyris- og innflutningsnefndar og önnur ný gefin út. Það kom skýrt fram í ræðu hv. þm. Vestm., hvaða atriði það er í þessari starfsreglugerð, sem hann sérstaklega telur athugavert, og það er ákvæðið um, að kaupfélög og pöntunarfélög skuli fá, ef þau krefjast þess, innflutning, sem reiknaður sé út eftir félagsmannatölu og tölu heimilismanna hjá þeim, miðað við fjölda landsmanna í heild. Þetta ákvæði var, eins og hæstv. fjmrh. hefir skýrt, sett með það fyrir augum að tryggja það, að landsmenn væru á hverjum tíma sjálfráðir um, hvernig þeir höguðu sínum viðskiptum, hvort þeir verzluðu við kaupmenn eða kaupfélög. Gegn þessu komu strax í upphafi ákveðin andmæli frá kaupsýslumönnum, og yfirleitt frá Sjálfstfl., sem til skamms tíma hefir heimtað breyt. á þessu, þannig að úthlutun innflutningsleyfa yrði einungis miðuð við fyrri innflutning verzlananna. Og í samræmi við þessa skoðun þeirra fluttu þessir sömu hv. þm., sem nú flytja þessa þáltill., frv. um svipað efni á síðasta þingi. Og þá var, eins og hv. þm. Vestm. tók fram, í þeirri upphaflegu till., eins og hún var orðuð, krafizt breyt. í þessa átt, þannig að innflutningurinn yrði miðaður við fyrri innflutning einstakra verzlana. En þeir munu þó, þessir hv. þm., við nánari athugun hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta væri ekki sanngjarnt. Þess vegna báru þeir fram á síðasta þingi brtt. við þessar till. sínar þá, sem var þannig, ef ég man rétt, að till. þeirra þá urðu við breytinguna svipaðar þeirri þáltill., sem nú liggur hér fyrir. Enda virtist mér það koma greinilega fram í ræðu hv. þm. Vestm., að hann er mér að miklu leyti sammála um þetta atriði einmitt, nú orðið a. m. k. Hann sagði í sinni ræðu, að borgararnir æsktu þess helzt að vera frjálsir í því efni, hvort þeir hafi viðskipti við kaupmenn eða kaupfélög. Og ég gat ekki skilið hann öðruvísi en að hann áliti, að þetta ætti þannig að vera.

Ég er honum sammála um þetta. Einmitt þegar hann er kominn á þessa skoðun, breytir hann þáltill. sinni frá síðasta þingi. En þegar hann viðurkennir, að þetta eigi að vera aðalregla, eins og ég viðurkenni, að landsmenn eigi að vera frjálsir um það, hvernig þeir hagi sínum viðskiptum, þá get ég ekki skilið, hvers vegna hann er ekki fylgjandi höfðatölureglunni. (JJós: Þegar hún er látin gilda bara fyrir annan aðiljann). Hv. þm. nefndi sem dæmi, að eitthvert kaupfélag hefði 100 meðlimi í dag, en hefði svo 200 meðlimi að ári, og þá fengi það aukinn sinn innflutning í réttu hlutfalli við það. tvöfaldaðan. En það má eins snúa þessu við. Kaupfélag, sem hefir í dag 200 meðlimi og fær innflutning samkv. því. hefir svo á næsta ári 100 meðlimi. Þá verður minnkaður innflutningur þess kaupfélags um helming.

2. liður þessarar þáltill. er þannig orðaður, að ef hann er tekinn bókstaflega eftir orðanna hljóðan, þá efast ég um, að framkvæmd hans yrði á þann hátt, sem flm. ætlast til. Þar segir (með leyfi hæstv. forseta): „Að núverandi starfsreglugerð gjaldeyris og innflutningsn. verði úr gildi felld og ný reglugerð gefin út, þar sem m. a. öllum kaupmönnum, smásölum sem heildsölum, séu tvímælalaust tryggð sömu réttindi til innflutnings og pöntunar- og kaupfélögum, ...“ Hver er þá þessi réttur, sem pöntunarfélög og kaupfélög hafa nú? Hann er sá, að þau eiga að fá á hverjum tíma innflutning handa sínum eigin félagsmönnum. En þau hafa haft allmikil viðskipti við utanfélagsmenn. En slík viðskipti eru ekki tekin til greina við úthlutun innflutningsleyfa, heldur aðeins viðskipti þeirra við kaupfélagsmenn. M. ö. o., þau fá innflutning bara handa eigendum kaupfélaganna. Og ef ætti að taka bókstaflega það, sem er í þessum 2. lið þáltill., þá er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en svo, að kaupmenn ættu aðeins að fá innflutning handa sér og sínum fjölskyldum, því að það er sami réttur og kaupfélögin hafa nú. Ég býst ekki við. að þetta sé meining hv. flm. þáltill. Ég býst við, að kaupmönnum þætti þetta lítill skerfur.

Svo segir hv. flm. í framhaldi af þessu ( í 2. lið þáltill.): „og réttur þeirra neytenda, sem kjósa að skipta við kaupmannaverzlanir, sé viðurkenndur til jafns við rétt annara neytenda“.

Nú skulum við taka sem dæmi, að það væri reiknað út eftir félagsmannatölu hjá kaupfél., að ¼ landsmanna væri meðlimir í kaupfélögum, að meðtöldum heimilismönnum þeirra kaupfélagsmanna, sem eru heimilisfeður, og nú færi gjaldeyris- og innflutningsnefnd eftir núgildandi reglum um úthlutun innflutningsleyfa. Þá fengju kaupfélögin ¼ hluta allra innflutningsleyfa, en kaupmenn afganginn, ¾ hluta. Þá get ég ekki séð, hver munur er á rétti neytenda þeirra annarsvegar, sem skipta við kaupfélög, og þeirra hinsvegar, sem skipta við kaupmenn. Ég fæ þess vegna ekki skilið meininguna, sem liggur á bak við þennan 2. lið þáltill. Aðalatriðið er þetta, að hv. þm. Vestm. lýsti því yfir í sinni ræðu, að hann teldi, að það ætti svo að vera, að borgararnir, sem hann svo nefndi, ættu að vera frjálsir um það, hvort þeir verzluðu við kaupmenn eða við kaupfélög. Og það er ekki hægt að ná því marki með öðru en því, að innflutningur kaupfélaganna og kaupmanna færist til eftir því, hve margir þátttakendur eru í kaupfélögunum á hverjum tíma.

Þá er það aðeins einn liður þarna enn, sem ég vil fara um nokkrum orðum, þ. e. 7. liðurinn, um að Verzlunarráð Íslands og SÍS fái heimild til þess að skipa trúnaðarmenn til þess að athuga kærur, sem fram kunna að koma út af framkvæmd þessara l. Ég vil undirstrika það, sem hæstv. fjmrh. gat um, að þetta ætti að vera óþarft, vegna þess að nú er einn af nefndarm. í gjaldeyris- og innflutningsnefnd heildsali hér í bænum, sem er þátttakandi í Verzlunarráði Íslands. Kaupmenn eiga greiðan aðgang að honum með kærur, sem þeir vilja koma á framfæri. Og hann ætti að geta kynnt sér málin og séð um, að þeir (kaupmenn) séu látnir njóta réttar síns.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. En ég vil leggja mjög ákveðið á móti því, að þessi þáltill. verði samþ. En það eru þó einstaka atriði í henni, sem gætu komið til athugunar. Og ég tel, að hæstv. ríkisstjórn sé mjög vel treystandi til þess að athuga það, sem ástæða væri að taka til greina í þáltill. Geri ég það því að till. minni, að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.