24.03.1938
Sameinað þing: 8. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í D-deild Alþingistíðinda. (3025)

55. mál, sjúkrasamlög

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti! Ég get verið stuttorður um þessa till. Það er nokkuð langt síðan hún var lögð hér fram, og síðan hafa orðið þó nokkrar breyt. á þessu máli. Í fyrsta lagi sú breyt., að hæstv atvmrh. hefir nú sagt af sér, og málið er því komið undir annan ráðh., sem sé hæstv. forsrh. Ég geri nú ekki ráð fyrir, að það þurfi að skýra þetta mál fyrir hv. þm. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að þessar breytingin var gerð á alþýðutryggingarlögunum á síðasta þingi. þá voru teknar upp í 11. gr. þessa frv. breytingar, sem máli skipta á skipun stjórna sjúkrasamlaganna. Það var talað um það þá, og ég held, að það sé nokkuð almenn skoðun ennþá, að sú breyt., sem þar var gerð á, sem sé að taka þetta vald af bæjarfélögunum, að skipa alla stjórn sjúkrasamlaganna, væri komin af því, að stjórnarfl. vildu taka þetta vald af bæjarstj. Reykjavíkur. Ég held, að ekki sé hægt að mótmæla því með rökum, að jafnmikilvæg starfræksla í bæjum ætti að vera undir stjórn, sem Bæjarstj. skipaði, þannig að það væri tryggt, að meiri hl. sjúkrasamlagsstjórnar væri í samræmi við vilja meiri hl. í hverju bæjarfélagi. Þetta mál út af fyrir sig er nú ekki hér í raun og veru til umr., heldur hitt, að sú skipun var á gerð, að tryggingarráð skyldi eiga oddamanninn í sjúkrasamlagsstjórnum. Og í 11. gr. þessara laga er þannig fyrir mælt, að ráðh. skuli skipa formann sjúkrasamlaganna eftir till. tyggingarráðs. Nú þegar þessi till. var borin fram, hafði ekki ríkisstj. eða ráðh. framkvæmt lögin nema á einum einasta stað, svo ég til vissi. Það var í Reykjavík. þar sem svo hagaði til, að hrundið var manni. sem meiri hl. bæjarstj. hafði til kjörið, og settur í staðinn andstæðingur bæjarstjórnarmeirihl. Nú er ekkert til þess að segja um þessa einu skipun, fyrst tryggingarráð vildi svona vera láta og það var samkv. lögum. Það var í sjálfu sér ekki hægt fyrir ráðh. að láta öðruvísi vera, og hann var sjálfráður, og sennilega réttast hjá honum að láta þetta fara fram strax. En af því að þetta kom nú ekki til framkvæmda í öðrum kaupstöðum, þá sá ég ástæðu til að bera fram þessa þáltill., sem hnígur í þá átt, að sama sé nú látið ganga yfir aðra kaupstaði. En eftir að þetta skeði hefir það nú komið fram, sem ég sagði áðan, að ráðherraskipti hafa orðið að því er snertir meðferð þessara mála. En samt sem áður hafði ráðh. skipað allmarga sjúkrasamlagsformenn, ég ætla að það hafi verið annaðhvort daginn, sem hann sagði af sér, eða daginn eftir, og meðal þeirra hefir hann skipað mann, sem alls ekki á að skipa samkv. lögum, því að það er allt annar maður heldur en tryggingarráð hafði tiltekið. Þetta er formaður sjúkrasamlagsins í Ísafirði. Ég veit ekki, hvort upp muni koma einhverjar deilur um þetta, hvort það sé lögleysa eða ekki. En ólíklegt þykir mér það, því eftir því, sem ég bezt veit, þá er það orðin föst regla, enda varla vefengt af nokkrum, að þegar svo er tiltekið í lögum, að skipa skuli menn eftir eða samkv. till., þá sé alveg óleyfilegt að skipa annan mann. Þótt það kynni að vera, að ráðh. vildi tregðast við að framkvæmt lögin, þá getur hann ekki framkvæmt eitthvað allt annað en lögin fyrirskipa, þetta var ekki komið til, þegar ég bar fram þessa till., og ég hafði ekki ástæðu til að álíta, að svo mundi verða, en þetta tel ég vera svo mikið atriði, að hv. Alþingi geti ekki látið hjá líða að krefjast þess, að gerð sé sú skipun, sem lögin gera ráð fyrir. Það er vitanlegt, að þegar lögin voru sett, var ekkert haft í hyggju annað en að tryggingarráð skyldi ráða þessu. Bókstafur laganna held ég sé alveg óvefengjanlegur.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þetta mál lengra. Ég bíð þess að heyra, hvort nokkur hv. þm. hefir á móti því að gera þá kröfu, að þau lög, sem þetta sama þing hefir samþ., fái að framkvæmast rétt og nákvæmlega. Þó að það kynni að hafa verið litið svo á, þegur ég bar fram till., að slík fyrirmæli þyrfti ekki, því ráðh. myndi framkvæma lögin innan skamms, þá er nú svo komið, að hér þarf beinnar leiðréttingar við, leiðréttingar, sem ég býst ekki við, að Alþingi sætti sig við annað en að gerð sé. Og er ekki ástæða til að halda, að núv. hæstv. atvmrh. sé nokkuð óljúft að gera þetta.